16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4290 í B-deild Alþingistíðinda. (4020)

197. mál, veiting prestakalla

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst gera mjög alvarlega athugasemd við málatilbúnað eða öllu heldur málaflutning varðandi þetta frv. Eins og menn þekkja njóta stjfrv. nokkurs forgangs í framkvæmd þingskapa, en hér vill svo til að ekki er um stjfrv. í venjulegum skilningi að tefla fyrir því að ýmsir ráðherrar gerðu fullkominn fyrirvara á um samþykki sitt eða fylgi við þetta frv. Þetta hefur ekki verið upplýst og reynt að laumast áfram með frv. eins og þetta væri venjulegt stjfrv. eðli sínu samkvæmt. Ég kann ekki að meta þessi vinnubrögð, það verð ég rétt að segja, og þykir miður, þegar svona mikilvægt frv. er á ferðinni til umræðu, að sjálfur dómsmrh., sem þessi vinnubrögð hefur haft í frammi, skuli ekki vera hér staddur. En ég verð að gefa mér nógan tíma til að ná tali af honum héðan úr stólnum. Menn ráða því náttúrlega, ef þeir hafa yfirdrifinn tíma, hvort menn vilja verja honum með þeim hætti.

Þetta mál er ekki nýr kunningi á dagskrá og með ólíkindum að hið háa Alþingi skuli láta bjóða sér slíkt framferði af hálfu prestastéttarinnar eins og hér eru dæmi um. Ég fékk þar aðeins dæmi af framsóknaráratugnum, ég verð víst að fara að snúa mér í þessa átt senn hvað líður með málflutning minn, til þess að menn átti sig á skorðunum að því leyti. Hér höfum við frv. þessa efnis flutt á þingi 1972-1973, hér er sams konar frv. 1973-1974, hér höfum við enn eitt 1975-1976, hér höfum við enn eitt 1976-1977 og hér er svo loks 1978-1979. Alltaf sami steinninn klappaður. En því fór fjarri í öll þessi skipti að Alþingi dytti í hug að leggja eyru við þessu eða ljá því nægjanlegt fylgi. En svo er það í andvaraleysi að þá á að lauma þessu máli í gegn á forsendum sem ég verð því miður að segja að séu meira en lítið vafasamar. Mér þykir fyrir því að þurfa að tala þannig til félaga míns, hæstv. dómsmrh., en ég kemst ekki hjá því vegna þess að hér var í besta falli leyft að þetta mál yrði kynnt fyrir þingi, en ekki flutt með þeim hætti og allan tímann kynnt með þeim hætti sem hér væri um venjulegt stjfrv. að tefla.

Ég ætla ekki í þessari ræðu minni að víkja sérstaklega að efnisinnihaldi þessa máls. Þetta hefur margsinnis verið rakið. En menn sjá til hvers leiðir. Það hlýtur að blasa við öllum mönnum. Það hlýtur að blasa við öllum mönnum til hvers það leiðir að taka upp þær reglur sem hér er lagt til að viðhafðar verði. Það á að svipta sóknarbörnin áhrifum á hvern þau velja sér sálusorgara sinn og með þeim dæmalausa hætti að ætla að stilla upp einhverjum fimm eða sjö mönnum til þess að setjast á rökstóla undir auðvitað ógnarþrýstingi biskupsvaldsins að velja sér sálusorgara. Þetta mun auðvitað leiða til þess að hver pokinn af öðrum verður fyrir sálarglugga manna dreginn og þeir sitja uppi með það ævilangt. Hv. þm. þurfa að ganga fyrir sína kjósendur (Gripið fram í: Hvernig pokar eru þetta?) í það minnsta á fjögurra ára fresti og þykjast ekkert of góðir til þess, en klerkum, sem aðeins þurfa að gera þetta einu sinni e.t.v. á ævinni, er það mjög umhendis og bera ýmsu við.

Það kann vel að vera að þeir kunni sér lítt hóf, prestar, í kosningabaráttu fyrir góðu brauði og þó einkum meðreiðarsveinar þeirra. Um þetta eru mörg dæmi. En að lokinni kosningabaráttu, þegar einn hefur sigrað, er það slakur sálusorgari ef hann eyðir ekki þeim kurr eða óánægju sem til hefur verið sáð meðan á baráttunni hefur staðið. Þá er hann einskis nýtur, eins og klerkurinn hlýtur að hafa yfirburðaaðstöðu til að lækna þau sár sem opin kunna að vera, yfirburðaaðstöðu langt umfram það sem t.d. stjórnmálamenn hafa til að sætta menn við úrslit í venjulegum alþingiskosningum. Það þykir mér verst að Alþingi skuli láta misbjóða sér með þessum hætti. (Gripið fram í: Hér er ráðherrann kominn.) Hann er kominn, já.

Ég var að finna að því, hæstv, dómsmrh., að það skuli ekki hafa verið skýrlega tekið fram með hvaða hætti menn brugðust við í ríkisstjórn þegar leyft var að þetta frv. væri flutt, að vísu afgreitt af ríkisstjórn með þeim hætti að kallast megi stjfrv., en með þeim sérstaka hætti að einstakir ráðherrar höfðu sterkan fyrirvara á um fylgi við það og var raunar vitað um andstöðu þeirra við það. (Landbrh.: Ég tók það fram við framsögu hér að stjórnarþingmenn hefðu óbundnar hendur.) Stjórnarþingmenn. Það var alveg nauðsynlegt að taka fram með hvaða hætti þetta var afgreitt í hæstv. ríkisstjórn.

Ég var svo að því kominn, sem mér er mest í mun og þyngst niðri fyrir út af, hvernig Alþingi lætur leika á sig og ég tók hér framsóknaráratuginn og flutning þessa máls á honum. Menn urðu að láta ýmislegt yfir sig ganga þann áratug. Ég hélt að það væri nóg komið m.a. af þessu, að lifa þann áratug af, þar sem þetta mál er sjö sinnum flutt og jafnoft lagt til hliðar.

Nú ætla ég, hæstv. forseti, ekki að þæfa þetta mál í þessari minni fyrstu ræðu við 3. umr., en fer fram á að umræðu þessari verði frestað. Þetta er hvort sem er til þriðju umræðu þannig að þess vegna þurfa menn ekki að óttast úrslit málsins. En ég hef í huga e.t.v. að reyna, þó í litlu kunni að vera, að lagfæra augljósa hnökra á þessu lagafrv. vegna þess að í þykjustunni eru menn hér með ákvæði um að sóknarbörn geti krafist kosninga ef 1/4 þeirra krefst þess innan örskamms tíma frá því að niðurstöður í kjörmannavali hafa verið kynntar. Auðvitað er þetta í þykjustunni. Ég gæti því hugsað mér að leita lags um það og samninga hvort menn gætu hugsað sér lægri hundraðstölu þarna þannig að þetta væri mögulegt í framkvæmdinni. Ég tek það fram, úr því sem hv. 3. þm. Vestf. gengur fram hjá, að ég get ekki fallist á þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Ég get að vísu játað að í orði kveðnu má svo heita að það sé hið fullkomna lýðræði að beita því, en ég held að slíkum ráðum eigi ekki að beita nema í miklu stærri málum. Þó er þetta veigamikið mál. Það skal ég líka játa.

Ég fer þess vegna fram á, af því sem hér er málinu ekki hætt þess vegna, að hæstv. forseti fresti þessari umræðu þannig að manni gæfist kostur á aðeins að kynna sér möguleika á að lagfæra þetta þannig að viðhlítanlegra væri en í þeirri gerð sem það er hér. Til þess þyrfti ekki tíma nema fram eftir morgundeginum til að láta á þetta reyna. Ég er sannfærður um það, og hef sannfærst um eftir að mér varð ljóst að hér var svo komið málum sem mér datt bara aldrei í hug, að menn hafa meðvitundarlitlir afgreitt þetta í hv. nefnd. Það hef ég sannfærst um af þeim litlu njósnum sem ég hef haldið uppi um meðferð þessa máls frá því sem það kom í hv. deild.

Það er svo annað mál hvort menn telja eðlilegt, nú þegar við höfum sem mest að vinna í hinum þýðingarmestu málum rétt við lok Alþingis, að slík fljótaskrift á máli eins og þessu eigi rétt á sér. Það er svo annað mál. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir afskaplega miklum vonbrigðum með þá fljótaskrift og það andvaraleysi sem lýsir sér í málsmeðferð þessari hér í hv. deild.

En hæstv. forseti. Ekki meira að sinni. Það er ástæðulaust. En ég hlýt að biðja um eindregið að máli þessu verði frestað. Ekki svo að það sé nauðsynlegt við lok orða minna nú, því fleiri hafa kvatt hljóðs og nauðsynlegt að heyra fleiri viðhorf til þessa, en að svo búnu að veittur verði frestur um skamma hríð til þess að ráðgast um hvort ekki mætti ná einhverri bærilegri niðurstöðu, ef þetta þarf að fara fram er nú blasir við.