13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3816)

422. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var hér á dögunum rætt um þetta mál aðeins og þá stóð það upp úr stjórnarliðum að það ætti að leysa þetta með reglugerð. Nú hafa menn hætt við það og hér er flutt frv. Hér segir:

„Þá er og heimilt að greiða frekari uppbót á elli- og örorkulífeyri, svo og örorkustyrk vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.“

Og síðan er 39. gr. breytt þannig að það er bætt við nýjum lið, b-lið, að það sé heimilt „að veita styrk til öflunar hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða vöntunar líkamshluta“ og síðan er ákvæði til bráðabirgða um að þetta ákvæði sé afturvirkt.

Ég vil spyrja hv. formann heilbr.- og trn. eða talsmann nefndarinnar hvaða upphæðir eru á ferðinni, það verður ekki með góðu móti ráðið af texta frv., og hvaða deild það er í Tryggingastofnun ríkisins sem ætlað er að fari með þetta mál og hver það er í Tryggingastofnuninni sem á að úrskurða í þessu máli. Liggur það fyrir? Það væri nauðsynlegt að fá það fram. Er það kannske tryggingayfirlæknir? Hvað stendur til?