05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

94. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Það er rétt, sem hann benti á, að hugsanlegt er að sú tilhögun sem gerð er tillaga um í þessu frv. sé kannske ekki sú heppilegasta. Það mætti efalaust hugsa sér einhverja aðra lausn í þeim efnum. Ég vil líka í tilefni af þessari umræðu taka það fram að með frv. er ég ekki að fella neinn dóm yfir störfum tryggingayfirlæknis út af fyrir sig heldur tel ég að hér sé um að ræða fyrirkomulag núna sem er óheppilegt, mjög erfitt fyrir einn embættismann að sitja uppi með vald af þessu tagi og óeðlilegt miðað við okkar stjórnskipun. Þess vegna er þetta mál flutt.

Ég hef kynnst því eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. að mikill fjöldi fólks, sem hefur fengið úrskurði um sín mál hjá tryggingayfirlækni og Tryggingastofnun ríkisins, hefur talið ástæðu til að kvarta yfir úrskurðunum. Það hefur verið farið rækilega yfir úrskurðina og jafnvel verið felldur læknisfræðilegur dómur í þá átt að niðurstaða tryggingayfirlæknis sé kannske ekki alveg sú rétta, en það hefur verið svo að segja útilokað að fá málið tekið upp aftur fyrr en eftir nokkuð langan tíma. Yfirleitt tekst að fá málið tekið upp aftur eftir dálítinn tíma, en hann er í rauninni of langur miðað við þá neyð sem þetta fólk býr við. Við erum að tala um einstaklinga sem verða að láta sér nægja að lifa af 10-15 þús. kr. á mánuði. Það er yfirgengilegt að við skulum ekki vera með stjórnkerfi sem í rauninni gerir allt sem hægt er til að flýta meðferð mála vegna þessa fólks.

En ég stóð upp sérstaklega til að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir undirtektir hans og jafnframt að endurtaka að ég tel ekki að það þurfi endilega að vera hið kórrétta form á þessu örorkumati sem hér er gerð tillaga um. Það má vafalaust hugsa sér aðra leið. Aðalatriðið er að þingið taki á málinu. Það er ekki vansalaust að menn taki ekki á svona máli. Það er einhver slappleiki í þinginu í meðferð svona mála aftur og aftur. Það verður að segja það eins og það er, eitthvert slen, einhver ræfildómur. Það er skrýtið í máli eins og þessu þegar þess er gætt að hérna er um að ræða lífsspursmál fyrir þúsundir og aftur þúsundir fatlaðra í þessu landi sem eiga í raun og veru enga leið til þess að koma sínum málum á framfæri eða koma þeim fram öðruvísi en þm. taki starfsskyldur sínar hátíðlega, nenni að skilja rökin á bak við þau mál sem hér er verið að flytja. Það er í raun og veru það eitt sem verið er að fara fram á og það er ekki mikil krafa.