12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

125. mál, opinber innkaup

Skúli Alexandersson:

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að ekki hafi verið fallið frá þeirri innkaupastefnu ríkisfyrirtækja gagnvart íslenskum iðnaði sem mótaði þær reglur sem núv. ríkisstjórn samþykkti í upphafi árs 1984 þó að frv. sem liggur fyrir virðist benda til annars. Hæstv. fjmrh. skilgreinir málsgrein í 6. gr. sem hljóðar þannig: „Jafnan skal tekið því boði sem hagkvæmast er miðað við verð, vörugæði, afgreiðslu og aðra skilmála.“ Skilgreining hans er á þann veg að með því að útfæra þessa málsgrein væri hægt að tengja hana samþykkt ríkisstjórnarinnar um stefnu ríkisfyrirtækja í sambandi við íslenskan iðnvarning og íslenska vöru. Það gefur því auga leið að ef á að skilja þessa grein á þann veg þarf að gera ansi myndarlega reglugerð um það hvernig á að framkvæma þessi lög, enda er ætlast til þess að ráðherrar setji reglugerð um það hvernig framkvæmd laganna skuli vera. Mér er óskiljanlegt af hverju ekki er tekið skýrar á þessum hlutum í sjálfum lögunum en raun ber vitni. Ég tel að það hefði verið mikið eðlilegra en að það sé síðan á valdi ráðherra að setja um það reglur í reglugerð. Eða þá — eins og kannske mátti skilja — að stjórn stofnunar eigi að ráða því hvernig lögin eru útfærð.

Ég vil taka undir þá tillögu hæstv. iðnrh. að eðlilegra væri að skipuð væri fimm manna stjórn í stað þriggja manna. Og enn þá eðlilegra væri að þessi stjórn væri kjörin beinni pólitískri kosningu, eins og hæstv. iðnrh. sagði, en að hún verði skipuð af fjmrh.

Það eru ýmsir hlutir, eins og hæstv. iðnrh. benti á, sem væri hægt að fjalla um í frumvarpsgreinunum, m.a. upphaf 6. gr. þar sem segir:

„Innkaupastofnun skal viðhafa þá meginreglu að kaupa ekki inn aðrar vörur en þær sem fyrir fram er vitað að ríkisstofnanir þarfnist eða þær hafa pantað hjá stofnuninni.“

Það er sem sagt verið að leggja þarna til, að mér skilst, að það eigi sér ekki stað, eins og iðnrh. skýrði hér frá áðan, að það verði keypt mikið magn af röntgenfilmum og öðru til stofnana og þetta er af því góða. En síðari hluti málsgreinarinnar lokar þó ekki fyrir það að slíkt verði gert vegna þess að það er nóg fyrir hina opinberu stofnun að panta vöruna. Í lok greinarinnar segir: „eða þær hafa pantað hjá stofnuninni“. Þannig að þarna virðist hvað reka sig á annars horn.

Lýsing hæstv. iðnrh. á því hvernig ástatt hafi verið hjá Innkaupastofnun eða hjá opinberum aðilum í sambandi við útboð á byggingum eða öðru því sem boðið var út, að það hafi verið hannað fyrir ákveðna kaupendur, og að í ráðherratíð hans hafi þessum ósið verið aflétt ... (Iðnrh.: Ég vitnaði í útboðslýsingar eins og þær voru hjá Reykjavíkurborg, ég vil koma í veg fyrir það hérna.) Já, ég bið afsökunar á því, ráðherra, ef ég hef misskilið. En mér sýnist að það sé ekki mikið verið að koma í veg fyrir það með þessu frv. í sjálfu sér, að það geti ekki átt sér stað að hönnun sé einmitt útbúin fyrir einhvern ákveðinn aðila til þess að geta boðið í og verið síðan með lægsta tilboð af því að það er erfitt fyrir þann sem hefur ekki þessa ákveðnu stöðluðu vöru í höndunum að bjóða í verk öðruvísi en þá að ganga í gegnum þann aðila sem hefur þá vöru til umráða. Og vitaskuld hefur hann þá vald og aðstöðu til að setja þann prís á vöruna sem kemur honum í hag.

En í sambandi við það sem iðnrh. sagði að ég hefði sagt áðan að ég vildi láta íslenskan iðnað njóta einhverra sérstakra sérréttinda: Ekki annarra sérréttinda en þeirra að hann hafi eðlilegan forgang ef kaupin eru þjóðhagslega hagkvæm og að kaupverð vörunnar sé eðlilegt og að gæði vörunnar séu fullnægjandi og við vissar aðstæður, eins og ráðherra benti á líka, að það sé tekið tillit til ákveðinna þátta eins og t.d. skatta íslenskra fyrirtækja inn í þjóðfélagið eins og mun þegar vera búið að ákveða hjá Reykjavíkurborg. Slíkt er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að slík trygging sé fyrir hendi og að íslenskar iðnaðarvörur njóti þessara þátta þegar um opinber innkaup er að ræða.