10.11.1986
Efri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

115. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góða undirtekt og umræðu um þetta frv. Eftir undirtektunum að dæma sýnist mér að það sé meiri hluti í deildinni fyrir að þetta frv. nái fram að ganga í meginatriðum. Ég heyri að hv. formaður félmn. tekur vel undir efni þess þó hann hafi ekki að öllu leyti gert sér grein fyrir því hvernig sumir hlutir skuli framkvæmast út frá öðrum lagagreinum í sveitarstjórnarlögunum. En ég skal útskýra það á eftir. Ég tel þess vegna að það séu miklar líkur fyrir því að þetta mál geti átt fljóta leið í gegnum þingið með stuðningi og rösklegri vinnu hv. félmn. þannig að við getum látið á það reyna hvort Nd. sé ekki svipaðs sinnis þannig að þetta geti orðið að lögum í vetur. (EgJ: Er það ekki bjartsýni?) Það er ekki mikil bjartsýni miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram, hv. þm., nema síður væri.

Hv. 5. landsk. þm. lýsti sig samþykkan því sem hér kemur fram og er jafnvel enn þá ákafari til sameiningarinnar og taldi að það væri nauðsynlegt að til þess að af því gæti orðið að litlu sveitarfélögin sameinist þyrfti meira valdboð en nú er gert ráð fyrir í sveitarstjórnarlögunum. Ég held ekki. Ég held að það séu ákveðnar hættur því samfara að beita meira valdboði en þar er, þ.e. að það sé einhver lágmarkstala um fjölda íbúa í sveitarfélagi, og jafnvel að sú litla tala sem þar er tilnefnd hafi þau áhrif að það komist hreyfing á þessi mál ef stjórnvöld eru tilbúin að ýta eftir þeirri þróun sem við höfum verið að tala um hér. Mitt frv. er flutt til að ítreka að félmrn., stjórnvöld, haldi uppi beinum áróðri eða kynningu um nauðsyn þess að sameina sveitarfélögin og hvernig að því skuli unnið.

Hv. 5. þm. Vesturl., formaður félmn., taldi að þetta frv. stangaðist að einhverju leyti á við 114. gr. sveitarstjórnarlaganna um að ráðuneytið skuli að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, eins og segir í lögunum, setja almennar reglur þess efnis að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti fjárhagslega aðstoð til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Það er alveg tvennt ólíkt sem lagt er til í frv. og það sem um getur nú þegar í lögunum. Eins og hv. þm. getur séð í frv. er beinlínis lagt til að ráðuneytið hlutist til um að fé verði veitt úr ríkissjóði til að styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna um leið og sameining á sér stað. Það sé til reiðu fyrir samstarfsnefnd og þá sem standa að undirbúningi sameiningar. Það sé vitað um að slík fjárhagsleg aðstoð sé fyrir hendi. Í 114. gr. er svo rætt um að það geti viss styrkur átt sér stað í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga næstu fimm árin. Það dregur ekkert úr því að við sameiningu eigi sér stað ákveðin fjárhagsleg fyrirgreiðsla. 114. gr. er jafngild og jafnsjálfsögð þó að þessi liður, sem við leggjum hér til, verði samþykktur. Besta lausnin er fólgin í því að bjóða upp á þann möguleika að sveitarfélögin fái styrk við sameininguna og það sveitarfélag sem stofnað verður upp úr sameiningunni verði ekki mikið verr statt en meðalsveitarfélag í þeim hóp sem sameinast. Það er eins og ég sagði í framsöguræðu minni ekki eðlilegt og ekki trúlegt að rík sveitarfélög sameinist illa stæðu sveitarfélagi nema það liggi fyrir að það sé hægt að styrkja fjárhagslegu stöðuna á þann máta að íbúar betur stæða sveitarfélagsins beri ekki mikinn fjárhagslegan skaða af því.

Ég vænti þess, hv. þm., að ég hafi útskýrt þetta og að þarna stangist ekkert a. Það eru ekki tvær reglur í gildi eins og hv. þm. nefndi. Það verða tvær reglur reyndar. Það má segja að það verða tvær reglur sem eru samvirkar en stangast ekki á.

Hv. 4. þm. Austurl. taldi geta verið nokkuð langt í land að sá árangur næðist að íslensk sveitarfélög yrðu með íbúatöluna 300–500 eins og við segjum í grg. í frv. að sé æskilegt að stefna að með frjálsri sameiningu. Ég held ekki. Ég held að með markvissri umræðu og markvissu upplýsingastreymi ætti það ekki að eiga langt í land. En það gerist ekki ef við höldum uppi umræðu á svipaðan máta og hefur verið í sambandi við svokallað þriðja stjórnsýslustig. Það verður ekki ef það er í gangi umræða eins og sú, þar sem talað er um að stofna öflugt og virkt þriðja stjórnsýslustig, án þess að nokkur af þeim málsvörum sem því halda fram leggi fram nokkurn tímann uppbyggingu á því kerfi. Það er aðseins talað um að það þurfi að koma upp þriðja stjórnsýslustig sem verði öflugt og sterkt. Ég hef ekki enn þá nema frá þeim samtökum sem kalla sig Samtök um jafnrétti milli landshluta — séð neinar tillögur um hvernig skuli byggja upp þetta þriðja stjórnsýslustig. Þær liggja ekki fyrir nema frá þessum einu samtökum. Þær eru á þann veg að það skuli stofnuð stór fylki, t.d. Vesturlandsfylki sem skuli ná yfir Vesturland og Vestfirði. Hafa orðið um það allmiklar umræður að slík fylki verði öflugar stjórnheildir og margt flutt því til ágætis. En það hefur aldrei komið upp í þeirri umræðu hvar ætti að vera t.d. miðstöð þessa góða fylkis, stjórnsýslumiðstöð þess. Hún ætti kannske að vera á Akranesi hjá honum Valdimar hv. 3. þm. Vesturl. Ég sé ekki beinlínis fram á að Ísfirðingar væru sérstaklega fegnir því að þurfa að sækja sína þjónustu að Akranesi. En þá mundu þeir fyrir vestan segja að þetta ætti að vera á Ísafirði. Mér er sem ég sjái að suðurhluti þessa fylkis, þ.e. Vesturland, sæki mikla þjónustu til Ísafjarðar. Þá kemur að því, eins og hv. þm. nefndi, að við förum að velja annaðhvort Búðardal eða Borðeyri og byggjum þar upp miðstöð fyrir Vesturlandsfylki. Vitaskuld er þetta utopía, en meginhlutinn af umræðunni um þriðja stjórnsýslustigið er á svipuðu stigi og þetta. Menn hafa ekki lagt fram neinar markvissar tillögur um hvernig þetta þriðja stjórnsýslustig skuli byggt upp. Við sem höfum verið gagnrýnir á þetta kerfi höfum sagt: Þetta hlýtur að kalla á aukna skriffinnsku. Þeir hafa sagt: Nei, nei, það verður engin skriffinnska. Það gerist af sjálfu sér að aflið og styrkleikinn komi út til landshlutanna.

Um samstarf sveitarfélaga er allt gott að segja og sjálfsagt að halda því í gangi eins og kostur er. En það hefur komið í ljós að því lengur sem slíkt samstarf er, því meira ber á þeim agnúum og vandræðum sem því fylgja. Það er kannske mest áberandi að þá hættir að vera beinlínis fulltrúalýðræði í stjórnum sveitarfélaganna heldur verður þetta meira og minna embættismannastjórn. Ég held að þeir sem mæla mikið með auknu samstarfi á milli sveitarfélaga og að það sé einhver framtíðarlausn, því sjálfsagt er að halda uppi samstarfi, ættu að lesa Morgunblaðið — ég mælist ekki oft til þess að það blað sé lesið — þar sem Tómas Tómasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar í Keflavík, skrifar í sambandi við þessi mál á Suðurnesjum og kynna sér hvaða niðurstöðu hann kemst að um hvernig skuli leysa þeirra innbyrðis samstarfsmál. Það er einmitt að skrefið eigi að stíga til fulls og sameina Suðurnesjabyggð í eitt sveitarfélag. Vandamálin sem koma upp við samstarfið séu svo mörg og illt að gera sér grein fyrir þeim, hvernig þau koma upp í hvert skipti, að það eigi fyrst og fremst að stefna á sameiningu sveitarfélaga á þessu svæði. (Gripið fram í: Hvar á miðstöðin að vera?) Það væri svo sem auðvelt að velja Vogana undir hana.

Ég held að það hafi ekkert verið frekar sem ég þurfi beinlínis að árétta frekar eða nefna. Ég mótmæli því sem hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi að hann teldi að það gæti undir vissum kringumstæðum þurft að beita á sveitarfélögin agni til að þau sameinuðust. Í þessu frv. er ekki nein slík meining. Það er ekki verið að egna fyrir einn eða neinn heldur verið að leggja til að jafna stöðu, styrkja stöðu. Það á enginn að koma betur út úr hlutlausri rannsókn frá hendi ráðuneytisins, mati þess á fjárhagslegri stöðu, sameiginlegri stöðu þessara byggða.

Það hefur verið spurt um hverjar upphæðir gætu hér verið. Þær gætu verið nokkuð miklar ef t.d. ætti að fara að sameina byggðir eins og á Suðurnesjum, ef þar er mikið misræmi á milli. Ég held að það yrði að líta öðruvísi á slíkar stærðir, ef ætti að fara að sameina Ólafsvík og Hellissand eða eitthvað þess háttar, en litlu sveitarfélögin sem við höfum mest verið að tala um. Það verður sjálfsagt erfitt að leysa það að jafna stöðu fjölmennari sveitarfélaganna, ef þau eru að sameinast, en hér er fyrst og fremst verið að tala um að sameina upp í töluna 300-500 og kannske eitthvað þar yfir og þar yrði ekki um stórar upphæðir að ræða. Ætti ekki að vera vandamál, miðað við ágæti þeirra ráðherra sem hafa setið í ríkisstjórnum Íslands og ekki verið mjög fastir á aukafjárveitingar við sérstakar og knýjandi ráðstafanir, að leysa þau mál þó það væri ekki endilega afmörkuð mjög stór upphæð á fjárlögum í hvert skipti til þessara hluta.