09.03.1987
Efri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 3. minni hl. félmn. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 804 um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Þetta nál. er frá svokölluðum 3. minni hl. félmn. Til að byrja með, svo að ég vísi til skjalsins sjálfs, verður að viðurkenna að á því er ámóta fljótaskrift eins og því frv. sem hér er verið að fjalla um. Þar kemur fram að ég get ekki mælt með samþykkt frv. óbreytts og segir þar enn fremur, með leyfi herra forseta:

„Greinilegt er að sú lækkun á útsvari, sem frv. gerir ráð fyrir, er of mikil þegar litið er til mismunandi aðstæðna sveitarfélaga og virðist því eðlilegt að taka undir kröfu sveitarstjórnarmanna um að fellt verði úr frv. takmarkandi ákvæði um hluta útsvars af útsvarsstofni og að sú ákvörðun verði í höndum þeirra sem bera pólitíska ábyrgð á afkomu sveitarfélaganna.“

Strjálbýlishreppar á Íslandi munu vera um 150-160 að tölu. Eftir því sem sveitarstjórnarmenn hafa upplýst, og munu þeir þar vera að vitna í gögn sem fengin eru frá fjmrn., er það sýnt að í mörgum ef ekki allflestum þessara strjálbýlishreppa verða nær engar eða mjög litlar útsvarstekjur. Nú er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði þá það sem á vantar til þessara sveitarfélaga en augljóst er að illa mun ganga að reka þessi sveitarfélög öðruvísi en að breytt verði fyrirhuguðum áformum um greiðslumáta úr ríkissjóði til þessara sveitarfélaga og einsýnt að það verður að breyta því til þeirrar áttar að greiðslur komi mánaðarlega til sveitarfélaganna ef vel á að vera. Það hlýtur að liggja í augum uppi að ekkert sveitarfélag, og síst kannske litil sveitarfélög, stendur undir því að taka að láni það sem á vantar til þess að endar nái saman til jafnlangs tíma og gert er ráð fyrir í áætlunum ríkisstjórnarinnar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að kalla þessi frv. nánast frekar áætlanir heldur en lagafrv. því að, eins og ég sagði í máli mínu áðan, miðað við það hvað fljótaskriftareinkennin eru áberandi á öllum þessum frv., er þetta nánast ekkert annað en þáltill. í frumvarpsformi.

„Eins verður ekki séð“, segir enn fremur í nál., „hvaða nauðsyn ber til að félmrh. ákveði hvort sveitarfélög megi ná endum saman í rekstri sínum.“ Minna má á að sveitarstjórnir hafa ekki möguleika til yfirdráttar í Seðlabanka eins og ríkissjóður þannig að það er alvarlegra mál fyrir þær en ríkissjóð ef endar ná ekki saman.

Það hefur gjarnan verið notað sem röksemd fyrir áætlunum ríkisstjórnar í þessum málum að sveitarstjórnir byggi áætlanir sínar á svartsýni og því séu þær yfirleitt í hærri kantinum. Á móti hafa sveitarstjórnarmenn svarað því til að áætlanir ríkisstjórna séu yfirleitt byggðar á of mikilli bjartsýni og að ríkisstjórnir hafi þar að auki þann möguleika, sem hér er getið um, að ef endar ná ekki saman hafa þær lánastofnun sem þær geta gengið að en það hafa sveitarfélögin ekki.

Að vísu má viðurkenna það að gert er ráð fyrir talsverðri viðbót við útsvarsstofninn, að því er virðist allt að 11%. Þar er um nokkuð marga liði að ræða en þyngst vega elli- og örorkulífeyrir og aðrar tekjur frá tryggingakerfinu, niðurfelling námsfrádráttar og niðurfelling eða lækkun frádráttar vegna ökutækjastyrkja, dagpeninga og fleiri hlunninda. Þá ber þess að gæta að það er rökstuddur grunur um það að áætlanir ríkissjóðs um tekjur ríkis og sveitarfélaga af ökutækjastyrkjum og dagpeningum og fleiri hlunnindum séu byggðar á nokkuð mikilli bjartsýni og því það óraunsæjar að ekki verði með góðu móti hægt að líta á þær sem raunverulega breikkun útsvarsstofns.

Sveitarstjórnarmenn sjálfir segja að eðlilegast væri að þeir hefðu frjálsa heimild til þess að ákveða hluta útsvars af útsvarsstofni. Um það flytur hv. 11. þm. Reykv. hér brtt. og mun ég styðja hana.

Fleiri atriði má gagnrýna í sambandi við frv., en þau lúta e.t.v. ekki að þessu frv. beint heldur að þeim frv. sem við höfum hér verið að ræða og afgreiða, en eru engu að síður vel þess virði að hugleiða.

Í fyrsta lagi er það ákvæði sem fram kemur í 32. gr. staðgreiðslufrv. sem hér var verið að vísa til Nd. fyrir stuttu um 0,5% gjald sveitarfélaga til ríkisins vegna þess kostnaðar sem af framkvæmd allra þessara frv. leiðir ekkert annað en bein hækkun útsvars um þessa prósentu og verður að taka undir þá skoðun sveitarstjórna að þetta er með öllu ósamþykkjanlegt. Sérstaklega með tilliti til þess að eins og gert er ráð fyrir að innheimtunni verði háttað er ekki fyrirsjáanlegt að kostnaður sveitarstjórna af innheimtu minnki neitt.

Enn fremur telja sveitarstjórnarmenn að sú tilhögun innheimtunnar sem þessi frv. gera ráð fyrir, og þá er aftur verið að vísa til staðgreiðslufrv., hlutverk skattstjóra sem ætlað er að auka í innheimtuframkvæmdinni, sé með öllu óraunsæ. Benda sveitarstjórnarmenn minni sveitarfélaga á hvernig staðið er að innheimtu af hálfu gjaldheimtu eða sveitarstjórna þar sem tekjurnar nást ekki inn á tilsettum tíma öðruvísi en þeir menn sem eru ábyrgir fyrir innheimtu þeirra setjist við símann og hringi í viðkomandi gjaldendur og minni þá á að greiða á tilsettum tíma. Það er með öllu óraunsætt að ætla að skattstjórar vinni með þeim hætti nema þá að starfslið þeirra verði stóraukið og þar af leiðandi aukinn kostnaður af innheimtunni. Þá eru þau áform sem margyfirlýst hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að engu orðin, þ.e. að kostnaður af þessum breytingum eigi ekki að verða verulegur. Þess vegna segi ég í nál., með leyfi frú forseta:

„Gerð hefur verið sú athugasemd við innheimtuáform staðgreiðslufrv. að þau beri hreint og beint vott um algera vanþekkingu á framkvæmd innheimtu í smærri sveitarfélögum. Innheimtan á ekki að vera í höndum skattstjóra heldur gjaldheimtu eða sveitarstjórna, annars nást tekjurnar ekki inn.“

Eins og ég benti á áðan í máli mínu missa sveitahreppar sumir verulegar tekjur. Þar hlýtur að verða að gera einhverja bragarbót á þessum frv. til þess að tekjurnar skili sér til þeirra fyrr en áætlað er. Þegar litið er til Jöfnunarsjóðsins er greinilegt að hann verður óvirkur alveg fram yfir mitt næsta ár því að menn vita ekki hver skiptingin á að verða úr sjóðnum fyrr en í ljós kemur hver álagningin verður. Ég held að það verði að reyna að bregðast við þessu á þingi í haust, áður en lögin taka gildi, að breyta þessu með einhverjum þeim hætti að Jöfnunarsjóðurinn geti gagnast sveitarfélögunum jafnharðan en þau þurfi ekki að bíða eftir greiðslum úr honum í heilt ár. Eins og ég gat um áðan eru flest sveitarfélögin alls ekki þess megnug að standa undir því að fjármagna framkvæmdir sínar sjálfar í þetta langan tíma og því upp á ríkið komin með að fá þær tekjur sem þeim ber eins ört og takturinn er í innheimtunni sjálfri.

Af þeim yfirlitum sem fram eru komin frá fjmrn. má ráða að tekjur sumra sveitarfélaga lækki um 9% þó miðað sé við hækkun á innheimtuhlutfalli útsvarsins sem þegar hefur verið samþykkt. Það virðist benda til þess að geti menn ekki samþykkt þá kröfu sveitarstjórnarmanna að ákvörðunin um hluta útsvars af útsvarsstofni verði á þeirra ábyrgð sé tilefni til að flytja till. um það við afgreiðslu þessa frv. að innheimtuhlutfallið verði 10% að hámarki, eins og það var í gömlu lögunum, þannig að aðstæðum allra sveitarfélaga sé sem næst því mætt.

Að þessum hlutum upp töldum er ljóst að ég á erfitt með að mæla með samþykkt þessa frv. óbreytts. Verði þær brtt. sem fram eru komnar og ég hef lýst yfir að ég muni styðja ekki samþykktar mun ég sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.