10.03.1987
Efri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3545)

330. mál, Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Það má sjálfsagt að einhverju leyti fetta fingur út í það að Byggingarsjóður aldraðs fólks verði lagður niður og bera brigður á það að landsbyggðin njóti fyrirgreiðslu í sama mæli eftirleiðis sem hingað til. Nú hafa ekki legið fyrir þeim nefndum, sem um þetta hafa fjallað, upplýsingar um fjárhæðir í því sambandi. Ég vil vekja athygli á þeim málslið sem er í þessu frv. í 1. gr. frv., þar sem stendur, „Heimilt er stjórn samtakanna, sem sér um stjórn og daglegan rekstur happdrættisins, að veita styrk eða lán til annarra bygginga um land allt í þágu aldraðra, svo sem verndaðra þjónustuíbúða, umönnunar- og hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva fyrir aldraða.“ Ég treysti því að sjálfsögðu að stjórn samtakanna sem hér er getið nýti sér þessar heimildir til fulls og að framlög í framtíðinni verði eigi minni en verið hafa til landsbyggðarinnar úr Byggingarsjóði aldraðs fólks.