15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Vissulega ber að fagna því að frv. til lánsfjárlaga skuli hafa verið lagt fram í upphafi þings eins og gera ber lögum samkvæmt. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að skjóta fáeinum vinsamlegum ábendingum til hæstv. fjmrh. um vinnubrögð í sambandi við framlagningu frv., en þær snúa að vinnuaðstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu sambandi.

Fjárlagafrv. er ekki lagt fram fyrr en á mánudegi, þ.e. á öðrum þingdegi, og þetta er 400 bls. plagg. Það er margt á seyði í þinginu á sama tíma, nefndakjör og annar undirbúningur þingstarfa, en fjölmiðlar krefjast svara af stjórnarandstöðu, hvert sé álit hennar og umsögn hennar um þetta frv., og það er ekki beðið eftir þeirri umsögn, hún verður að koma á stundinni. Auðvitað er þetta algerlega óviðunandi aðstaða sem stjórnarandstöðunni er boðin í þessum efnum, en ég er kannske ekki að segja að það sé neitt nýtt. Svona hefur þetta oft áður verið. Það sem var nýtt í þetta sinn var kannske að fjárlagafrv. var ekki lagt fram á fyrsta degi og þar af leiðandi vannst mönnum ekki tími, eins og oft vill vera rétt fyrstu dagana, til að skoða málið, t.d. yfir helgina eins og nú hefði verið. En það sem er þó til að kóróna þann vanda sem stjórnarandstaðan er sett í er að hæstv. fjmrh. skuli heimta 1. umr. um lánsfjárlögin strax á öðrum vinnudegi þingsins. Það hefur aldrei áður gerst og setur okkur talsmenn stjórnarandstöðunnar í talsverðan vanda. Ég var satt að segja svo grandalaus eins og sjálfsagt fleiri að mig grunaði ekki að þetta mundi gerast. Ég frétti ekki af því fyrr en núna um hádegisbilið að til stæði að ræða lánsfjárlögin núna við 1. umr. En dagskrá Alþingis er ekki send heim til okkar nú orðið eins og var gert áður fyrr og því veit maður ekki alveg um dagskrána fyrr en maður kemur hingað niður eftir til að kynna sér hana og það er kannske ekki víst að það sé þá fyrr en um hádegisbilið.

Venjulega hafa lánsfjárlög komið fram síðar en nú. Ég er alls ekki að segja að það hafi verið betra, vissulega er framför að fá frv. fram sem skjótast, en ég bendi hæstv. fjmrh. á það í fullri vinsemd að hann verður að hafa í huga að stjórnarandstaðan stendur þarna frammi fyrir gífurlegum vanda að átta sig á öllum þessum gögnum, fá tíma til að ræða tölurnar við sérfræðinga, bæði í hans eigin ráðuneyti og annars staðar. Því miður hefur ekki nokkur tími gefist til þess. Ég gerði t.d. tilraun í morgun til að afla upplýsinga einmitt um þessi efni, reyndar vegna fjárlaganna, og þá voru starfsmenn í Fjárlaga- og hagsýslustofnun önnum kafnir á fundi hjá fjmrh. þannig að þeir voru ekki til skiptanna og eðlilegar ástæður fyrir því.

Umræðu hér á Alþingi um þessi mál þarf sem sagt að bera að með einhverjum fyrirvara. Ég vek t.d. athygli á því að einmitt af þessari ástæðu hefur 1. umr. um fjárlög yfirleitt ekki farið fram fyrr en 2-3 vikum eftir að þing hefur verið sett og það er orðið nokkuð gamalt hér. Það er ekki boðið upp á 1. umr. fjárlaga á öðrum eða þriðja degi. Og hvers vegna? Það er í og með vegna þess að menn þurfa að fá tækifæri til að lesa þessi gögn í gegn. Það sama gildir þá auðvitað um lánsfjáráætlunina. Ég er ekki að segja að við séum að biðja um margar vikur, en það þarf að vera þarna eitthvert ráðrúm.

En þó að ekki hafi gefist mikill tími til að kynna sér efni þessa frv. er auðvelt að greina að það er heilmikill blekkingarleikur í gangi einmitt í sambandi við þessa lánsfjáráætlun. Við heyrðum það hér áðan í ræðu hæstv. fjmrh. að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar stæra sig af því að staða þjóðarbúsins út á við fari nú batnandi því að löng erlend lán fari lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hann gat þess einmitt hér að á næsta ári væri áformað að þetta hlutfall lækkaði úr 51,1% í 47,7% og sama gildir um greiðslubyrðina, að hún er sögð fara minnkandi úr 19,3% í 18,9% miðað við útflutningstekjur. Auðvitað hlýtur fólk að ímynda sér þegar það heyrir þessar fréttir að nú sé þetta allt á réttri braut og skuldbindingar þjóðarinnar út á við hljóti að fara minnkandi og háskinn af erlendum skuldum þjóðarinnar hljóti að vera dvínandi. En er þetta svo? Því miður sé ég að hæstv. fjmrh. kinkar kolli og trúir þessu sjálfur. En ef hann trúir því veitir víst ekki af að gera ögn betur grein fyrir því að hér er um hina verstu blekkingu að ræða. Staðreyndin er sú að ríkissjóðshallinn hefur aldrei verið meiri og það er hann sem á sinn stóra þátt í því að vandinn fer stöðugt versnandi. En það eru hins vegar hagstæðar ytri aðstæður, sem ekki koma þessum skuldum neitt við á beinan hátt, sem valda því að þessar prósentutölur fara minnkandi. Það er ekki það að skuldirnar fari minnkandi, þær fara vaxandi frekar en hitt, en ytri aðstæðurnar eru mjög hagstæðar. Aflinn fer vaxandi, verðlagið á afurðum okkar er hagstætt og olía hefur mjög lækkað í verði. Allt veldur þetta því að deilitalan í þessu tilviki, þegar um verga landsframleiðslu er að ræða, hækkar mjög verulega milli ára. Það er talið að þjóðartekjur vaxi á þessu ári í kringum 7% og auðvitað veldur þetta því að prósentutalan lækkar. Það er ekki að skuldin sé neitt minni eða eigi að valda neitt minni áhyggjum en áður því að hún fer heldur vaxandi ef eitthvað er heldur er viðmiðunartalan, deilitalan, hagstæðari en áður. Við þetta bætist svo hitt að dollaragengið fer mjög lækkandi og allir þekkja að meiri hluti skulda Íslendinga við önnur lönd er í dollaragengi. Þegar dollarinn fer lækkandi lækkar skuldin og öfugt. En það þýðir ekki að vandinn sé neitt minni í sjálfu sér þó hann sýnist vera það rétt í svipinn vegna þess að við vitum að dollarinn heldur áfram að sveiflast og hann getur allt eins verið á uppleið að fáum mánuðum liðnum og þá er allt glatað í einni svipan sem menn héldu að þeir væru að græða nú. Auðvitað þýðir ekki annað en að taka slíka hluti með í reikninginn. Þó að það sé vissulega gleðiefni þegar staðan út á við fer batnandi verðum við að skoða það fyrst og fremst hvort skuldin sjálf fer verulega lækkandi eða ekki.

Annað sem hefur áhrif á þessa hluti og ég heyrði að hæstv. ráðh. gerir sér fulla grein fyrir eins og fram kom í ræðu hans er að vextir fara lækkandi í svipinn og auðvitað hefur það áhrif á að greiðslubyrðin minnkar. Hann nefndi það einmitt hér að á skömmum tíma eru meðalvextir að lækka úr 9% í 8% og auðvitað hefur það stórfelld áhrif á allar tölur sem reiknaðar eru með þessum hætti og eiga að heita prósentutölur um stöðu skuldar eða stöðu afborgana og vaxta.

En það er ekkert víst að vandinn hafi orðið neitt minni, ekki heldur í þessu tilviki, vegna þess að það er eins með vextina, þeir sveiflast. Stundum fara þeir upp og stundum fara þeir niður og þeir geta allt eins verið á uppleið að fáum mánuðum liðnum, ekki vitum við neitt um það, og þá erum við í alveg sama fari og áður. Vissulega er það ánægjulegt þegar við þurfum að borga minna eins og er þegar vextirnir eru lægri, en við skulum ekki ímynda okkur að háskinn af hinum miklu erlendu skuldum sé orðinn neitt minni en áður. Þetta er önnur hlið málsins.

Hin hlið málsins er sú að áætlunin sem hæstv. ráðh. leggur hér fram er fullkomlega óraunhæf og satt að segja afar óvíst að mikið mark sé á henni takandi. Í fyrsta lagi má benda á að í lánsfjáráætluninni er, þó ég hafi að vísu ekki séð þess beinlínis getið hér, gengið út frá því að það gildi það sama um lánsfjáráætlunina og fjárlögin, að hún er reiknuð á verðlagi í árslok 1986. Hún er ekki færð upp á verðlag næsta árs og það skekkir allar niðurstöðutölur hennar allverulega. Það vantar sem sagt alveg að gera ráð fyrir að einhver verðbólga kunni að vera á næsta ári sem enginn efast um, hversu bjartsýnn sem hann er, að hlýtur að verða einhver. Hér áður fyrr var venjan að reyna að reikna fjárlög og lánsfjáráætlun á áætluðu meðalverðlagi næsta árs. Þó að það hafi að vísu verið allur gangur á með sjálfa lánsfjáráætlunina hvað þetta varðar hefur það yfirleitt verið gert með fjárlögin. Þegar af þessari ástæðu eru tölurnar ekki fullkomlega raunhæfar.

En svo kemur annað inn í myndina og það er lánsfjárþörf ríkissjóðs. Tölurnar í frv. um lánsfjárþörf hans á næsta ári kunna að vera tóm endaleysa og ekkert annað. Það á reynslan eftir að skera úr um. Ef reynslan frá því í fyrra væri höfð til viðmiðunar og orðræður okkar hæstv. fjmrh. frá því í fyrra væru hafðar til hliðsjónar lægi beinast við að ætla að áætlunartölur fjárlaganna um lánsfjárþörf ríkissjóðs væru meira eða minna út í bláinn. Ég minnist þess að fyrir réttu ári leit hæstv. fjmrh. afskaplega alvarlegum augum á mig í ræðustól þegar ég leyfði mér að fullyrða að það mundi vanta svo sem 1 milljarð inn í dæmið hjá honum miðað við þær tölur sem hann var með í fjárlagafrv. á s.l. hausti. En þetta kom einmitt á daginn. Í staðinn fyrir að það átti að vera 122 millj. kr. tekjuafgangur á fjárlagadæminu fyrir árið 1986 reyndist vera halli og hann ekki nein smásmíði. Hann er áætlaður í dag vera kringum 2200 millj. kr. Og ef svo fer, sem margan grunar, að ýmislegt í fjárlagadæminu sé í raun vanreiknað er lánsfjárþörf ríkissjóðs miklu meiri en hér er ráð fyrir gert og þar af leiðandi lánsfjáráætlunin í molum meðan það hefur ekki verið leiðrétt.

Það var yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar þegar hún kom til valda að erlendar skuldir þjóðarinnar skyldu ekki fara vaxandi og reyndar átti það að heita dauðadómur yfir ríkisstjórninni og ákveðnum ráðherrum að hennar eigin sögn ef prósentutalan, sem miðuð er við þjóðarframleiðslu, færi yfir 60%. Hún var rokin langt upp fyrir 60% áður en nokkur vissi af og án þess að ríkisstjórnin léti verða af þessari sjálfsmorðshótun. Hún sat sem fastast áfram og lét sig engu skipta þó að loforð í þessum efnum hefðu verið svikin og síðan var gripin sú ágæta aðferð að finna allt aðrar viðmiðunartölur. Það var tekin upp viðmiðun um svokallaða landsframleiðslu í staðinn fyrir þjóðarframleiðslu og þá hættu menn alveg að botna í þessum prósentutölum og eru löngu hættir að átta sig á því hver staða mála er í samanburði við það loforð sem gefið var í upphafi stjórnarferils.

Reynslan hefur reyndar einnig orðið sú að ýmislegt hefur reynst vanáætlað í lánsfjáráætlun og ég hygg að svo verði enn. T.d. er ég sannfærður um að áætlaðar lántökur einkafyrirtækja muni reynast verulega miklu meiri en hér er ráð fyrir gert.

En ég vil leyfa mér að benda alveg sérstaklega á eina aðferð hæstv. fjmrh. til að fela stórfelldar lántökur ríkissjóðs á erlendum lánamörkuðum sem fólgin er í þessu frv. Í töflu á bls. 324, og auðvitað kemur það víðar fram en ég nefni hana hv. þm. til hægðarauka, er áætlun um erlendar lántökur opinberra aðila. Þar er frá því greint að í lánsfjárlögum fyrir árið 1986 hafi átt að taka 4110 millj. að láni erlendis, en það hafi farið nokkuð á annan veg og horfur á lántökum á þessu ári séu 5700 millj. Það er engin smáræðisaukning. En hver er svo áætlunin fyrir árið 1987? Það eru litlar 2550 millj. Það er meira en helmingslækkun. Ég er hræddur um að það sé ansi varasamt að trúa svona tölum. En ég bendi samt sérstaklega á að í þessari sömu töflu er gert ráð fyrir að lánastofnanir taki verulega miklu meira fé að láni erlendis en áður var og það er engin smáræðis aukning. Það er gert ráð fyrir að lánastofnanir taki 2230 millj. að láni í staðinn fyrir að á þessu ári er gert ráð fyrir að þær hafi tekið 1350 millj. Hvernig í ósköpunum stendur á því að lánastofnanir þurfa að taka að láni hvorki meira né minna en 900 millj. meira en áður var? Það er afskaplega einföld skýring á því. Hún kemur nefnilega fram annars staðar í frv. Nú er lánastofnunum ætlað að kaupa verðbréf af ríkissjóði í stórauknum mæli, af ríkisstofnunum fyrir samtals 2050 millj., þar af beinlínis ríkinu fyrir 1650 og af Framkvæmdasjóði fyrir 400 millj. Ríkið þvingar sem sagt lánastofnanir til að lána sér. Þar með verða erlendar lántökur ríkissjóðs að sama skapi miklu minni og svo eru bankarnir aftur á móti látnir taka þessi erlendu lán í staðinn. Þetta verður ekki kallað neinu öðru nafni en dálagleg svikamylla.

Kjarni þessa máls er sá að halli ríkissjóðs verður mjög verulegur á næsta ári og það verður þriðja árið í röð. Samanlagt verður þá þessi uppsafnaði halli orðinn a.m.k. 6 þús. millj. kr. sem er sannarlega skuggaleg tala ekki síst fyrir þá sem eiga að greiða skatta á komandi árum. Þótt prósentutölurnar í frv. fari eitthvað lækkandi, þ.e. prósentutölur um greiðslubyrði og stöðu erlendra lána miðað við lánsframleiðslu og útflutningsverðmæti, segir það ekki neitt. Ástandið fer bersýnilega versnandi og gerir það áreiðanlega meðan ríkissjóður er rekinn með svo rosafengnum halla sem raun ber vitni.

Ég ætlaði að öðru leyti ekki að ræða þetta frv. hér. Það mætti vissulega fara mörgum orðum um skerðingarákvæði frv., en í raun og veru er þar um að ræða mál sem varðar fyrst og fremst fjárlögin. Því er komið fyrir í lánsfjáráætlun fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum vegna þess að fjárlög eru ekki lög í réttri merkingu þeirra orða og þegar ríkið skerðir lögbundin framlög dugar ekki að gera það bara í fjárlögum heldur verður að gera það með formlegum hætti í lögum. Þess vegna er þessu skotið inn í lánsfjárlagafrv., enda þótt það sé í raun og veru miklu náskyldara fjárlögum í eðli sínu. Þess vegna er eðlilegra, úr því að umræða um fjárlög fer fram innan skamms, að ræða þau mál við afgreiðslu fjárlaga.

En ég verð þó að nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað átt sé við með niðurlagsorðunum í 18. gr. frv. þar sem segir að jafnframt falli niður óuppgerðar markaðar tekjur vegna ársins 1985 til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég sé ekki að það sé nein skýring í grg. með þessu lagaákvæði. Það vantar alveg skýringu. Það væri fróðlegt fyrir menn að átta sig á því hvaða upphæðir eru hér á ferðinni.

Að öðru leyti geymi ég mér að ræða þessi stóru mál þar til 2. umr. fer fram og nánari upplýsingar hafa fengist. En kjarni málsins er sá að þessi lánsfjáráætlun, sem lögð hefur verið fram, er bersýnilega mjög óraunhæft plagg og margar þær niðurstöðutölur sem þar er að finna eru harla villandi og eiga vafalaust eftir að breytast verulega. Ég vil alveg sérstaklega vara menn við því að trúa áróðri forustumanna stjórnarliðsins þess efnis að erlendar skuldir þjóðarinnar fari minnkandi þótt hægt sé að benda á prósentutölur því til sönnunar vegna þess að þessar prósentutölur segja nákvæmlega ekki neitt um stöðu skuldanna þegar þær eru miðaðar við reiknistærðir í þjóðarbúinu sem einmitt hafa verið að taka miklum breytingum á undanförnum misserum, ekki vegna eigin verðleika okkar sjálfra heldur vegna ytri aðstæðna.