11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

133. mál, Sjóefnavinnslan á Reykjanesi

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Þetta er að snúast upp í furðulegar umræður. Ég sem borgarráðsmaður og þá forseti borgarstjórnar var með málflutning fyrir þetta fyrirtæki til að verja það meðan það var búsett í Reykjavík og áður en Sjóefnavinnslan fór að bjóða sína framleiðslu íslenskum fyrirtækjum. Fyrsta fyrirtækið sem átti kost á því að vera umboðsaðili fyrir Sjóefnavinnsluna á þessu sviði var einmitt kolsýruverksmiðjan Eimir eftir að hún flutti þangað sem hún er núna en samningar náðust ekki. Það var ekki Sjóefnavinnslunni að kenna heldur fyrirtækinu sjálfu sem ekkert vildi hafa með samninga við Sjóefnavinnsluna að gera. Og þar af leiðandi var samið við annað fyrirtæki sem er enn þá eldra og heitir Ísaga og eru þeir umboðsmenn fyrir Sjóefnavinnsluna núna á þessu sviði.

Sjóefnavinnslan er eina rannsóknarverksmiðjan sem okkar þjóðfélag rekur og þar fara fram rannsóknir á mörgum sviðum og tilgangurinn er einmitt að skapa einstaklingum verkefni. Hann er ekki sá að reka fyrirtækin sjálf heldur að skapa einstaklingum verkefni og það er það sem Sjóefnavinnslan er að gera. Það er búið að semja við Ísaga, það er íslenskt fyrirtæki líka. Það er ekki með innflutta kolsýru á þessu sviði.

Síðan er það framleiðsla og dreifing á kísl sem er að fara yfir í sérfyrirtæki þar sem Sjóefnavinnslan verður líklega hluthafi með innlendum og erlendum aðilum og markaðssetur kísl sem útflutningsafurð á heimsmarkaði. Sama má segja um saltið. Saltið er það eina sem ég þekki til, eina saltið sem ég hef fengið upplýsingar um sem er gerlafrítt. Það salt sem hefur verið notað hingað til hefur verið talað um að banna vegna þess hversu mikið magn af gerlum er í því og það er sama hvaðan það kemur. Sjóefnavinnslan er því stórmerkilegt fyrirtæki.

Það er á fleiri sviðum sem Sjóefnavinnslan er með tilraunastarfsemi sem ekki er tímabært að ræða því að það er ekki komið á það stig að hægt sé að sjá fyrir markaðssetningu. Ef íslenska ríkið og íslenska þjóðfélagið ætlar að ganga fram hjá rannsóknarverksmiðjum af þessu tagi og byggja eingöngu á því sem kemur erlendis frá held ég að bæði það fólk sem fyrirspyrjandi ber fyrir brjósti og aðrir eigi í framtíðinni eftir að hða meira en hefur verið gefið í skyn að það líði nú undan því oki sem ríkisstjórnin með Sjóefnavinnslunni setur á þetta eina fyrirtæki sem átti þó sjálft kost á því að verða umboðsaðili fyrir Sjóefnavinnsluna en hafnaði samstarfi.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu en mér þætti vænt um í framtíðinni — ég hef enga ástæðu til þess að segja þetta því að það hefur aldrei komið fyrir áður — að fyrirspyrjendur haldi sig að spurningum og haldi sig að þeim málflutningi sem þær kalla á en komi ekki með nýjar spurningar og ný mál á dagskrá undir þeim dagskrárlið sem þeir nota til fyrirspurnar.