19.03.1987
Sameinað þing: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4583 í B-deild Alþingistíðinda. (4496)

Þinglausnir

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Gefið hefur verið út svofellt forsetabréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Alþingi, 109. löggjafarþing, lýkur störfum í dag, fimmtudaginn 19. mars 1987. Mun ég því slíta Alþingi í dag.

Gjört í Reykjavík 19. mars 1987.

Vigdís Finnbogadóttir.

Steingrímur Hermannsson.“

Samkvæmt þessu bréfi, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að þessu þingi, sem nú hefur lokið störfum, er slitið.

Þau þingslit, sem hér hafa nú farið fram, marka þau tímamót að hér er lokið síðasta þingi fyrir almennar kosningar til Alþingis. Í ávarpi mínu við þingsetningu að loknum alþingiskosningum árið 1983 leiddi ég hugann að hinum mikla áhuga á stjórnmálum sem býr með okkur Íslendingum og ætíð verður svo augljós þegar velja á oddvita fyrir hinar margvíslegustu skoðanir. Vísast er orsökin sú að sakir fámennis lifum við í meira nábýli hvert við annað en víðast á byggðu bóli. Orð og lífsafstaða manna, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða önnur mál sem varða þjóðarheill, berast inn á hvert heimili og hvern vinnustað og eru þar vegin og metin. Verk okkar mannanna með metnað kunna að vera heil eða brotin, en að baki þeim öllum liggur skoðun á mannlegri tilveru eins og hún birtist okkur og tjáning einstaklinga og hópa á þeirri sömu tilveru. Sagan samanstendur fyrst og síðast af slíkri tjáningu manna sem uppi eru í samtíðinni hverju sinni, enda verður sagan aðeins tjáð með þeim skýrustu orðum sem tunga okkar hefur að geyma.

Ég óska þess að á komandi vikum verði engin þau orð látin falla sem nokkur kunni að iðrast er frá líður því það er aðalsmerki lýðræðisins að virða allar skoðanir og ómetanleg forréttindi eru það í viðsjárverðum heimi að mega tjá hvaða skoðun sem er. En hvenær sem upp er staðið verðum við að geta lifað í sátt og samlyndi einmitt til að varðveita hið verðmæta lýðræði.

Ég þakka alþingismönnum öllum ágæt kynni og gott samstarf og óska þeim og fjölskyldum þeirra farsældar og heilla. Farsæld hvers og eins er farsæld okkar allra.

Ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast fósturjarðarinnar, Íslands.

Þingheimur stóð upp og forsrh., Steingrímur Hermannsson, mælti:

„Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.

1