04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

23. mál, nýting heimavistarhúsnæðis í þágu aldraðra

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu máli hér á þingi. Ég held að full þörf sé á því að við veltum fyrir okkur fleiri möguleikum í þeirri brýnu þörf sem nú er á að vista aldrað fólk og líka til að hlúa að öldruðu fólki á sem fjölbreyttastan hátt því að það hentar ekki einum það sem öðrum hentar í þeim efnum frekar en annars staðar í okkar þjóðfélagi.

Mér fannst hv. flm. ekki minnast á þann vanda sem við gætum staðið frammi fyrir þrátt fyrir að við hefðum húsnæði til staðar og jafnvel gamalt fólk sem vildi vera í húsnæðinu. Það er skortur á starfsfólki. Við stöndum frammi fyrir því í dag að starfsfólk í hjúkrunarstörfum segir í stórum stíl upp sínum störfum og það þarf vissulega að huga mjög vel að því að það fáist starfsfólk til að annast það gamla fólk sem færi inn í þetta húsnæði. Því, eins og við vitum, ef gamalt fólk kemur inn á slíkt heimili gefum okkur að upp verði sett slíkt heimili í einhverjum heimavistarskóla - getur það veikst og það verður ekki flutt beint á sjúkrahús þó að það fái flensu þannig að til staðar þarf að vera hjúkrunarfólk sem getur annast fólkið, getur hugsað um það í sínum veikindum.

Og annað er það að þrátt fyrir að við mundum finna hentugt húsnæði þarf það ekki að vera þar í sveit sett sem þörfin væri mest og þar stæðum við frammi fyrir því að þurfa jafnvel að flytja fólk af þéttbýlisstöðum upp til sveita til þess að koma til móts við þá þörf sem er á dvöl fyrir aldraða þannig að það eru mörg vandamál sem maður sér fyrir sér í þessu máli. Engu að síður er brýnt að gerð verði könnun á því hvar og hvort þetta hentar því að það er líka margt aldrað fólki sem vill vera til sveita og þetta húsnæði er hálfnýtt víðast hvar til sveita.

Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni að það er margt fleira hægt að gera eins og í sambandi við þjónustu í heimahúsum. Ég held að við eigum margt óunnið þar í því að þjónusta gamalt fólk sem vill búa heima, hefur þar aðstöðu, en þarf aðeins aðstoð við ýmis þau erfiðu störf sem eru heima fyrir og líka hjúkrun heima fyrir, aðstoð við að fara í bað. Það þykir okkur einfalt mál en það er ekkert einfalt fyrir gamalt fólk. Og líka að athuga hvort það borgi sig ekki fyrir það opinbera að greiða þeim sem hafa gamalt fólk í sínum heimahúsum því að það torveldar útivinnandi fólki - ef það hefur gamalt fólk á sínu framfæri - það er ekki eins frjálst að starfa utan heimilis.

Svo vil ég að lokum aðeins minnast á þá tillögu sem síðasti ræðumaður vék að. Ég sá oft ástæðu til þess á sínum tíma að taka undir þá tillögu og ég vil hvetja hann til þess að endurflytja hana því að ég held að þrátt fyrir að þessi till. sé hér fram borin sé hún ekki til þess fallin að hin ætti að detta niður ómerk því að þarna er um allt aðra þjónustu að ræða. Þarna er um nýtingu vel hýstra bújarða sem yrðu mikið minni heimili. Það yrðu mikið minni einingar og þar mundi safnast saman fólk sem gæti unnið létt bústörf þannig að þarna erum við með allt annars konar tillögu á ferðinni.