18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (4330)

380. mál, Norræni umhverfisverndarsamningurinn

Frsm. utanrmn. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um aðild Íslands að Norræna umhverfisverndarsamningnum. Utanrmn. hefur fjallað um þessa till., en flm. hennar eru hv. þm. Gunnar G. Schram, Friðrik Sophusson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Valdimar Indriðason. Tillgr. orðaðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa aðild Íslands að Norræna umhverfisverndarsamningnum sem gerður var 19. febr. 1974 og hefur þegar tekið gildi á milli Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands.“

Í grg. er minnt á að þessi fjögur Norðurlandanna hafi gert með sér samning um umhverfisvernd sem undirritaður var 19. febrúar 1974 og hefur því verið í gildi alllengi. Samningurinn tekur til starfsemi í samningsríkjunum sem hefur eða getur haft umhverfisspjöll í för með sér og sams konar skaðleg áhrif í öðrum ríkjum Norðurlanda. Þau skaðlegu umhverfisáhrif sem samningurinn tekur til eru mengun frá landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum, mengun vatns eða sjávar, loftmengun og mengun vegna geislavirkra efna. Þá tekur samningurinn einnig til mengunar og umhverfistjóns sem verður frá mannvirkjum eða athöfnum á landgrunni samningsríkjanna.

Síðan er greint nokkuð frá þeim ákvæðum sem varða málssókn og annað sem unnt er að höfða til að stöðva framkvæmdir í öðrum löndum ef þau eru talin geta valdið mengunarskaða í nágrannalöndum. Með þessum ákvæðum væri íslenskum stjórnvöldum, félögum og ríkisborgurum heimilt að höfða mál til að stöðva framkvæmdir annars staðar á Norðurlöndum ef þau telja að þær framkvæmdir gætu valdið mengunarskaða hér á landi og jafnvel krafist bóta fyrir slíkt tjón á jafnréttisgrundvelli.

Utanrmn. mælir einróma með samþykkt þessarar till. með einni breytingu, þ.e. í stað orðanna „að undirbúa aðild“ komi: að leita eftir aðild.

Undir þetta rita Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður, Birgir Ísl. Gunnarsson, Kjartan Jóhannsson, fundaskrifari, Gunnar G. Schram, Ingvar Gíslason, Haraldur Ólafsson og Hjörleifur Guttormsson.