16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4306 í B-deild Alþingistíðinda. (4046)

391. mál, fæðingarorlof

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er sannarlega löngu tímabært að hér sé flutt af hálfu stjórnvalda frv. til l. um að lengja fæðingarorlof. Læknisfræðilegar og félagsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fyrir nokkuð löngu hversu geysilega mikilvægt fyrsta tímabilið eftir fæðingu, fyrstu dagar, vikur og mánuðir, er til þess að gott samband geti myndast milli barns og móður, eða þess sem annast barnið. Þetta getur verið úrslitaatriði fyrir framtíðarvelferð barnsins svo að ekki sé minnst á þau gæði, líkamleg og andleg, fyrir barnið að njóta móðurmjólkurinnar óáreitt.

Eins og við vitum vinnur stór hluti íslenskra kvenna úti á vinnumarkaði, allt að 80% og trúlega af þeim sem eru á barneignaraldri jafnvel hærra hlutfall. Þetta er mun hærra en á hinum Norðurlöndunum og verða aðrir Norðurlandabúar aldrei dolfallnari en þegar maður segir þeim hversu stutt fæðingarorlof er á Íslandi, en þar er fæðingarorlof mun lengra, og allt að einu ári þar sem lengst er. Það er því löngu orðið tímabært að þessum málum yrði hreyft og ber að fagna því að hér skuli flutt frv. til l. til að leiðrétta þau mál.

Kvennalistinn hefur flutt á þremur umliðnum þingum frv. til l. um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í a.m.k. sex. Ef borin eru saman þau frumvörp sem hér er verið að flytja og það frumvarp sem Kvennalistinn flytur er mikill grundvallarmunur þar á. Í þessu frv. er ýmislegt til bóta, en hins vegar er líka ýmislegt þar sem má gagnrýna.

Ef ég vík fyrst að því sem vel er gert er það sannarlega til bóta að hægt er fyrir konu að láta flytja sig til í starfi ef heilsu hennar eða fósturs er hætta búin án þess að launakjör hennar skerðist á meðgöngutíma. Sama máli gegnir um það að sá atvinnurekandi sem brýtur á ákvæðum þessarar greinar, þ.e. 7. gr., með því að segja upp barnshafandi konu er bótaskyldur. En hv. 2. landsk. þm. vék reyndar að atriðum sem sjálfsagt er að athuga í þessu sambandi, þ.e. að blanda ekki saman ráðningartíma konunnar við bótaskyldu atvinnurekanda, og er sjálfsagt að huga betur að því í nefnd.

Einnig er til bóta að foreldrar ráði því sjálfir hvernig þeir skipta fæðingarorlofinu og geti þá jafnvel báðir tekið fæðingarorlof í einu og verið heima þann tíma eða skipt öðruvísi á milli sín. Það er allt til bóta.

Ef ég vík nú að því sem er athugavert við þessi frumvörp er það í fyrsta lagi að framsetning málsins er falsvert flókin og má segja óþarflega flókin. Í öðru lagi tekur sú lenging sem um er að ræða, þ.e. lenging frá þremur mánuðum og upp í sex, allt of langan tíma, miðað við þá knýjandi þörf sem fyrir þetta er, og hefði þurft að gera þetta mun hraðar. Og í þriðja lagi er konum mismunað í greiðslum eftir því hvort þær eru heimavinnandi eða útivinnandi.

Það er nýmæli að í þessum frumvörpum er búið að búta ákvæði um fæðingarorlof niður í tvö mismunandi frv. Fæðingarorlof er skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum án greiðslna og síðan er í fylgifrv. kveðið á um greiðslur í fæðingarorlofi. Þeim er skipt annars vegar í fæðingarstyrk og hins vegar í fæðingardagpeninga. Þetta er einmitt það sem gerir málið talsvert flókið. Síðan koma fram vangaveltur um hvernig kostnaðarskipting getur verið milli ríkis og atvinnurekenda vegna fæðingarorlofsins og líka hugleiðingar um sérstakan fæðingarorlofssjóð en fram eru settar lauslegar hugmyndir um hann í grg. með greiðslufrv.

Í tekjuöflunarfrv. því sem fylgdi með fæðingarorlofsfrv. Kvennalistans, sem hv, þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir flutti í Ed. og hefur flutt í þrjú ár í röð án þess að það næði fram að ganga þrátt fyrir mikinn stuðning kvenna víða að, var um að ræða hækkun á prósentuhlutfalli framlags atvinnurekenda til lífeyristrygginga og hefði hún getað aflað fjár til þessa málefnis þannig að tekist hefði að koma fæðingarorlofsgreiðslum á mun hraðar en hér er lagt til og hefði það verið til bóta.

Samkvæmt þessu frv. bera heimavinnandi konur áfram skertan hlut frá borði hvað varðar fæðingarorlofsgreiðslur. Greiðslur þeirra hækka að vísu úr 11 þús. og upp í 15 þús., en í raun njóta þær einungis fæðingarstyrks, en fá ekki fæðingardagpeninga sem svo nefnast en eiga að greiðast til þeirra kvenna sem eru útivinnandi. Útivinnandi konur fá fæðingardagpeninga sem nema rúmlega 35 þús. kr. á mánuði ef þær eru í fullri vinnu og er það um 1000 kr. meira en þær fá nú miðað við núgildandi lög. Hins vegar fá þær ekki óskert laun sín í fæðingarorlofi. En ég vil sérstaklega taka það fram að við verðum að huga að því að konur eru engu síður fyrirvinnur en karlar og það er að verða æ ljósara að hvert heimili nú til dags þarf a.m.k. tvær fyrirvinnur. Ef ég man rétt var það einmitt viðurkennt af hæstv. fjmrh. nú á dögunum í umræðum um frv. til skattalaga því að þar er einmitt gert ráð fyrir að hvert heimili þurfi tvær fyrirvinnur. M.a. þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að útivinnandi kona haldi sínum launum óskertum í fæðingarorlofi því að hún er fyrirvinna engu síður en faðirinn. Ég vil geta þess hér að þegar frv. Kvennalistans var til umfjöllunar kom fram, þegar Tryggingastofnun var beðin að reikna út hvernig færi ef þær konur sem eru úti á vinnumarkaði fengju í raun fulla greiðslu sinna launa þennan tíma, að það skipti stofnunina nánast engu máli hvort hún greiddi út fullar viðmiðunargreiðslur til kvenna í fæðingarorlofi eða hvort hún greiddi þeim full laun. Niðurstaðan er sú sama, upphæðin er sú sama. Það er vegna þess að konur hafa svo lág laun úti á vinnumarkaði. Það skiptir nánast engu máli. Það eru svo örfáar konur sem eru í mjög háum launaflokkum, enda sjáum við það á öllum þeim tölum sem reiknaðar eru út hjá hinum ýmsu stofnunum, t.d. eins og nýjar tölur frá Byggðastofnun sýndu að karlar hafa tæpum 60% hærri laun á ársverk en konur og einnig að það eru ekki nema tæp 5% kvenna á vinnumarkaði sem ná meðallaunum karla þannig að hér er ekki um geysilegar upphæðir að ræða.

Síðan er kannske sá þáttur, sem er grundvallaratriði eða prinsipþáttur í málinu. Hann er sá að sé konum greitt á þann veg að þær fái full laun sín í fæðingarorlofi er löggjafinn í raun að segja að hann meti þau störf sem felast í því að annast um lítið barn jafnmikils og hvert annað það starf sem móðirin hefur með höndum úti á vinnumarkaðnum og það hefur fordæmisgildi. Það er mjög mikilvægt að viðurkennt sé að það að annast um nýfætt barn sé engu ómerkilegra en hvert annað starf í krónum talið. Í raun mætti segja að það ætti að launa það meira en nokkuð annað vegna þess hversu mikilvægt það er að vel til takist. Alla vega ætti ekki að skerða laun kvenna með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessum frumvörpum. Það ætti a.m.k. að láta þær halda sínum launum og ber að geta í því sambandi til samanburðar að þær konur sem vinna samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna og einnig konur í Félagi bankamanna halda óskertum launum sínum í fæðingarorlofi. Þær konur sem þarna verða utangarðs eru fyrst og fremst konurnar í Alþýðusambandi Íslands. Það eru fyrst og fremst ASÍ-konurnar sem ekki fá full óskert laun sín samkvæmt þeim tillögum sem hér eru lagðar til.

Síðan hefur þegar verið minnst á þær brtt. sem voru fluttar í Ed. við umræðuna þar og ég vil taka undir þær. Þar er um að ræða brtt. við 3. mgr. 1. gr. laga um almannatryggingar þar sem greinir frá greiðslum til mæðra sem eiga andvana börn. Þar kemur í ljós, eins og kom fram í máli hv. 2. landsk. þm., að bæði útivinnandi og heimavinnandi konur fá skertar greiðslur ef þær fæða andvana börn. Heimavinnandi konurnar njóta fæðingarstyrks einungis í tvo mánuði, en útivinnandi konurnar fá skerðingu á fæðingardagpeningum þriðja mánuðinn þannig að þær njóta fullra greiðslna skv. frv. í tvo mánuði, en þriðja mánuðinn fá þær skertar greiðslur. Ég held að það hljóti að nást samstaða um breytingu á þessu ákvæði í nefndinni. Þetta er að sjálfsögðu sanngirnismál og ætti að geta náðst samstaða um slíkt við umfjöllun málsins í nefndinni.

Ég á því miður ekki lengur sæti í hv. heilbr.- og trn. Nd., en vegna þess að ég tel þetta mái afskaplega mikilvægt og vil mjög gjarnan fylgjast með umfjöllun þess í nefndinni vil ég fara fram á það við formann nefndarinnar, sem situr hér við umræðuna, að ég fái áheyrnaraðild í hv. heilbr.- og trn. þegar fjallað verður um þetta mál.