11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

83. mál, fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þessa till. flytja ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Guðmundur Bjarnason, Ragnar Arnalds, Kjartan Jóhannsson og Friðrik Sophusson. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra, í samvinnu við einstök ráðuneyti og Samband ísl. sveitarfélaga, að láta gera yfirlit um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Greint verði á milli samskipta er lúta að framkvæmdum annars vegar og rekstri og ýmissi þjónustu hins vegar. Fram komi skuldbindingar og fjárhagsaðstaða hvors aðila fyrir sig miðað við árslok 1985. Greinargerð um þetta efni verði lögð fyrir Alþingi.“

Tillaga sama efnis var flutt á síðasta þingi. Hún náði ekki fram að ganga og þess vegna er þessi till. flutt í raunar sama formi og hin fyrri. Það þarf engum blöðum um það að fletta hversu hagnýtt það er, ekki síst fyrir alþm. og stjórnvöld yfirleitt, að hafa á hendi með hvaða hætti og hvernig fjárhagsstaða ríkisins og sveitarfélaganna er hverju sinni. Og það má raunar furðu gegna að slík vinna skuli ekki hafa verið innt af hendi, að ekki skuli ætíð hafa legið fyrir hverju sinni hver sú fjárhagsstaða hefur verið.

Eins og hv. alþm. hafa vafalaust tekið eftir þá var í haust lögð fram fsp. mjög svipaðs efnis og þessi till. er þar sem spurt var um fjárhagslega stöðu annars vegar ríkisins og hins vegar sveitarfélaganna varðandi hin ýmsu samstarfsverkefni þessara aðila. Grunur minn er sá að ýmislegt, sem hér kemur við sögu, taki alllengri tíma að vinna og af þeim sökum þótti mér eðlilegt að flytja þessa till. til þál. þrátt fyrir það að umrædd fsp. skyldi hafa komið fram hér á hv. Alþingi, enda tekur þáltill. til fleiri þátta, þ.e. reksturs. Það má segja að þessi mál styðji hvort annað.

Herra forseti. Það er ekki ástæða af minni hálfu að hafa um þetta fleiri orð. Það skilja allir menn við hvað er átt með flutningi þessarar till. og ég fæ ekki séð annað en hún og efni hennar og þær niðurstöður og þær upplýsingar sem hún leitar eftir séu kærkomnar af hálfu Alþingis og allra þeirra sem hlut eiga að máli.

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til félmn.