11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Öll íslenska þjóðin hlýtur að fordæma spellvirki af því tagi sem voru unnin aðfaranótt s.l. sunnudags. Við hljótum hér á Alþingi að taka undir kröfu um að allt verði gert til þess að koma lögum yfir þá sem þarna voru að verki og notfærðu sér okkar litla og opna samfélag til þess að vinna óhæfuverk af þessu tagi.

Auðvitað þarf að leita leiða, eins og hér hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. forsrh., til þess að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. En við hljótum auðvitað að gera okkur ljóst að það er ekki auðvelt verk því við viljum sannarlega ekki að land okkar þurfi að breytast í einhvers konar lögregluríki. Samt hljóta menn að taka á þessum málum með þeim hætti sem skylt er til þess að aðilar sem til slíkra óhæfuverka grípa eigi ekki auðveldan leik framvegis. Ég held að það skipti hins vegar verulegu máli að menn haldi ákveðinni rósemi í skoðun þessara mála og grípi ekki til óeðlilega harðra aðgerða nema að vel yfirveguðu ráði, aðgerða sem líklegar eru til þess að hindra til lengri tíma litið spellvirki af hvaða tagi sem er í okkar landi. Auðvitað gildir það jafnt hvort um útlenda menn eða innlenda er að ræða

Þetta mál snertir ekki afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Þar hefur menn nokkuð greint á á liðinni tíð en þar hefur verið framfylgt stefnu sem Alþingi samþykkti hér, meiri hluti Alþingis á sínum tíma, og ég tel enga ástæðu til þess af þessum sökum að endurskoða þá stefnu sem þar var mörkuð.

Herra forseti. Náttúruverndarmenn sem rísa undir nafni vilja fara að lögum og vinna verk sitt lögum samkvæmt og vilja vernda opið samfélag. Ég veit að spellvirki af þessu tagi af mönnum sem telja sig vera að vinna fyrir málstað náttúruverndar hitta aðeins hinn góða málstað þess fólks sem reynir að þoka málum á því sviði í rétta átt. Engir munu fordæma verk af þessu tagi jafneindregið og einlægir náttúruverndarmenn og umhverfissinnar.