12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

119. mál, umferðarlög

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál er eitt af hinum stóru málum og hefur legið fyrir þinginu núna á þriðja ár og það er meira en tími til kominn að ljúka því. Það er vafalaust að mörg atriði eru umdeilanleg í þessu frv. en ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá hv. fyrri ræðumönnum, að það er mjög mikils virði að fá þetta frv. í gegn og það verður þá hreinlega að greiða atkvæði um þau ágreiningsatriði sem eru. Ég held að það séu ekki hin stóru atriði. Það eru atriði sem er mjög auðvelt að sætta sig við.

Ég vil þó nefna örfá atriði sem ég held að verði að taka til ítarlegrar athugunar. Það er í fyrsta lagi ökuhraði. Það liggur nú þegar fyrir Alþingi tillaga um ökuhraða upp í 90 km á klukkustund þar sem aðstæður leyfa. Ég held að það verði að taka það til íhugunar hvort 80 km hámarkshraði á mjög breiðum og vel merktum vegum sé ekki fulllítið. Ég held að við þurfum ekki einu sinni að fara út fyrir þessa hv. deild til að finna ökumenn sem gjarnan eru yfir þeim hraða, a.m.k. á vissum vegum landsins. Ég heyri að hv. 2. þm. Austurl. kannast við einhverja slíka en við nefnum engin nöfn.

Í öðru lagi vil ég nefna ljósatímann. Ég er eindregið fylgjandi því að það sé skylda að hafa ökuljós allan ársins hring. Ég tel að það sé svo mikið öryggisatriði að það hljóti að vera til hagræðis í allri umferð. Meira að segja er það hvað nauðsynlegast á sólbjörtum sumardögum þegar rykmökkurinn leggst yfir alla umferð og skapar meiri hættu en flest annað í umferð hér á landi. Og sum af hinum hryllilegustu umferðarslysum undanfarinna ára urðu einmitt í rykmekkinum á sólbjörtum hásumardögum.

Varðandi öryggisbelti hefur sem betur fer mikið áunnist í þeim efnum en ég held að við hljótum að íhuga mjög vandlega hvort ekki eigi að taka upp viðurlög við því að öryggisbelti séu ekki notuð við akstur. Það er ákaflega slæmt að hafa í gildi lög sem kannske 40–50% þjóðarinnar fylgja ekki í því trausti að við því séu engin viðurlög og það skipti í raun og veru engu máli. Þetta þurfa ekki að vera stór viðurlög en alla vega að fólk viti og finni að hér er alvara á bak við lagasetninguna.

Varðandi númeramálið hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að hætta því kerfi sem nú er með þessari sífelldu umskráningu, þó að ég hafi eignast númer sem ég er búinn að eiga á þriðja áratug og þykir orðið vænt um og kann vel við mundi ég glaður fórna því fyrir þann sparnað sem af því leiddi að taka upp einfaldara kerfi með föstum númerum á ökutækjum.

Ég veit og hef orðið var við að ökukennarar og Ökukennarafélagið er mjög óánægt með ýmis ákvæði þessa frv. Þeir voru það frá upphafi og telja að miklu strangari reglur eigi að setja um það efni og taka fastar á ökukennslunni yfirleitt. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt og mikils virði fyrir alla umferð í landinu og umferðarmenningu að þegar frá upphafi séu gerðar verulegar kröfur til þeirra sem taka ökupróf og ég er sammála því að hér skuli verða tekinn upp tveggja ára reynslutími í stað eins árs nú. Og ég held að það eigi að loknum þeim tíma ekki einungis að endurnýja skírteinin heldur einnig að láta unglingana, ef um unglinga er að ræða og eldri menn ef um þá er að ræða, fara í próf, að það verði hreinlega könnuð leikni þeirra eftir þennan tveggja ára reynslutíma.

Að öðru leyti hef ég ekki meira um þetta að segja. Mér finnst alveg sjálfsagt að komið sé upp rannsóknarnefnd umferðarslysa og ég held að það verði að bæta mjög skráningu þeirra og alla rannsókn þannig að góð mynd fáist af orsökum umferðarslysa. En það þarf líka að vinna að því að gera vegina betri, hættuminni en þeir eru víða og það hlýtur að vera eitt hið veigamesta í okkar umferðarmenningu að fá vel merkta og örugga vegi, örugg gatnamót, setja upp ljós þar sem það á við og hraðahindranir þar sem þær eiga við í bæjum og þéttbýlisstöðum. Góðir vegir, vel merktir vegir, upplýstir þar sem möguleikar eru á því, munu mjög draga úr hættunni á alvarlegum umferðarslysum, og sömuleiðis almenn notkun öryggisbelta og ljósatími allt árið.

Ég áskil mér að sjálfsögðu sem aðrir þm. rétt til að koma með eða fylgja brtt. en ég vonast til þess að hið háa Alþingi sjái sér fært að samþykkja umferðarlög að þessu sinni.