30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

1. mál, fjárlög 1987

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fjárlög eru áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs. Fjárlög eru stundum kölluð hagstjórnartæki, tæki til þess að hafa áhrif á aðrar þjóðhagsstærðir, verðlag, neyslu, tekjuskiptingu svo að nefnd séu dæmi. Fjárlög eru ekki bara þskj. nr. 1, þau eru af mörgum talin þýðingarmesta stefnuskjal hverrar ríkisstjórnar. Í fjárlög eru ekki bara skráð markmið heldur eru þau líka helsta tækið til þess að ná þessum markmiðum.

Þegar nýr fjmrh. tekur við og leggur fram fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv., þótt það sé á kosningaári og við útgönguvers ríkisstjórnar, þá verðskuldar það út af fyrir sig almennilega rökræðu um grundvallarþætti stjórnmála, um markmið og leiðir. Það sem dregur úr gildi þessarar umræðu er fyrst og fremst það að þetta þýðingarmikla tæki, fjárlögin, er að flestra dómi, ef ekki ónýtt, þá svo gersamlega úr lagi fært að jafnvel þótt menn setji sér hin loflegustu markmið og jafnvel þótt veruleg samstaða kunni að vera um æskileg markmið, þá kennir reynslan okkur að þessi markmið nást ekki. Í þeim skilningi hefur það komið rækilega fram í þessari umræðu að þessi fjárlög, eins og öll önnur fjárlög á undanförnum árum, eru marklaus. Það er leiðinlegt til þess að vita ef ungur fjmrh. lokar eyrunum fyrir umræðu af þessu tagi, lætur eins og hann sé með áhrifamikið tæki í höndunum sem muni skila árangri og skellir skollaeyrum við dómi reynslunnar um það að tækið er bilað. Það er mjög leiðinlegt til þess að vita ef ungur fjmrh. lætur af pólitískum hagsmunaástæðum eins og hann þekki ekki til þeirrar umræðu sem fram hefur farið í þjóðfélaginu, og þá sérstaklega í hópi sérfróðra manna, hver dómur reynslunnar um fjárlögin hafi verið.

Í þessum umræðum hafa dæmin verið nefnd og ég skal ekki nema aðeins rifja þau upp. Ef við lítum á fjárlagafrv. sem lögð hafa verið fram s.l. 6 ár og spyrjum: Hver var dómur reynslunnar um niðurstöðutölur? - þ.e. rekstrarjöfnuð eða rekstrarhalla sem veldur miklu um það hvernig tækið dugar sem hagstjórnartæki - þá er niðurstaðan mjög einföld. Þessar niðurstöður hafa aldrei staðist. Og það hefur ekki numið bara einhverjum tugum milljóna og ekki bara hundruðum milljóna. Það hefur skakkað milljörðum frá því sem var hin upphaflega áætlun og hver var síðan niðurstaðan. Þegar dómur reynslunnar er þessi, þá er niðurstaðan sú að fjárlögin eru ekki það hagstjórnartæki sem menn ætla og það er ekki hægt að taka trúanlega áætlunina ef ekki er hægt að sýna fram á að allri gerð fjárlaganna hafi verið breytt á róttækan hátt í grundvallaratriðum. Ella kennir reynslan okkur það að þetta er líklegt að haldi áfram, að fjárlögin verði marklaus.

Lítum á aðra meginstærð, þ.e. útgjaldahlið fjárlaga. Hversu oft höfum við ekki heyrt hæstv. fjmrh. hér á undanförnum árum fara með rórillið sitt um aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum og gera grein fyrir því að það verði að spretta upp fjárlögum jafnvel eftir að þau hafa verið sett, á miðju ári? Og það er verið að setja einhverjar almennar reglur um svo sem eins og 5% niðurskurð í rekstri. Hver er dómur reynslunnar? Dómur reynslunnar er sá að þetta hefur allt saman verið fimbulfamb, allt saman verið sýndarmennska, árangurinn lítill sem enginn. Niðurstöðutölurnar um útgjaldaáætlanir fjárlaga, ekki bara nú heldur áður, eru þær að hér er venja orðin að fegra frv. í skjóli vanáætlana á raunverulegum útgjöldum sem staðfestir síðan að þetta hefur reynst allt á sandi byggt.

Hér hafa verið nefnd dæmi um stórkostleg göt og ég nefni dæmi bæði að því er varðar fjárlög og lánsfjárlög. Dæmi hafa verið nefnd t.d. um furðurekstur á vegum ríkisins sem heitir Áburðarverksmiðja. Dæmi hafa verið nefnd um stofnun eins og Póst og síma. Dæmi hafa verið nefnd að því er varðar bæði fjárlög og lánsfjárlög, stöðu hafnamála. Dæmi hafa verið nefnd um vanda hitaveitna. Dæmi hafa verið nefnd um vanda gjörgæslufyrirtækja í frystiiðnaði. Dæmi hafa verið nefnd um stöðu skipasmíðaiðnaðar. Dæmi hafa verið nefnd um stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Þetta eru bara örfá dæmi af ótal mörgum um það að fyrirsjáanlegur útgjaldavandi er leystur á þann hagkvæma hátt að loka augunum. Hverjar verða afleiðingarnar? Afleiðingarnar eru þær að útgjaldaáætlunin stenst ekki og afleiðingarnar verða þær að einhvern tímann seinna sjá menn lista yfir aukafjárveitingar sem nemur ekki tugum milljóna, ekki bara hundruðum milljóna heldur er hann farinn að hlaupa á milljörðum og nema hrikalega háu hlutfalli af niðurstöðutölum fjárlaga.

Þriðja dæmið: Hér er enn einu sinni, alveg eins og í fyrra, lýst því yfir að stefnt sé að því að stöðva erlendar lántökur og jafnvel stíga fyrsta skrefið til þess að afborganir og vextir af erlendum lánum verði hærri en nýtekin lán. Ég heyrði þetta í fyrra líka. Og í hitteðfyrra. Í fyrra var þetta eitt meginmarkmiðið. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er auðvitað sú að þetta tókst ekki: Niðurstaðan er sú að í góðærinu á yfirstandandi ári hafa erlendar lántökur aukist. Og það er borðleggjandi, ef litið er á lánsfjárlög, að sama mun gerast nú.

Að því er varðar ábendingar prófessors Þorvaldar Gylfasonar, þá er aðalatriðið í þeim þetta: Það er út í hött að vera að ræða um áhrif fjárlaga sem hagstjórnartækis með því að líta bara á einn lítinn part af ríkisbúskapnum sem heitir A-hluti fjárlaga. Auðvitað ber að líta á ríkisbúskapinn sem heild. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að þau rök prófessors Þorvaldar Gylfasonar eru rétt, að ef litið er á ríkisbúskapinn í heild, þá er enn um að ræða skuldasöfnun í góðæri. Það er um að ræða vaxandi lántökuþörf og heildarniðurstaðan af því er aftur sú að fjárlögin, sem hagstjórnartæki til þess að ná settum markmiðum. eru ónýt.

Af því að hæstv. fjmrh. leyfði sér hér á fremur strákslegan hátt að fara niðrandi orðum um tillögugerð okkar Alþýðuflokksmanna við seinustu fjárlög, þá er ástæða til að segja í þessu samhengi: Hann hefur sjálfur ekki úr ákaflega háum söðli að detta, hæstv. fjmrh. Hann er að leggja hér fram hefðbundið fjárlagafrv. þar sem hann hefur ekki grafist fyrir rætur neins þess vanda sem reynslan hefur kennt okkur að er undirrót þenslu sem leiða má beint til ríkisbúskaparins. Hann er að leggja hér fram marklaust fjárlagafrv.

En hvað vorum við að gera þegar við fluttum okkar tillögur? Við vorum í fyrsta lagi að lýsa markmiðum og um þau er áreiðanlega enginn ágreiningur milli okkar og hæstv. fjmrh. og flokksbræðra hans. Markmiðin voru að tryggja í verki hallalausan ríkisbúskap. Það tókst hæstv. fjmrh. ekki. Markmiðin voru að tryggja í verki lækkun erlendra skulda. Það hefur hæstv. fjmrh. ekki tekist. Um hvað snerust þá brtt. okkar? Þær snerust um það að breyta tekjuöflunartæki ríkissjóðs. Hvernig? Jú, með því fyrst og fremst að líta á söluskattstækið, áhrifamesta tækið og segja: Við verðum að reyna að koma í veg fyrir viðurkenndan og verulegan skattundandrátt að því er varðar söluskattsskil og við gerum það með því að fækka undanþágum. Er ágreiningur um þetta, hæstv. fjmrh.? Ekki heyrðist mér það.

Við lögðum fram tillögur um aukna tekjuöflun í formi stigbreytilegs eignarskattsauka, einkum og sér í lagi á félög sem fól þó í sér lækkun á eignarskatti venjulegra launþegafjölskyldna. Þetta er auðvitað umdeilanleg tillaga. En hún styðst við rök með vísan til þess subbuskapar sem ríkti í efnahagsmálum á liðinni tíð þegar eignamyndun var veruleg fyrir það að skjólstæðingar kerfis þurftu ekki að greiða lán sín til baka. Og þetta er ekki af okkar hálfu hugsað sem endanlegur skattur, heldur sem nánast eins konar tekjujöfnunartæki milli kynslóða sem búið hafa við mjög ólíkan hlut í þessu þjóðfélagi.

Í þriðja lagi vörðuðu tillögur okkar útgjaldaáform ríkissjóðs, tilraunir til þess að stemma stigu við síþenslu, sjálfvirkni og sívaxandi tilhneigingu til þess að sprengja af sér áætlunarramma útgjalda.

Í fjórða lagi fólu tillögur okkar í sér ábendingar um nauðsyn kerfisbreytingar í opinberum rekstri. Hvað eigum við við? Stundum er þetta skammstafað á þann veg að menn tala um velferðarkerfi fyrirtækjanna. Í ágætri grein um fjárlagafrv. síðasta árs færði dr. Finnur Geirsson rök að því að það væri einkenni fyrir íslenskan ríkisbúskap að fast að þriðjungur í útgjöldum ríkissjóðs væri millifærslur af skattpeningi almennings til atvinnuvega og fyrirtækja, ýmist beint eða óbeint. En aðeins um helmingur væri raunverulega tilheyrandi hinu svokallaða velferðarmillifærslukerfi, þ.e. heilbrigðismálum, skólamálum o.s.frv. Okkar tillögur um kerfisbreytingar í ríkisrekstri fólu það í sér að við erum að taka undir þá skoðun að ekki sé réttlætanlegt að skattleggja þann hluta almennings sem greiðir skatta til þess að reiða síðan fram þá 11 milljarða, nú tæpan þriðjung af heildarútgjöldum ríkissjóðs, til atvinnulífs og atvinnurekenda. Að svo miklu leyti sem ríkið þjónustar þessa atvinnuvegi, þá beri að gera það helst þannig að þessar stofnanir séu sjálfseignarstofnanir og í annan stað að sú grundvallarregla verði viðhöfð að þessar þjónustustofnanir selji þjónustu sína á kostnaðarverði. Ætli það væri ágreiningur um þessar tillögur?

Heildarniðurstaðan varð síðan sú að við vildum breyta forgangsröðun verkefna í fjárlögum. Við vildum m.ö.o. draga úr þeim hlut sem fer í beinan rekstur en auka þá afgangsstærð sem hægt er að verja til nýfjárfestingar og verklegra framkvæmda í landinu. Heildarniðurstöður af þessum tillögum voru þær að samkvæmt okkar tillögum hefði rekstrarafgangur þá orðið um 1200 millj. í staðinn fyrir 122, ef ég man rétt, og okkur hefði með samsvarandi tillögum á lánsfjárlögum tekist að lækka ný erlend lán um rúmar 1600 millj. Hvað er það sem hæstv. fjmrh. er að setja út á? Ekki markmiðin. Um þau erum við væntanlega sammála. Er hann að setja út á aðferðirnar? Vera má. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það megi ekki setja út á þessar tillögur, deila um þær. Það er líka hægt að segja með ærnum rökum að það væri æskilegt að þessar tillögur hefðu komið fram ári áður. En þær komu fram núna í fyrra og þá hefði ég vænst þess, ef það væri samstaða um þær, að hæstv. fjmrh., ef hann er sammála markmiðunum og leiðunum, hefði flutt tillögur sem ganga í svipaða átt nú. Látum vera. En allra leiðinlegast er þó þegar hæstv. fjmrh. eins og komist var að orði dregur umræðuna niður á plan sem ekki er honum samboðið.

Hann veifar hér plaggi frá embættismönnum sínum, dags. 23. okt. og þetta plagg á að sanna að tillögur Alþfl. við fjárlagafrv. árið 1986 hefðu leitt til þess, ef þær væru fluttar nú á breyttum verðforsendum, að fjárlagafrv. ársins 1987, sem hann nú er að flytja, hefði verið með meiri halla, þ.e. tæplega 500 millj. kr. halla.

Þegar hæstv. fjmrh. svaraði gagnrýni vinnuveitenda greip hann til þeirrar líkingar að það væri alveg jafngáfulegt að nota viðmiðun vinnuveitenda að því er varðar skattbyrði og þjóðarframleiðslu eins og að bera saman annars vegar skattbyrði og hæðina á Morgunblaðshúsinu. M.ö.o. að það væri verið að bera saman ósambærilega hluti. Síðan bregður hann á það ráð í stráksskap sínum að birta þingheimi jafnómerkilegt plagg. Auðvitað eiga menn að reyna að forðast að bera saman ósambærilega hluti. Það sem er sambærilegt er: Tillögur Alþfl. fluttar í des. 1986 við þá framlagt frv. til fjárlaga á sömu verðlagsforsendum, útreikningar allir staðfestir af starfsmönnum fjmrn. leiddu til þessarar niðurstöðu. Bera þetta síðan saman við allt annað frv. á öðrum verðlagsforsendum og gefa sér uppdiktaðar forsendur eins og t.d. þessar tvær:

Fyrsta. Að gera ráð fyrir því að ákvarðanir stjórnarflokkanna við afgreiðslu fjárlaga 1986 og í febr. 1986, t.d. þær ákvarðanir að lækka tekjuöflun ríkissjóðs um tæplega 1500 millj. vegna kjarasamninga sem gerast mörgum mánuðum seinna, eða í öðru lagi að gera ráð fyrir því að við mundum enn flytja sömu tillögur þrátt fyrir það að til er komið nýtt húsnæðislánakerfi, þ.e. við mundum flytja tillögur um stóraukin framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og verkamanna þrátt fyrir það að þau mál hafi fengið allt aðra lausn, þetta eru svo fráleit vinnubrögð að í raun og veru ætti hæstv. fjmrh. að biðja viðkomandi afsökunar og leiðinlegt til þess að vita að hann er að tefja tíma starfsmanna sinna eða neyða þá til þess að búa til svona ómerkilegt plagg á uppdiktuðum forsendum og fráleitum.

Það sem hæstv. fjmrh. hefði auðvitað átt að gera var að taka efnislega afstöðu til tillagnanna. Við erum hér í 1. umr. fjárlaga um stefnumótun. Er hæstv. fjmrh. ósammála okkur um markmiðin? Ég þarf ekki að spyrja. Það hlýtur að liggja alveg ljóst fyrir. Hann vill stefna að hallalausum ríkisbúskap. Hann vill stefna að lækkun erlendra skulda. Er hæstv. fjmrh. sammála okkur eða ósammála um nauðsyn þess að stöðva síþenslu og sjálfvirkni í ríkisbúskapnum? Vill hæstv. fjmrh. koma fram einhverjum kerfisbreytingum í ríkisrekstrinum? Vill hæstv. fjmrh. taka undir með eða sýna sjálfur einhverjar tillögur um það hvernig hann ætlar að koma í veg fyrir síþenslu ríkisútgjalda, m.ö.o. hvernig hann vill gera fjárlagafrv. og fjárlögin að nothæfu tæki til þess að hafa áhrif á þýðingarmestu stærð efnahagsmála? Þetta er kjarni málsins.

Mér finnst ákaflega leiðinlegt að hæstv. fjmrh., ungur sem hann er þegar hann er að leggja fram sitt fyrsta frv., skuli hvika frá rökræðum, bera fyrir sig aukaatriði, láta mál sitt snúast um óveruleg aukaatriði, útúrsnúninga, en kveinka sér við viti borinni og skynsamlegri rökræðu.

Ég get að vísu ósköp vel skilið það að pólitíkusinn Þorsteinn Pálsson, í þeirri stöðu sem hann er, kunni að falla í þá freistingu að grípa til slíkra leikbragða, en það er fjmrh. ósæmandi. Tökum dæmi. Hæstv. fjmrh., sem fer þessum óvirðingarorðum og fer með þennan skæting um tillögur andstæðinga, hvaða kröfur gerir hann til sjálfs sín? Lítum á skattakerfið og tekjuöflunarhlut ríkissjóðs.

Það er alkunna að s.l. fjögur ár hefur Alþfl. öðrum flokkum fremur beitt sér fyrir umræðu bæði hér á hinu háa Alþingi og í þjóðfélaginu í heild um skattsvik. Niðurstaða af till. sem hér fékkst samþykkt fyrir forgöngu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var sú að sett var nefnd sem skilaði skýrslu um skattsvik. Það hefur alltaf undrað mig að hæstv. fjmrh. hefur hagað orðum sínum um þetta á þann veg að hann hefur svona sagt eitthvað á þá leið, að þetta umfang skattsvika hafi reynst þrátt fyrir allt minna en hann hafi átt von á eða eins og hann orðaði það núna, síst meira en í nágrannalöndunum. Látum vera. En spurningin er auðvitað um aðgerðir því að það er orðið langt síðan þessi skýrsla var lögð fram.

Hvað sagði hæstv. fjmrh. um aðgerðir? Jú, hann sagði að bent hefði verið á að herða refsiákvæði og þess hefði verið óskað við dómsmrn. að það væri athugað. Hann sagði að fram hefðu komið ábendingar um breytingar á bókhaldslögum og það væri nú í könnun. Hann sagði að fram hefðu komið tillögur um breytt skipulag á skattakerfinu, en það væru skiptar skoðanir um það og ekki var heyrandi á máli hans hvar það mál væri statt. Hann sagði að fram hefðu komið ábendingar um nauðsyn þess að fækka undanþágum, frádráttarliðum og götum í skattakerfinu. Jú, hann sagði að að því væri stefnt að leggja hér fram frv. um virðisaukaskatt, 15. árið í röð sem við heyrum þetta loforð.

Þetta eru náttúrlega ekki snöfurlegar aðgerðir í máli, sem er stærsta þjóðfélagsvandamálið á Íslandi í þeim skilningi að það er stærsta réttlætismálið í landinu, ónýt skattalög. Og um það er enginn ágreiningur. Um það eru allir sammála sem á annað borð þekkja til. En ég spyr. Hæstv. fjmrh. lætur sér nægja svör af þessu tagi, lætur sér nægja að leggja fram fjárlagafrv. sem er eins og við erum búnir að lýsa, lætur sér nægja að byggja það í veigamiklum atriðum á frumvörpum sem hann talaði um í fyrra en eru enn ekki fram komin, eins og t.d. frv. um breytingar á tekjuskatti, tollskrá, vörugjaldi, og þetta orðakonfekt 15. árið í röð, um virðisaukaskatt og staðgreiðslu. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Þetta er ekki til þess að bæta gæði hagstjórnartækisins. Og þetta er ekki málflutningur af því tagi sem bendir til þess að hæstv. fjmrh. geri meiri kröfur til sjálfs sín en til svokallaðra andstæðinga sinna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Niðurstaðan er þessi: Það er sestur á stól fjmrh. ungur maður, leiðtogi Sjálfstfl. Sjálfstfl. boðar þegar það á við ákveðna stefnu, ekki hvað síst í ríkisfjármálum. Stefnan á að vera sú að draga úr ríkisumsvifum. Stefnan á að vera sú að boða kerfisbreytingu í ríkisrekstri. Stefnan á að vera sú að koma með tillögur sem mundu stemma stigu við Parkinsonsveikinni, draga úr síþenslu ríkisútgjalda af því að það er forsendan fyrir hinum meginpósti stefnunnar sem er sú að boða skattalækkanir. Stefnan á að vera sú að boða ráðdeild í ríkisrekstri. Stefnan á að vera sú að koma með tillögur sem svara spurningum eins og þessum: Hvað á ríkið að vera að reka og hvað ekki?

Nú bregður svo við að formaður flokksins og hinn ungi fjmrh. leggur hér fram fjárlagafrv., að vísu á kosningaári, hefði átt að gera það í fyrra, sem er af því tagi að ginnungagapið milli hinnar yfirlýstu stefnu og veruleikans er orðið óþægilega breitt. Vonbrigðin eru alveg tvímælalaust sár, en þau eru auðvitað fyrst og fremst sár í röðum flokksmanna, í röðum ungra sjálfstæðismanna. Í röðum þeirra sjálfstæðismanna er það dálítið alvörumál að sjálfstæðisstefnan sé ekki höfð að háði og spotti, að menn snúi ekki baki við henni um leið og þeir koma inn í þingsalina. Og síst af öllu er það við hæfi, þó að það sé skiljanlegt, mannlegt en ekki stórmannlegt, að hæstv. fjmrh. bregðist við alltaf eins og stunginn grís þegar honum er boðið upp á málefnalega umræðu. þegar lagðar eru fram vandaðar tillögur, sem við gerum enn. Við boðum það. Við munum enn á ný leggja fram vandaðar tillögur, ekki bara um markmið, heldur um það hvernig eigi að ná þeim markmiðum: Að gera fjárlögin marktækari, að draga úr síþenslu ríkisútgjalda, að fækka þeim ríkisstofnunum sem við mundum flokka undir velferðarkerfi fyrirtækja eða gæluverkefni framsóknarkerfisins. Af því að þetta er forsenda fyrir þeim tillögum okkar, að boða og helst að reyna að ná samstöðu, m.a. með sjálfstæðismönnum, um nýtt skattakerfi, sem væri einfalt, auðskilið og réttlátt.

Það er leiðinlegt, herra forseti, að þegar hæstv. fjmrh. er boðið upp á slíka umræðu þá skuli hann bregðast við eins og hann væri enn í stuttbuxnadeild Heimdallar.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.