13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4141 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og þeir vita sem kunnugir eru úti á landsbyggðinni hefur það færst í vöxt og ýmsum foreldrum þótt hagkvæmt sem hafa orðið að senda börn sín til framhaldsnáms á aðra staði, hvort heldur sem er Akureyri eða Reykjavík eða aðra staði þar sem lítið er um heimavistarhúsnæði, að kaupa litla íbúð til að draga úr þeim kostnaði sem ella félli á dvölina á viðkomandi stað, ég tala ekki um þegar svo háttar til að fleiri en eitt barn getur nýtt sér íbúðina, vegna þess verðs sem er á leiguhúsnæði. Um þetta vitum við mörg dæmi sem þekkjum til úti á landsbyggðinni. Ég sé ástæðulaust að loka fyrir þennan möguleika. Ég hef áður lýst áhuga mínum á því að átak verði gert til að byggja upp stúdentagarða hraðar en gert hefur verið. Ég tel nauðsynlegt að þessi valkostur sé fyrir hendi. Á hinn bóginn liggur fyrir að ekki er arðvænlegt að byggja leiguíbúðir við þeim kjörum sem eru í Byggingarsjóði ríkisins þannig að menn þurfa ekki að óttast það að menn safni mörgum húsum þó þessi regla sé inni. Ég vil m.ö.o. láta kosti þeirrar reglu sem í lögum er ráða ferðinni en ekki hið gagnstæða. Þess vegna segi ég nei.