19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4549 í B-deild Alþingistíðinda. (4421)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil í lok þessara umræðna þakka hv. þingmönnum þessarar deildar fyrir áhuga þeirra á þessu máli sem nú er að fá lokaafgreiðslu og vilja þeirra til þess að gera það að lögum.

Það er ljóst að fram undan er mikil vinna við að semja reglugerðir sem tengjast þessum væntanlegu lögum og ýmis annar undirbúningur, kynning o.fl. og ég býst við að þó að hv. alþm. væru sáttir við allt sem í lögunum stæði mundu við slíka vinnu koma í ljós ýmis atriði sem þörf væri á að væru á einhvern annan veg en enn þá frekar þegar ekki hefur allt orðið á þann hátt sem menn helst kysu. Ég held að það sé því alveg augljóst að þörf muni verða á einhverjum breytingum á þessum lögum fyrr en síðar eins og hér hefur komið fram og að jafnframt því sem ég mun leggja áherslu á að dómsmrn. hraði samningu reglugerða og þá ábendinga og tillagna um breytingar fylgist hv. alþm. með þeirri vinnu og geti þá komið fram með breytingar við lögin þegar slíkt liggur fyrir og reyndar er, eins og hér hefur komið í ljós, áhugi hjá þeim að gera þegar í upphafi næsta þings um nokkur atriði.

Ég vil undirstrika þörfina sem er á því að þetta frv. nái fram að ganga. Það hefur verið minnst á það að ýmsar breytingar hafi kannske verið of hægar hjá Bifreiðaeftirliti og öðrum sem um þessi mál fjalla en síðustu árin hefur mjög borið á því að beðið væri eftir afgreiðslu þessara laga og þess vegna hefur þar orðið meiri dráttur á en æskilegt hefði verið. En nú vonast ég til þess að unnt verði á sem skemmstum tíma að ná þeim markmiðum sem hin nýju lög setja jafnframt því sem hugað verði að því hvað þar má betur fara.

Ég ítreka þakklæti mitt til hv. þingdeildarmanna fyrir þeirra störf og áhuga.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.