15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

18. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er gamalkunnugt viðfangsefni sem við höfum hér til umræðu í dag. Kosningalög hafa verið til meðferðar á undanförnum þingum, fyrst á þinginu vorið 1984. Þá voru gildandi kosningalög samþykkt og þá fylgdi þeim svohljóðandi nál. sem mig langar til að lesa, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur athugað málið á mörgum fundum og haft samráð við ýmsa sérfræðinga. Nefndarmenn ræddu ýmsar breytingar á frv. sem til greina gátu komið. Frv. þetta er byggt á samkomulagi formanna fjögurra stjórnmálaflokka frá síðasta þingi og efnislegum breytingum á frv. varð ekki komið við þar eð samkomulag náðist ekki. Nefndarmenn lýsa því hins vegar yfir fyrir hönd flokka sinna að unnið verði áfram að málinu á milli þinga og niðurstöður verði lagðar fram á næsta haustþingi. Nefndinni vannst heldur ekki tími til þess að ræða til þrautar tilhögun persónukjörs. Það verður með sama hætti rætt á milli þinga.

Með vísan til framanritaðs leggur nefndin til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 222 með tveimur breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj."

Undir þetta rita Páll Pétursson, formaður, framsögumaður, Þorsteinn Pálsson, Kjartan Jóhannsson, Kristín Halldórsdóttir með fyrirvara, Halldór Blöndal, Friðrik Sophusson og Svavar Gestsson.

Það er skemmst af að segja að sú vinna, sem þarna var heitið að innt skyldi af hendi, tókst ekki betur en svo að á næsta haustþingi lágu niðurstöður ekki fyrir og frv. kom fram og varð ekki útrætt á því þingi.

Á 108. löggjafarþingi var málið enn lagt fram og ný nefnd kosin í málið. Hún fjallaði um það og komst að samkomulagi um nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem samræmdu frv. stjórnarskránni og gengu þannig frá frv. að mögulegt er að kjósa eftir kosningalögunum eins og þau yrðu að samþykktum breytingum sem nefndin lagði til. Mig langar til að lesa þetta nál. líka, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. vandlega. Sú skoðun kom fram í nefndinni að æskilegt væri að gera miklu meiri breytingar á lögunum en frv. gerir ráð fyrir. Ekki tókst að ná samstöðu um veigamiklar breytingar. Það er hins vegar vilji nefndarmanna að reynt verði til þrautar fyrir árslok að ná víðtækri samstöðu þingflokkanna um verulegar breytingar á kosningalögum.

Þær breytingar, sem frv. fjallar um, eru flestar tæknilegs eðlis og til þess að sníða ágalla af lögunum þannig að unnt sé að kjósa eftir þeim. Nefndin telur þær breytingar, sem í frv. felast, ýmist nauðsynlegar eða mjög til bóta.

Enn fremur kom í ljós að mjög orkar tvímælis að ákvæði 4. tölul. 12. gr. gildandi kosningalaga samrýmist stjórnarskrá. Þykir því óhjákvæmilegt að breyta honum. Þessar breytingar eru fluttar á sérstöku þskj. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.

Fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni vilja láta þess getið að þeir séu reiðubúnir til þess að breyta gildandi kosningalögum þannig að regla d'Hondts verði notuð við úthlutun þingsæta.“

Undir þetta skrifa Páll Pétursson, formaður, framsögumaður, Friðrik Sophusson, Jón Baldvin Hannibalsson, Halldór Blöndal, Kristín Halldórsdóttir, Geir Gunnarsson og Gunnar G. Schram.

Það er af þessu ljóst að það er mikill vilji hér í þinginu til breytinga og satt að segja viðurkenna flestir alþm. að þau kosningalög sem við búum við og jafnvel þó þeim yrði breytt svo sem hér er lagt til séu hálfgert klúður og breytingar á reiknireglu er m.a. það sem menn velta fyrir sér.

Ég vil ekki úttala mig fyrir hönd míns flokks um reglu d'Hondts. Ég held að hún geti komið til greina og hún er rökrétt. En flokkslega höfum við ekki tekið afstöðu til þess máls og svara ég þannig spurningu hv. 2. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar.

Valfrelsi kjósenda var eitt af því sem ekki var uppfyllt af formannanefndinni sem samdi hið upphaflega kosningalagafrv., þ.e. aukið persónukjör. Ég fyrir mitt leyti er kominn að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast sé að haga því þannig til að kjósandinn númeri á þann lista, sem hann ætlar að kjósa, í kjörklefa. Hins vegar er ekki útrætt í mínum flokki heldur hvernig persónukjöri verði best við komið. En ég held að það sé mjög mikið atriði að kjósandanum sé tryggður meiri réttur til að hafa áhrif á hverjir fulltrúar listans koma til með að sitja á Alþingi en er skv. gildandi kosningalögum.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði áðan um að 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson hefði verið að ýja að því að brjóta upp samkomulag formanna stjórnarflokkanna. Ég get ekki séð að samkomulag formanna stjórnarflokkanna þurfi að standa til eilífðarnóns. Samkomulag formanna stjórnarflokkanna var fullnað með samþykkt kosningalaga, þeirra sem hafa gilt síðan í maí 1984, og það var það sem þeir komu sér saman um. Það frv. var gert að lögum og ég sé ekki að ekki megi breyta þeim lögum eins og öðru ef menn sjá betur eða tími vinnst til þess að vinna málið betur.

Ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að hafa víðtæka samstöðu um þetta viðkvæma mál og það var mjög reynt bæði við samningu formannafrv. og eins í þeim kosningalaganefndum sem síðan hafa starfað. Að vísu varð ekki allsherjarsamstaða því að það var ágreiningur innan sumra flokka um formannafrv. þótt formennirnir væru allir á einu máli, en ég held að það sé mikilvægt að hafa víðtæka samstöðu. En það getur verið óhjákvæmilegt að rjúfa þá samstöðu ef samstaðan er ekki um annað en að gera ekki neitt.

Hv. 3. þm. Reykv. furðaði sig á vinnubrögðum stjórnarskrárnefndar og hann var orðinn óþolinmóður að bíða eftir niðurstöðum hennar. „Ég beið þín lengi, lengi, mín liljan fríð“, stendur í kvæðinu. Til þess að vera ekki að ómaka formann stjórnarskrárnefndar, hæstv. samgrh., vildi ég ráðleggja hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni að spyrja hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds, sem mun einnig vera fulltrúi í téðri stjórnarskrárnefnd, hvað líði störfum nefndarinnar. Ég veit af eigin reynslu að hv. þm. Svavar Gestsson hefur oft beðið eftir Ragnari Arnalds og gæti gjarnan beðið svars hjá honum um tíma og fengið upplýsingar um hvar verki stjórnarskrárnefndar er komið og þarf ekki að víkja því til formannsins sérstaklega.

Reikniregla og persónukjör eru ekki viðfangsefni stjórnarskrárnefndar og því getum við breytt með lagabreytingu hér í Alþingi og ég tel að það komi vel til skoðunar að gera það.

Ég vona hins vegar, og vil láta það verða mín síðustu orð hér í ræðustól að þessu sinni, að víðtæk samstaða náist um þær breytingar sem ég tel nauðsynlegt að gera á þessu frv.