13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3825)

209. mál, sjómannadagur

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Á nál. á þskj. 831 um frv. til l. um sjómannadag segir að nefndarmenn urðu sammála um að mæla með samþykkt frv. með eftirfarandi breytingu sem er smávægileg. Þetta er nokkurn veginn alveg sannleikanum samkvæmt nema hvað ég gerði skriflegan fyrirvara sem var fólginn í því að ég mætti flytja eða fylgja brtt. Mín brtt. við frv. eins og það kemur frá hv. Ed. er fólgin í því að fella burtu 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr. og 6. gr. og láta duga að hafa eina efnislega grein, 1. gr., en taka að sjálfsögðu upp 7. gr. sem er um gildistökutíma eða dag.

Það er margt sérkennilegt í þessu frv. og ég held að menn hafi ekki vandað sig nægilega sem kannske von er. Það er verið að sópa út úr deildum lagafrumvörpum sem hafa fengið oft og tíðum afar litla skoðun og kannske enn minni umhugsun. Það er verið að gera þetta í tímaþröng og menn eru bara tilbúnir að afgreiða næstum því hvað sem er. En vegna þess að nefndin gerir eina breytingu þarf frv. að fara aftur til Ed. Hvort sem ég flyt þessa brtt., sem er stærri í sniðum, eða ekki þarf það að fara til Ed.

Ég vil nefna t.d. hvað sagt er í frv. í 5. gr.: „Ákvæði 1. mgr. 5. gr. eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað“.

Þetta þýðir að þetta skip eða þessi skip þurfa ekki að vera í höfn á sjómannadag ef þau ætla sér að sigla með afla til erlendrar hafnar. Þau skip hafa forgang sem ætla að selja erlendis, en ekki þau sem selja heima. Gott og vel. Ekki er ég að mæla með því að þau skip fari strax út aftur til veiða o.s.frv. En við skulum hugsa okkur að þrjú skip liggi t.d. í Vestmannaeyjahöfn. Ég man auðvitað fyrst eftir henni. Þrjú skip liggja í Vestmannaeyjahöfn. Öll eru þau með sama farm, ísaðan fisk. Tvö þeirra mega fara til útlanda daginn fyrir eða á sjómannadaginn og selja í erlendri höfn, en þriðja skipið má ekki fara þó að farmurinn sé alveg eins af því að það er flutningaskip, það er fragtskip. Þar er ekki um neina undantekningu að ræða. Hvernig getur staðið á því að menn gera þetta? Það verður eitt yfir alla að ganga.

Fyrir mína parta held ég að það sé alveg nóg að hafa 1. gr. Í henni felst aðalatriði þessa máls. Aðalatriðið í þessu máli er að sjómannadagurinn er lögskipaður frídagur eftir að þessi grein hefur verið samþykkt. En öll þessi upptalning og tímasetningar, á föstudegi, á laugardegi og mánudegi og allt þar fram eftir götunum, ég held að það sé alveg óhætt að sleppa því. Það er þannig með sjómannadaginn að hann er hátíðisdagur landsbyggðarinnar. Næstum hver maður í sjávarþorpunum kringum allt land heldur hátíð á milli vertíða þar sem oft er lítið að gera einmitt þegar menn eru nýbúnir að taka upp netin og eru að búa sig undir trollið á sumrin og krabbann o.s.frv. Þarna er einmitt tími til að halda þennan dag hátíðlegan. En það er ekki eins hér syðra þó að Reykjavík sé stærsti útgerðarstaður landsins. Það fer svo miklu minna fyrir þessu hér vegna þess hversu lítill hluti íbúanna er í tengslum við þetta. Það skiptir auðvitað engu máli. Aðalatriðið er að sjómannadagurinn sé lögskipaður frídagur. Þá reyna allir að vera í höfn ef kostur er eins og þetta hefur alltaf verið. Ég legg þess vegna til að allar þessar upptalningar í þessum fimm greinum séu hreinlega felldar niður, það sé ekkert sérstaklega verið að tala um Landhelgisgæsluna eða Hafrannsóknastofnun eða þá sem hafa þau forréttindi að geta siglt til útlanda með fisk. Sleppum því og látum það duga að 1. gr. segir einfaldlega að sjómannadagurinn skuli vera lögskipaður frídagur.