17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4408 í B-deild Alþingistíðinda. (4153)

Afgreiðsla þingmála

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal virða tilmæli um að vera stuttorður en ég get einfaldlega ekki orða bundist eftir þá ræðu sem hv. þm. Gunnar G. Schram flutti áðan og hans „málsvörn“ í þessu máli vegna þess að þar ofbauð mér gjörsamlega.

Það er ekki það sama hvort lögð eru fram sömu dagana næstum því þingmál um sama efni eða svipað, eða hvort, eins og hér er um að ræða, að lagt er fram þingmál í byrjun þings en á lokadögum þingsins kemur formaður nefndarinnar, sem málinu var vísað til, og leggur fram samhljóða mál. Á þessu er auðvitað reginmunur og hv. þm. Gunnar G. Schram fór hér eins og köttur í kringum heitan graut í sínum málflutningi um þetta mál. Á þessu er reginmunur.

Varðandi það sem hann auðvitað réttilega sagði hafa menn engan einkarétt á málum. En menn virða vissa umgengnishætti hér í þinginu. Það hefur enginn maður einkarétt á þessu máli og það dettur engum manni í hug að halda því fram. Þegar hins vegar svona er staðið að verki að í upphafi þings kemur fram tillaga um mál sem formaður nefndar þumbast við að afgreiða úr nefndinni vegna þess að málið sé í athugun hjá hans flokki og flytur síðan sjálfur ásamt þremur samflokksmönnum sínum tillögu um málið á lokadögum þingsins fæ ég einfaldlega ekki orða bundist vegna þess að þetta eru vinnubrögð sem ekki hafa tíðkast á hinu háa Alþingi áður leyfi ég mér að fullyrða. Auðvitað hafa menn flutt sams konar og svipuð mál og þegar svo hv. þm. tekur það sem dæmi um góð vinnubrögð að hann hafi meira að segja afgreitt mál frá hv. þm. Helga Seljan, meira að segja, þykir mér fyrst kasta tólfunum. Ég lýsi furðu á þessum málflutningi.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan að það ætti að vera hægt að afgreiða þetta mál á næsta þingi þegar væri svona mikil samstaða um það. Ég held að það sé mjög auðvelt að afgreiða þetta mál á þessu þingi, það er samstaða um það núna. Við vitum ekkert hvernig það verður á næsta þingi. Og varðandi þá tillögu sem dreift var hér í dag, herra forseti, sé ég ekki hvernig er tæknilega unnt að afgreiða hana á þeim tíma sem eftir er. Ég mun hafa mismælt mig áðan þegar ég sagði að það ætti að ljúka þingstörfum á föstudag Það er auðvitað á fimmtudag eins og hv. þm. vita. Ég sé ekki að það sé tæknilega unnt og þess vegna ítreka ég þau tilmæli að tillagan á þskj. 49 verði afgreidd vegna þess að það virðist ekki vera efnislegur ágreiningur um þetta mál. Og ég beini þeim eindregnu tilmælum til meiri hlutans hér á þinginu og þeirra sem ráða ferðinni í þessum efnum að þetta mál verði nú afgreitt.

Það er svo auðvitað rétt sem hér hefur verið getið að frá þm. Kvennalistans kom fram mál um þetta sama efni nákvæmlega þá sömu daga og þetta þskj. 49.

Hv. þm. Kvennalistans, Kristín Halldórsdóttir 7. landsk. þm., bar sig illa undan því að Staksteinahöfundur Morgunblaðsins hefði verið að gefa þm. Kvennalistans einkunnir. Ég veit satt best að segja ekki hverjir hafa verið duglegastir þm. við að gefa öðrum þm. einkunnir í fjölmiðlum og hingað og þangað og þær ekki allar mjög fallegar.