18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (4305)

84. mál, auglýsingalöggjöf

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka virðulegri allshn. fyrir að hafa unnið vel að þessu máli og komist að niðurstöðu sem ég get fyllilega sætt mig við, enda hafði ég um það orð í framsöguræðu með till. að sjálf tillgr. og það fyrirkomulag sem þar var lagt til væri flm. ekki heilagt og mætti í raun einu gilda með hvaða hætti yrði unnið að því að ná fram þeim meginmarkmiðum sem fyrir flm. vakti með tillöguflutningnum.

Ég fagna mjög þeirri hreyfingu sem komist hefur á þetta mál nú með þeirri till. sem hv. allshn. flytur og ég vona að framgangur hennar verði á einn veg hér í atkvæðagreiðslu og ályktun Alþingis sem þar af leiði verði fylgt vel eftir.