16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4292 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

197. mál, veiting prestakalla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér við þessa umræðu að gera í stuttu máli grein fyrir fyrirvara sem ég hafði í menntmn. þegar ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og vildi fara örfáum orðum um það hvaða viðhorf ég hef til þessa frv. og í hverju þessi fyrirvari minn er fólginn.

Ég hef ekki látið mig skipta miklu þau mál sem hér eru á dagskrá, en ég hef fylgst með kirkjulegu starfi og því sem þar ber við í sambandi við prestskosningar og ég tel að sú reynsla sem menn hafa fengið af þeim kosningum sé ekki sérstaklega hvetjandi til að halda við það kerfi sem hefur verið þar við lýði. Við búum við þjóðkirkju í landinu þar sem ríki og kirkja eru samtvinnuð með þeim hætti sem menn þekkja. Prestarnir eru starfsmenn þjóðkirkjunnar og nánast opinberir starfsmenn þar af leiðandi og ég skil ekki rökin fyrir því að það sé eðlilegt að setja presta sem opinbera starfsmenn, starfsmenn þjóðkirkjunnar, undir einhverja allt aðra reglu en aðra opinbera starfsmenn í landinu. Ég sé ekki út af fyrir sig að þeirra starf, svo þýðingarmikið sem það er, sé allt annars eðlis en starf fjölmargra sem fá opinbera veitingu til starfa. Það eru margir annmarkar sem fylgja því kerfi sem hefur verið í gangi og ekki allir sérstaklega til að efla eindrægni og frið í sambandi við starf innan þjóðkirkjunnar. Það þekkja menn vafalaust af mjög mörgum dæmum. Ég tel líka að í sambandi við prestskosningar sé mönnum mismunað talsvert, annars vegar þeim sem í þéttbýlinu starfa og hinum sem starfa á landsbyggðinni. Menn þekkja það nú í seinni tíð að umsóknir um prestsembætti úti um land eru yfirleitt ekki margar. Oftast er það bara einn maður sem sækir um starf og það er frekar hygg ég sjaldnar en hitt að þeir nái lögmætri kosningu jafnvel þó einn sé í kjöri og eru þá skipaðir til starfa af biskupi.

Ég verð líka var við að það er ekkert auðvelt fyrir þá menn sem sinna prestsstörfum úti um landið að breyta til og taka þátt í kosningum í fjölmennari brauðum eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þannig búa menn engan veginn innan prestastéttarinnar við sama hlut í þessum efnum. Mér fyndist eðlilegt að setja presta undir svipaða reglu og opinbera starfsmenn par sem takmörk væru sett við skipunartímann. Ég hef verið fylgjandi því að skipa opinbera starfsmenn aðeins í skamman tíma, í nokkur ár. Sex ára tími hefur verið á blaði hjá mér og okkur í Alþb. sem höfum flutt um það tillögur að takmarka oft og tíðum veitingu opinberra embætta og hafa þau tímabundin þannig að menn þurfi þá að sækja um á ný og það sé hægt að endurskoða veitingu fyrir slíkum embættum. Mér finnst ekkert óeðlilegt að það gildi um presta jafnt sem aðra opinbera starfsmenn þó að það sé kannske ekki að öllu leyti saman að jafna. Þjóðkirkjan hefur vissulega þó nokkra sérstöðu, um hana gilda sérstakar reglur, en á meðan að menn búa við það kerfi að hafa hér ríki og kirkju sameinuð í formi þjóðkirkjunnar og meiri hluti manna kýs það finnst mér ekki sjálfsagt að fara að setja starfsmenn þjóðkirkjunnar undir einhverja allt aðra reglu en aðra menn sem gegna opinberum störfum.

Hér var verið að leggja til af hv. þm. Karvel Pálmasyni að setja þetta undir þjóðaratkvæði. Nú hygg ég að það sé svo að innan þjóðkirkjunnar sé um 95% manna. Það er dálítið sérstakt ef það á að fara að setja þau málefni undir þjóðaratkvæði. Ja, ég veit ekki hvernig menn ætla að haga slíkri kjörskrá sem þar væri á ferðinni. Hér er sennilega á ferðinni ein af þessum patentlausnum Alþfl. sem hefur verið að ýmsum málum í þjóðaratkvæði, eins og spurningin um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þá er því vísað í þjóðaratkvæði. Hér hefur hv. þm. svipað að orði í þeim efnum. (KP: Það hefur alltaf þvælst fyrir Alþb., lýðræðið.) Ég ætla ekki að fara að ræða mál hv. þm. hér áðan. Mér finnst tæpast að það þurfi að eyða mjög mörgum orðum að þeim ályktunum sem hann var að draga í sambandi við afstöðu manna til þessa og spurningarinnar um afstöðu til þingræðisins. Það þóttu mér heldur langsótt rök sem þar voru á ferðinni.

Ég hefði sem sagt verið reiðubúinn að ganga lengra en lagt er til í þessu frv., þ.e. í sambandi við veitingu prestsembætta, þó að ég geti út af fyrir sig hlustað á önnur rök og það sé skoðunarvert annað kerfi í þessum efnum eins og gengur. Það eru álitamál hér á ferðinni. Það skal ég fúslega viðurkenna. En ég vildi koma þessu á framfæri hér þar sem ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og hef gert grein fyrir honum hér.