16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4265 í B-deild Alþingistíðinda. (3937)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sá misskilningur virðist vera uppi að það sé ekki Alþingis að fjalla um það hvað verði um þá peninga sem samþykktir eru á fjárlögum og fara inn í húsnæðismálakerfið. Einhver sérlegur sendimaður ASÍ, sem einn af áhrifamönnunum í ASÍ vill þó ekki skrifa upp á sem neinn sérstakan fulltrúa fyrir samtökin, hefur lýst því yfir að það eigi ekkert að gera í tvö ár í endurskoðun. Það er alveg makalaus yfirlýsing svo að ekki sé meira sagt.

Hér er verið að framkvæma leiðréttingu sem allir telja að sé nauðsynlegt að framkvæma en þessum sömu aðilum sást þó yfir á sínum tíma. Hver voru þá gæði þeirra vinnubragða? Þau hafa ekki verið merkileg. Nei, það hlýtur að vera Alþingis að taka ákvörðun um það hvað verði um þá fjármuni sem Alþingi samþykkir að fari inn í húsnæðismálakerfið. Það hlýtur að vera Alþingis og ég tel ekki rétt að verja þeim á þann hátt að þeir séu notaðir til þess að greiða út fjármuni til aðila sem ekki þurfa á þessum fjármunum að halda. Ég hygg að svo geti farið að fleirum en mér þyki að biðin eftir þessum lánum verði helst til löng þó að þessi hópur yrði tekinn út.