11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4008 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

396. mál, utanríkismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram og sem hann flutti að hluta til hér í dag, en jafnframt vil ég harma að þessi umræða skuli fara fram á þessum tíma og þegar svo fáir þm. eru viðstaddir sem raun ber vitni. Hér er í rauninni um mikilvægari mál en svo að ræða að það sé rétt og skynsamlegt að láta umræðuna fara fram með þessum hætti og ég hygg að í framtíðinni ættu menn hér að huga að því að gefa betri tíma og gefa annan tíma fyrir þessa umræðu. Ég held líka að í þessum umræðum um utanríkismál ætti að vera sérstök umræða um hið norræna samstarf, svo veigamikill þáttur sem það er í utanríkisstefnu okkar og svo verulegur þáttur sem það er í störfum Alþingis með þátttökunni í Norðurlandaráði.

Það væri vissulega freistandi að víkja að ýmsum atriðum í þeirri skýrslu sem er til umræðu, t.d. aðstoð við þróunarlönd og okkar hlut þar, utanríkisviðskiptum okkar og varnarmálunum. Ég mun ekki gera það nema þá mjög stuttlega. Ég mun hér á eftir í meginmáli ræðu minnar fjalla um hið norræna samstarf og skýrslu þá sem fyrir liggur um það og hefur verið í umræðu einnig í dag. En fyrst langar mig til að víkja örfáum orðum að ummælum nokkurra hv. þm. í dag og kvöld í þessum umræðum.

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv., gerði kjarnorkuvopnalaus svæði og kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd mjög að umtalsefni. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, 3. þm. Reykn., lýsti afstöðu Alþfl. í ræðu í dag til þeirra mála með afar ljósum og skilmerkilegum hætti og ég ætla ekki að segja mörg orð um það, lýsi hins vegar furðu á þeim vinnubrögðum hv. 3. þm. Reykv. að taka sérstaklega til umræðu skýrslu sem Anker Jörgensen, eftir því sem hann sagði, mun gera opinbera í Kaupmannahöfn á morgun, Anker Jörgensen fyrrv. forsrh. Dana og formaður danska Jafnaðarmannaflokksins sem hefur leitt þetta starf. Mér finnast þetta ekki eðlileg vinnubrögð. Þetta plagg á að gera opinbert í Kaupmannahöfn á morgun. (SvG: Það hefur verið gert opinbert áður.) Mér finnast það ekki eðlileg vinnubrögð þegar það er gert að umræðuefni á Alþingi áður en það hefur verið birt af réttum aðilum. Vill ekki hv. þm. flytja sína ræðu á eftir úr ræðustól. (SvG: Hv. þm. fer með ósannindi.) Ég vitna til þess sem hann sagði sjálfur hér í ræðustól. Þetta finnast mér vinnubrögð sem eru a.m.k. ekki til fyrirmyndar.

En það er svo sem ekki nein nýjung að þeir Alþýðubandalagsmenn tali með einkennilegum hætti þegar fjallað er hér um þessi mál. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði um undirlægjuhátt íslenskra ráðamanna og síðan átti hv. þm. Svavar Gestsson ekki orð til að lýsa vanþóknun sinni á því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafði sagt og hafði vissulega tekið nokkuð stórt upp í sig. En það er ekki sama hver talar eða hvaðan ummælin koma.

Hv. þm. Svavar Gestsson gerði líka að umræðuefni það sem hann kallaði tvískinnungshátt Framsfl., sem ég get auðvitað tekið undir með honum, en það skyldi aldrei vera að tvískinnungshátturinn væri víðar. Það mætti t.d. segja mér að fyrrv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði töluvert öðrum tungum við væntanlega kjósendur sína í Reykjaneskjördæmi en hv. þm. Svavar Gestsson gerir á hinu háa Alþingi. Ég veit ekki betur en fyrrv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi lýst ýmsum skoðunum í utanríkismálum sem ganga býsna þvert á bæði það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Svavar Gestsson hafa sagt á hinu háa Alþingi.

En ég lýsi líka furðu minni á því þegar hv. formaður þingflokks Framsfl. kemur í þennan ræðustól og talar væntanlega af hálfu síns flokks og talar í annarri hverri setningu og öðru hverju orði um „setuliðið“. Hér er ekkert setulið. Hér er varnarlið sem er hér samkvæmt samningi að okkar beiðni, að beiðni meiri hluta þjóðarinnar hvort sem þeim hv. Alþýðubandalagsmönnum líkar það betur eða verr.

Vegna þess sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um Alþfl. og afstöðu hans til kjarnorkuvopnalausra svæða langar mig að vitna til samþykkta frá 17. norræna verkalýðsmálaþinginu sem haldið var í ágúst 1986 í Gautaborg þar sem sátu fulltrúar íslenskra jafnaðarmanna, fulltrúar Alþfl., sem tóku þátt í þessu starfi NFS og Norræna verkalýðssambandsins. Þar er ályktun um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Hv. þm. Svavari Gestssyni til fróðleiks, þar sem hann hefur áreiðanlega ekki heyrt þessa ályktun eða kynnt sér hana, ætla ég að vitna til hennar vegna þess að hún er mjög í samræmi við stefnu Alþfl. í þessum efnum. Sá kafli ályktunarinnar sem um þetta fjallar hljóðar svo í lauslegri þýðingu:

„Um langt skeið að undanförnu hefur stöðugleiki og kyrrð einkennt Norðurlöndin. Norræna verkalýðsmálaþingið vill varðveita þennan stöðugleika.

Tillagan um kjarnorkuvopnalaust svæði er hluti þess starfs. Vinnan við að koma á fót kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndunum verður að fara þannig fram að tillit sé tekið til ólíkrar aðstöðu Norðurlandanna í öryggismálum og sem hluti þess starfs sem unnið er til að skapa slökun spennu og afvopnun í víðara samhengi í Evrópu.“

Undir þetta tökum við heils hugar, enda áttum við aðild að þessari ályktun.

Það var ýmislegt fleira sem sagt var í þessum umræðum fyrr í dag sem ástæða væri til að víkja að. Ég hef veitt því athygli í kvöld að enginn af hv. þm. Kvennalistans hefur verið í þingsalnum frá því að þessar umræður hófust, en ég mun engu að síður víkja nokkrum orðum að því sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir mælti hér vegna þess að ég vil ekki láta þeim ummælum hennar ómótmælt. Það var raunar til hliðar við þessi mál. Hún var að tala um útflutning á íslenskum afurðum og þar á meðal ull sem nú er í mjög lágu verði og svo lágu verði að bændur fá ekki fyrir ullina nema það sem kostar að rýja féð. Sumir hafa raunar á orði að brenna ullina þar sem nánast ekkert fæst fyrir hana.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir fór mörgum orðum um það sem hún kallaði „ítalska efnahagsundrið“ og var þá helst á henni að skilja að það væri alls konar ullariðnaður og smáiðnaður. Ansi held ég að hv. þm. hafi orðið hált á svellinu. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef og hef lesið í erlendum tímaritum byggist þetta svokallaða efnahagsundur að verulegu leyti á því sem er kallað neðanjarðarhagkerfi eða svört efnahagsstarfsemi. Geta má þess að í Napólíborg, þar sem mun vera mest hanskaframleiðsla í víðri veröld, er ekki ein einasta hanskaverksmiðja heldur fer öll þessi framleiðsla fram í skúrum, kjöllurum, bílskúrum. Og hverjir eru það sem vinna við það? Það eru konur og börn í nánast nútíma iðnbyltingarþrældómi í mörgum tilvikum. Ef það er svona efnahagsundur sem hv. þm. Kvennalistans dá mest og lofsama gef ég ekki mikið fyrir þeirra skoðanir.

Raunar hættir þeim til, þm. Kvennalistans, að tala hér eins og þær hafi fyrstar allra flutt öll mál og aldrei hafi á Alþingi Íslendinga verið talað um málefni kvenna eða barna fyrr en þær komu til sögunnar. Þetta segja þær fólki í blaðagreinum, en þetta eru auðvitað ósannindi að ekki sé sterkar til orða tekið.

En áður en ég hverf að því sem ég ætlaði að ræða hér um norræna samvinnu langar mig til að víkja að Vestnorræna þingmannasambandinu og ályktun sem gerð var þar s.l. haust þar sem ráðið hvetur landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands í nafni friðar og friðsamlegrar tilveru að vinna að því svo fljótt sem verða má að tryggja að hvorki á stríðs- eða friðartímum verði farið um land, loft eða hafsvæði hér í útnorðri með kjarnorkuvopn eða að þar fari um skip eða farartæki sem flytji slík vopn. Þessi tillaga var samþykkt í Vestnorræna þingmannaráðinu, en það sem ég vildi víkja að voru þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við samþykkt þessarar tillögu sem voru ekki til fyrirmyndar og sem ekki, því miður, lofa góðu um framtíðarsamstarf þar ef það á að vera á þeim nótum. Þegar slík tillaga kom fram í Grænlandi fyrir einu og hálfu ári beittu Grænlendingar neitunarvaldi til að hún yrði ekki samþykkt. Núna komu þeir hins vegar með tilbúna tillögu á fundinn, sem ekki hafði verið kynnt neinum áður, og léðu ekki máls á því að henni yrði breytt á einn eða neinn veg þannig að unnt væri að ná um hana samstöðu. Ég hika ekki við að fullyrða að það hefði verið unnt að ná samstöðu um orðalag ef gefinn hefði verið til þess tími og ráðrúm. Það var ekki gert heldur var málið keyrt í gegn á fáeinum klukkutímum.

Alveg er sama hvaða stofnun á í hlut, hvaða aðilar og hvaða mál. Það er í fjölþjóðasamstarfi ekki vænleg leið til gagnkvæms trausts og góðrar samvinnu að vinna svona og því harma ég hvernig að þessu máli var staðið og þykir það miður vegna þess að ef ekki hefði verið beitt því offorsi sem í rauninni var beitt hefði alveg hiklaust og örugglega mátt ná samkomulagi um tillögu sem allir hefðu getað sætt sig við. Það var ekki reynt. Og því miður var ekki unnt meðal íslensku fulltrúanna að skapa þá samstöðu sem þurfti til að reyna að ná samkomulagi.

Það var ljóst að þessi þingmannasamkoma skiptist í minni og meiri hluta, ekki aðeins Íslendingar heldur Færeyingar líka. Grænlendingarnir voru þeir einu sem voru óskiptir í þessu máli sem við höfðum ekki séð fyrr en fundurinn var byrjaður. Ég harma það og þykir miður því um margt er Vestnorræna þingmannaráðið merkilegt og um margt eigum við, verðum og megum til með að vinna saman. En ég álít að þessi málsmeðferð, og það hef ég sagt vinum okkar í Grænlandi alveg berum orðum og umbúðalaust, hafi ekki verið fallin til að efla þann góða anda sem þar hefur ríkt.

Ég ætla að lokum, herra forseti, að víkja að Norðurlandasamstarfinu, þar sem ríkir raunar ekki ágreiningur okkar í milli þó að ágreiningsmál komi þar auðvitað upp um eitt og annað, og verð nú að láta mér nægja að stikla á stóru því að hér er um mörg mál að ræða sem ástæða væri til að hafa um sérstaka umræðu í þinginu.

Fyrst vil ég víkja að því að í fjárlaganefnd Norðurlandaráðs var til umræðu tillaga um að auka mjög framlög til norræna samstarfsins þannig að þau næmu einu prómilli af þjóðartekjum. Þessi tillaga hefur ekki náð fram að ganga og það er miður. Ef hún hefði verið samþykkt hefðu fjárlög Norðurlandaráðs á næstu árum, það var miðað við að þetta kæmi til framkvæmda á allmörgum næstu árum, sennilega sjöfaldast og verið hægt að sinna mörgum þeim verkefnum sem nú eru í fjársvelti.

Í Norðurlandaráði hefur líka verið ágreiningur um nefndaskipun varðandi alþjóðlega samvinnu. Mér hefur fundist sú deila vera að nokkru leyti um keisarans skegg. Auðvitað er það svo, að í Norðurlandaráði er ekki fjallað um öryggis- og varnarmál og á því er ekki fyrirhuguð nein breyting, en sú þróun sem orðið hefur í Evrópu og sem þar er að eiga sér stað og raunar þróunin á Norðurlöndunum líka gerir það að verkum að Norðurlandaráð verður að sinna alþjóðlegu samstarfi og það hefur enda gert það í mjög ríkum mæli. Ég minni á ráðstefnu Norðurlandaráðs um loftmengun sem haldin var í Stokkhólmi s.l. haust. Ég minni á að menningarmálanefnd Norðurlandaráðs hefur haft bein samskipti við erlendar stofnanir bæði með heimsóknum til Evrópuþings og Evrópuráðs. Ég minni á að varaframkvæmdastjóri Evrópuráðsins heimsótti Norðurlandaráð s.l. haust og átti fund þar með embættismönnum og fulltrúa menningarmálanefndar. Á fjölmörgum sviðum eru þessir aðilar að vinna að sömu málum og á fjölmörgum sviðum geta þeir og eiga að starfa saman.

Ég vil aðeins áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, nefna ýmis af þeim málum sem menningarmálanefndin hefur fjallað um og hafa verið samþykkt og sem hafa verulega þýðingu fyrir Ísland og Íslendinga. Ég nefni þar tillögu um norrænan kvikmyndasjóð sem ráðgert er, ef óskir menningarmálanefndar ná fram að ganga, að verði 150 millj. sænskra króna að þremur árum liðnum og geti verið veigamikill stuðningur við kvikmyndagerð á Norðurlöndum sem á í vök að verjast og á í harðri samkeppni við alls konar alþjóðlegt og fjölþjóðlegt efni sem streymir til Norðurlandanna, bæði um gervihnetti og eftir öðrum leiðum. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt mál.

Ég minni á tillögu sem samþykkt var á þinginu núna um þéttingu á neti jarðskjálftamæla á Suðurlandsundirlendi sem er liður í evrópsku rannsóknarverkefni sem norrænir vísindamenn munu einnig taka þátt í og Norðurlandaráð mun styrkja.

Ég nefni tillögu um samkeppni fyrir ungt fólk sem er í tónlistarnámi á Norðurlöndum og ég held raunar að á því sviði eigi Norðurlandaráð og norræn menningarmálastarfsemi að gera miklu meira. Við eigum t.d. afar mikið af ungu tónlistarfólki, sem er vel menntað og við höfum kostað miklu til að mennta, sem á vettvangi norrænnar samvinnu ætti að vera tiltölulega auðvelt að veita tækifæri til að koma víða fram og flytja sína list. Þarna þarf að bæta um betur. Þetta eru aðeins fá af þeim málum sem þarna hafa verið til umræðu.

Á vegum menningarmálanefndarinnar hefur einnig verið unnið að samstarfi að því er varðar æðri menntun. Það hefur verið unnið að gerð stefnuskrár fyrir norræna rannsóknaráðið sem er afar mikilvægt mál, en á sviði þessarar nefndar eru þrír málaflokkar, þ.e. mennta- og kennslumál, rannsóknir, vísindarannsóknir og þá norræna rannsóknaráðið og síðan almenn menningarmál.

Ég hef hér, herra forseti, nefnt nokkur af þeim málum sem á norrænum menningarmálavettvangi hefur borið hæst. Ég vil einnig fagna því að hér skuli vera komin fram á þingi till. til þál. um staðfestingu Norðurlandasamnings um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi. Það var mál til komið að þetta mál sæi dagsins ljós hér á Alþingi. Við erum hygg ég síðust Norðurlandaþjóðanna til að staðfesta þetta.

Þá vil ég að lokum geta þess að mjög mikið af starfstíma menningarmálanefndar Norðurlandaráðs hefur farið í að fjalla um fjölmiðlamál, um samstarfið um hinn svokallaða TELE-X gervihnött. Það mál tók mjög óvænta stefnu á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors fyrir fáeinum dögum þegar fulltrúar hægri flokkanna í ráðinu fluttu tillögu um að snarvenda og hætta við þau áform sem uppi hafa verið um að sjónvarpa um tvær rásir og sjónvarpa í stað þess um fjórar rásir, en í nýbirtri skýrslu útvarpsstjóra Norðurlanda, sem raunar hafði ekki séð dagsins ljós þegar þessi tillaga hægri flokkanna var sett fram, var einmitt að finna slíka tillögu. Fulltrúar Sjálfstfl. í Norðurlandaráði skrifuðu allir undir þessa tillögu hægri flokkanna, en á sama tíma lýsti hæstv. menntmrh. því yfir að það bæri að hætta við þátttöku okkar Íslendinga í þessu norræna sjónvarpssamstarfi. Þetta var mjög merkileg uppákoma sem voru gerð allgóð skil í fjölmiðlum hér, en ég held að það sé alveg nauðsynlegt og þá við kannske annað tækifæri að Alþingi fái að vita hver er stefna stjórnarflokkanna í þessu máli.

Það getur vel verið að það komi í ljós að þetta sjónvarpssamstarf í þeirri mynd sem það nú er hugsað henti okkur ekki. Það liggur bara ekki fyrir enn. Það er of snemmt hjá hæstv. menntmrh. að skella hurðum í þessu máli, jafnvel þótt menn hafi gaman af að heyra hurðaskellina bergmala, sérstaklega þegar þeir geta bergmálað um Norðurlöndin öll eins og var í þessu tilviki. En ég endurtek að það er of snemmt að skella hurðum í þessu máli vegna þess að staðreyndir liggja ekki enn þá fyrir um það með hverjum hætti við getum tengst þessu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera aðilar að þessu samstarfi ef við getum vegna þess að við erum hluti af norrænni menningu, við erum á norræna menningarsvæðinu og þetta er þáttur af okkar menningararfleifð og menningu. Því eigum við að taka þátt í þessu sé þess kostur. En vera má að þess verði ekki kostur, að það verði kostnaðarlega ókleift, það verði tæknilega mjög örðugt. Þá er auðvitað að bíta í það súra epli og taka því. En við eigum ekki að skella hurðum, eins og mér heyrðist hæstv. menntmrh. gera þegar þingið stóð yfir, og ég vildi gjarnan fá að heyra í þessari umræðu hvort hæstv. menntmrh. túlkaði þarna stefnu Sjálfstfl. eða hvort þeir þrír hv. þm. sem skrifuðu undir tillöguna um fjórar sjónvarpsrásir í stað tveggja túlka stefnu Sjálfstfl. Ég veit að hæstv. utanrrh. getur sjálfsagt svarað því hér á eftir.