29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. Það er býsna smekklega umbúið hjá hæstv. ríkisstjórn að setja allt þetta í einn pakka, eins og þar stendur, og búa það þeim mun betur út því að satt að segja reikna ég nú með því að þeim sjálfstæðismönnum hafi verið tiltölulega óglatt þegar þeir fóru að mæla hér í embætti fjmrh. fyrir frumvörpum um skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem þeir höfðu allra manna mest hamast á móti því hér í hv. deild og hreinlega ætlað af göflunum að ganga í sambandi við það, að ég tali nú ekki um sérstakt tímabundið vörugjald, sem einnig var gagnrýnt rækilega, og þess vegna ágætt að búa þetta í þennan öllu smekklegri og líklega þægilegri búning með þessum hætti fyrir hæstv. fjmrh., enda fór hann eðlilega fljótt yfir sögu um frv. í heild sinni.

En það er rétt að láta það koma fram að VI. kaflinn er sérstaklega af hinu góða, að mínu viti, og var reyndar settur á sínum tíma til þess að vernda innlenda framleiðslu, sem átti undir högg að sækja varðandi innflutning á húsum og húshlutum, og ekkert nema gott um það að segja. Sömuleiðis hlýt ég að styðja áfram I. kaflann um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það gildir kannske svolítið annað með húsnæðisgjaldið því að það er nokkuð á huldu hvernig með það mál skuli farið, enda nokkuð erfitt að skilja það á athugasemdum með þessu lagafrv. hvernig með skuli fara. Hér er um að ræða það eina prósent í söluskattsstigi sem samkomulag varð um milli allra flokka að lagt yrði á til sérstakrar fjáröflunar í húsnæðismálum, að því er ég man best.

Nú er það auðvitað ljóst skv. fjárlagafrv., og lækkun framlags ríkisins til húsnæðismála í því frv., og eins í þessum athugasemdum, að það er alls ekki ætlunin að láta allar tekjur af þessu húsnæðisgjaldi, sem átti þó eingöngu að renna til þessara mála, til framkvæmda eða útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins, enda stendur hér: „Gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð og skal því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.“ Og síðan segir: „Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1987 nemur framlagið á næsta ári 1300 millj. kr. til byggingarsjóðanna.“ En var 1600 millj. á síðasta ári ef ég man rétt. Annars hef ég ekki haft tök á því að líta á þetta. " Í ljósi þess annars vegar“ segir svo í athugasemdunum „og ákaflega þröngrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs“ - en það er síst of mælt - „hins vegar þykir ekki hjá því komist að kveða á um álagningu og innheimtu húsnæðisgjalds í óbreyttri mynd á næsta ári. Áætlað er að tekjur af gjaldinu nemi um 600 millj. kr. á árinu 1987.“

Spurning mín til hæstv. fjmrh. er þá m.ö.o.: Hvað mikið af þessu fer til húsnæðismálanna og hvað mikið fer til þess að bæta „þrönga fjárhagsstöðu ríkissjóðs“? Komi það í ljós að að meginpartinum til eigi þetta að renna til annarra framkvæmda, þá er í raun og veru ekki hægt að segja annað en að ríkisstjórnin hafi sagt upp samkomulagi sínu við stjórnarandstöðuna um þetta húsnæðisgjald, sem fullt samkomulag var um á sínum tíma að rynni eingöngu til þessara mála.