15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

18. mál, kosningar til Alþingis

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þegar hv. kosningalaganefnd svokölluð lauk sínum störfum á s.l. vori skilaði hún nál. og brtt. við frv. sem hér hefur verið lagt fram, en í frv. er nú tekið tillit til þeirrar brtt. sem er 26. gr. frv. Það var álit okkar, sem störfuðum í þessari hv. nefnd á síðasta þingi, að með því að afgreiða málið frá nefndinni og leggja til að frv. yrði samþykkt með þeirri brtt., sem flutt var þá á sérstöku þskj., hefði skapast grundvöllur til útgáfu brbl. ef til kosninga hefði verið boðað áður en þing kom saman nú í haust.

Ég leyfi mér að taka undir með hæstv. ráðh. þegar hann leggur til að málið fari aftur til kosningalaganefndar sem er sérstök nefnd kosin af þessari hv. deild. Jafnframt vil ég rifja það upp að þegar nýju kosningalögin voru samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils á grundvelli nál. sem lá fyrir þegar stjórnarskrárbreyting var samþykkt á síðasta kjörtímabili lýstu formenn stjórnmálaflokkanna því yfir að þeir ætluðust til að áfram yrði unnið að þessu máli og reynt að gera á kosningalögunum breytingar, sérstaklega til einföldunar á því kerfi sem nú er í gildandi kosningalögum. Ég tel að það sé eðlilegt að kjósa kosningalaganefnd sem allra fyrst og stefnt verði að því að fyrir áramót verði hægt að afgreiða þetta frv. með breytingum. Ég vek athygli á því, sem ég held að sé ástæða til að leggja sérstaka áherslu á, að þeir sjálfstæðismenn sem skrifuðu undir nál. s.l. vor lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir að breyta gildandi kosningalögum þannig að regla d'Hondts verði notuð við úthlutun þingsæta.

Ég tel við 1. umr. málsins ástæðu til að beina þeim spurningum til fulltrúa annarra flokka en Sjálfstfl. hvort þeir séu tilbúnir til þess að vinna að breytingum á kosningalögum, t.d. á grundvelli þeirra hugmynda sem sjálfstæðismenn hafa lagt til í nefndinni. Eru menn sem sagt tilbúnir til þess að nota reglu d'Hondts við úthlutun þingsæta og losna þannig við „reglu stærstu leifar“ sem svo hefur verið kölluð? Eru menn í alvöru tilbúnir til að setja niður sérfræðinganefnd stjórnmálaflokkanna og reyna að einfalda úthlutunarreglur uppbótarþingsætanna, en eins og a.m.k. hv. þm. ættu að vita fer úthlutun uppbótarþingsætanna fram skv. gildandi lögum í fjórum þrepum og er nokkuð flókið fyrirbæri?

Ég vil fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna lýsa því yfir að við erum tilbúnir að vinna að þessu starfi, láta þá vinnu ganga greiðlega fyrir sig og stefna að því að þessu starfi verði lokið fyrir áramótin þannig að kjósa megi samkvæmt kosningalögum, sem tekið hafa breytingum á þessu þingi, þegar á næsta ári þegar næst verða kosningar til Alþingis.