11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

Skemmdarverk á eignum Hvals hf.

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég skal reyna að hafa ekki mörg orð um það sem við höfum óttast lengi og blessunarlega sloppið við að mestu leyti en það er að eins konar hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi bærist til landsins. Nú hefur það gerst hverjir sem þarna standa að verki.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er að ég hef heyrt ýmsa hafa uppi getgátur um það hvað við hefðum átt að gera, hvernig við hefðum átt að bregðast við. Við erum, miðað við margar stærri þjóðir, eins konar sakleysingjar, hrekklaus þjóð sem hingað til hefur ekki trúað að atburðir sem slíkir gætu borist hingað til okkar einmitt vegna þess að við erum svo smáir og við erum svo áhrifalitlir á margan hátt á þeim leikvelli hryðjuverka sem annars er í veröldinni. Þess vegna tel ég að opinberir aðilar og þeir sem hafa starfað að þessu máli frá því að það var upplýst hafi starfað mjög vel að þessu máli, hafi komist nokkuð fljótt að niðurstöðu um ástæðuna fyrir því að skip sökkva við bryggju. Og þó svo að þær ástæður séu ekki fullsannaðar er þar líklega skýringin þekkt.

Ég vil því lýsa ánægju minni með árangurinn sem opinberir aðilar hafa náð á skömmum tíma og ég er sáttur við það sem forsrh. segir opinberlega, mjög sáttur við hans þátt og hans framkomu í þessu máli og hvernig hann brást við í umboði dómsmrh.

Ég vil því til viðbótar segja að við erum svo saklausir í okkar aðgerðum að við setjum vakt inn í stjórnarráðshúsið til þess að fyrirbyggja að þangað geti komið óboðinn gestur með því hugarfari að gera forsrh. eða jafnvel þjóðhöfðingja okkar mein en á sama tíma og þessir tveir lykilaðilar í þjóðfélaginu eru vaktaðir inni á skrifstofum sínum ganga þeir, bæði þjóðhöfðinginn og forsætisráðherra, einir út í sína einkabíla og keyra í burtu óverndaðir. Þannig er ekki samræmi í okkar aðgerðum.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, benda á að í fréttum alveg nýlega var getið um þrjár sprengjuaðgerðir á sama sólarhringnum í þeirri borg sem ég þekki kannske hvað best, í París, sem ég hef aldrei nokkurn tímann á ævinni séð eins vel varða af lögreglumönnum og sérþjálfuðum sveitum og nú er. En þrátt fyrir það er öryggið ekki 100%, hvað þá hérna hjá okkur. En, sem sagt, ég lýsi ánægju minni með viðbrögð þeirra sem störfuðu að því að upplýsa þetta mál.