18.03.1987
Neðri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4522 í B-deild Alþingistíðinda. (4398)

Afgreiðsla frumvarps um almannatryggingar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að það hefur verið boðaður fundur í heilbr.- og trn. á morgun. Ég sé að formaður nefndarinnar er ekki viðstaddur. Ég veit svo sem ekki fyrir víst hvað hann átti við þegar hann sagði í nótt að það yrði boðaður fundur á morgun, hvort hann átti við að það yrði dagurinn í dag eða dagurinn á morgun. Við vorum komin yfir á annan sólarhring þegar hann sagði þetta. (ÓÞÞ: Það var um eittleytið.) Hann skýrir það sjálfur en alla vega hefur fundur verið boðaður.

Ég vil aðeins til frekari skýringar upplýsa það að þetta mál var ekki afgreitt á síðasta fundi nefndarinnar vegna þess að það var ágreiningur um það og það var ekki eina málið sem náði ekki afgreiðslu á þeim fundi. Það náðu engin önnur mál afgreiðslu þar en þau sem var samkomulag um í nefndinni. Þetta átti við einnig um stjfrv. um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit held ég það heiti. Það fékkst ekki afgreitt úr nefndinni á þeim fundi, hvort það var í gær eða fyrradag.

Auðvitað verður þetta mál rætt á fundi nefndarinnar á morgun. E.t.v. verður það afgreitt þótt með ágreiningi verði. Ef það verður afgreitt úr nefndinni geri ég auðvitað ráð fyrir að það komi á dagskrá á deildarfundi á morgun. En það segir auðvitað ekkert um það hver úrslit málsins verða hér í þinginu.