12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að taka undir síðustu orð hv. síðasta ræðumanns, en ég ætla ekki að gera það, lofa honum að hafa sitt mat á fjölmiðlum. En ég vil taka undir annað. Ég vil taka undir að það verði reynt að komast að því hvernig þetta sérstaka mál, sem hér er á dagskrá, lak út til ríkisfjölmiðlanna og hvernig þeir koma með trúnaðarmál ríkisstjórnarinnar inn í fjölmiðlatal eins og almennur fréttatími er. Ég skal taka þátt í þeirri vinnu.

En ég harma það, úr því að menn bera þetta mál sérstaklega fyrir brjósti, að það skuli ekki koma inn í þessar umræður, a.m.k. þann tíma sem ég hef verið í þingsalnum, að það hefur verið brotið nákvæmlega eins og jafnvel enn þá verra á einstaklingum sem eru í einangrun og aðeins fáir, einn eða tveir aðilar, hafa aðgang að að tala við og það með löngu millibili. Fjölmiðlarnir hafa fjallað um það opinberlega, sem er þó einkamál, sem gerist í yfirheyrslu manna í einangrun. Ég vil að sú rannsókn verði líka tekin inn í þetta mál.