18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (4338)

Verkfall framhaldsskólakennara

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ástandið í skóla- og menntamálum Íslendinga er í raun og veru skelfilegt. Menntun og rannsóknastarfsemi eru alls ekki sá grundvöllur í íslensku þjóðlífi sem vera ætti. Ástæðan er vanræksla stjórnvalda og ekki síst í þeim efnum sem hér eru nú til umræðu, þ.e. hvað varðar kjör þeirra stétta sem skólastarfið hvílir á. Kvennalistinn hefur æ ofan í æ lýst áhyggjum sínum vegna bágra kjara kennara og illrar starfsaðstöðu sem standa í vegi fyrir eðlilegu og góðu skólastarfi. Á haustþingi 1984 lögðum við fram till. til þál. um endurmat á störfum kennara, sem við teljum hryggilega og hættulega vanmetin, svo mikilvæg sem þau eru. Alit okkar í þeim efnum kom mjög vel fram í grg. með till. Till. hlaut að vísu ekki formlega afgreiðslu, en hæstv. þáverandi menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, studdi hana eindregið og skipaði nefnd til að framkvæma slíkt endurmat þennan sama vetur. Niðurstaða nefndarinnar kom algjörlega heim og saman við það sem við höfðum haldið fram, en því miður hefur skýrsla nefndarinnar ekki reynst nægileg viðspyrna í sókn kennara til bættra kjara, þó betri en ekki.

Tregða stjórnvalda til að viðurkenna mikilvægi kennarastarfsins í verki hefur þegar unnið slíkt tjón að langan tíma tekur að bæta það tjón og Kvennalistinn lýsir fullri ábyrgð á hendur þeim sem fara með samningamál við kennara fyrir hönd ríkisins.

Hæstv. ráðh. minnti á hækkanir sem kennarar hafa fengið umfram aðra og nefndi tölur úr samningaviðræðum. Ég hef ekki forsendur til að meta þær tölur og þær upplýsingar, en tek þeim með fullri varúð. Að öðru leyti finnst mér ekki rétt að tjá mig um þá deilu sem nú stendur yfir, en vona einlæglega að hún leysist sem allra fyrst og hlýt að skora á hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir lausn málsins.

Sömuleiðis hlýt ég að lýsa áhyggjum vegna þess hve erfiðlega hinum ýmsu heilbrigðisstéttum gengur að fá kjör sín bætt. Kvennalistinn hefur frá upphafi lagt áherslu á breytt verðmætamat og tillit til annarra þátta við starfsmat en tíðkast hefur. Umönnunar- og uppeldisþættir hafa verið lágt metnir og það er fyrst og fremst orsök óviðunandi kjara þeirra stétta sem við slík störf fást.

Ég skora á hæstv. ráðherra sem eru yfirmenn þessara málaflokka að hafa áhrif á samningaviðræður og vinna að skjótri lausn þeirra.