11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

72. mál, Rannsóknastofnun landbúnaðarins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Erindi mitt hingað er að lýsa í fáeinum orðum almennum stuðningi við þá hugmynd sem hér er hreyft við með till. til þál. Ég hef verið talsmaður þess að skoða alla möguleika á að dreifa stofnunum og þjónustu hins opinbera út um landið til þess fólks sem þjónustunnar á að njóta, og einnig að reyna að staðsetja stofnanir í sem flestum byggðarlögum eftir því sem það er hægt og hagkvæmt má telja. Hér er á ferðinni stofnun sem þjónustar landbúnaðinn, þann atvinnuveg sem dreifður er um byggðir landsins og er kannske hvergi minni en akkúrat hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestar stofnanir af þessari tegund eru þó staðsettar, þannig að það liggur vel við að skoða möguleikann á því að færa þessa tilteknu stofnun.

Ég vil þó taka það fram í þessu sambandi, eins og ég hef áður gert, að það eru vissir erfiðleikar því samfara að færa til stofnanir sem eru orðnar rótfastar eða rótgrónar í tilteknum byggðarlögum. Þess vegna hef ég ætíð lagt á það áherslu að sérstaklega beri að skoða möguleikann á þessari færslu eða staðsetningu annars staðar en hér þegar um nýja starfsemi eða nýjar stofnanir er að ræða. En þó er það þannig að slíkar stofnanir eru jafnt og þétt breytingum háðar og það er ekkert því til fyrirstöðu að taka stofnun af þessu tagi til athugunar í þessu sambandi eins og aðrar.

Það er e.t.v. óþarfi og ekki fallega gert að vera að vara við bjartsýni í þessum efnum. En ég hlýt þó að vekja athygli á þeirri afgreiðslu sem tillögur af svipuðu tagi hlutu hér á hv. Alþingi fyrir einu og tveimur árum síðan þegar rætt var um möguleikana á að staðsetja Byggðastofnun, Þróunarstofnunina og fleiri slíkar einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Þá komu í ljós ýmsir annmarkar sem ekki reyndist unnt að yfirstíga eða menn höfðu ekki pólitískan kjark í sér til að yfirstíga þó svo að þar væri að sumu leyti verið að hrinda af stað nýrri starfsemi.

En sem sagt, ég fagna því að hér skuli vera hreyft við máli af þessu tagi og minnt á athyglisverða skýrslu og vinnu sem átti sér stað fyrir um áratug síðan í þessum efnum, þegar verið var að skoða möguleikana almennt á að færa stofnanir og þjónustu hins opinbera út um landið.