17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (4143)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef ekki talað langt mál í þessari umræðu og hyggst ekki lengja það mjög. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir hans orð varðandi Gilsfjörð. Það er eitt af þeim verkefnum sem bíða og þarf að framkvæma. Framkvæmdir í vegamálum á Vestfjörðum eru styttra komnar en í nokkru öðru kjördæmi á Íslandi vegna þess hve verkefnin eru stór.

Ég vakti máls á og minnti hv. 3. þm. Vestf. á að þó að sú stjórnarandstaða sem hér væri inni réði litlu um þessi mál væri stjórnarandstaða utan þingsins sem réði miklu og hann viðurkenndi það og lýsti því yfir að það væri rétt að ASÍ réðist gegn því að hagnýta sér lækkun á olíu til að fara í auknar framkvæmdir í vegamálum. (KP: Áhrifamenn.) Þetta vil ég þakka honum alveg sérstaklega fyrir áhrifamenn. Auðvitað er það það sem skiptir máli hvað áhrifamennirnir þar gera en ekki hinir.

Hann lýsti því jafnframt yfir að Alþfl. hefði ekki haft tækifæri í allmörg ár til að sýna stefnuna í vegamálum. Hann leggur á það áherslu að þurfa ekki að sýna hana núna áður en farið er til kosninga. Það eigi að sýna hana eftir kosningar. Það er stefnan. Seinasta stefna sem sýnd var af hálfu flokksins var niðurskurður upp á 21/2 milljarð frá áður fram lögðum fjárlögum. Það er þess vegna ekkert skrýtið þó að menn séu dálítið hræddir við stefnu Alþfl. í vegamálum. Og með allri virðingu fyrir umræðum um meðreiðarsveina dylst það ekki neinum manni hvaða meðreiðarsveinn það er sem fer með hv. 3. þm. Vestf. í slaginn. Það er hæstv. fyrrv. fjmrh. sem lagði til niðurskurðinn upp á 21/2 milljarð. Þetta eru staðreyndirnar sem hv. 3. þm. Vestf. kemst ekki fram hjá. Hann ætlar að berjast fyrir því fram á vor að meðreiðarsveinninn komist inn til að hægt sé að skera niður í vegamálum. (Menntmrh.: Og verður minntur á þetta. ) Og hann verður minntur á það á fleiri stöðum en hér. Það blasir við.

Ég undirstrika að ég ætla ekki að fella neinn endanlegan dóm um það hversu klár hann er í kollinum, en mér sýndist, miðað við ræðuna hér áðan, að þarfasta verk sem hann hefði að vinna á næstunni væri ekki að skamma þingheim fyrir viðhorf til vegamála. Hann hefði ærið verk að vinna á heimavígstöðvum í þeim efnum. Það væri heimatrúboð sem biði hans ef hann ætti að ná árangri í því að koma einhverju fram í vegamálum.

Hann undrar að menn skuli ekki tala um einstaka vegspotta. Hann undrar að menn skuli tala um fjárveitingarnar í heild og þann vilja sem markast af slíku. En auðvitað hljóta það að vera fyrst og fremst átökin um þessa hluti sem blasa við á Alþingi Íslendinga á næstu árum.

Hv. 5. landsk. þm. telur að það sé farið að halla svo á Alþfl. í umræðunni að honum finnst að umræðan sé ekki til að greiða fyrir þingstörfum. Það er merkilegt að tarna. Er það komið svo að almennir stjórnarþm. hafi ekki rétt til að taka til máls og ræða um vegáætlun á þingi því að ef það verði til þess að eitthvað kuli um stjórnarandstöðuna verði því hótað að það verði bara til þess að menn tali þá lengur í öðrum málum?