12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Jón Magnússon:

Herra forseti. Góðir samþingsmenn. Ég þakka hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir að hefja þessa umræðu vegna þess að hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli. Það er slæmt til þess að vita að æðstu trúnaðarmönnum stjórnsýslu á Íslandi skuli ekki verða treyst fyrir trúnaðarskjölum. Það er sérstaklega alvarlegt í kjölfar þeirra staðreynda sem hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til vegna umræðna sem fram fóru í sumar um að ákveðnar trúnaðarupplýsingar, sem að öllum líkindum hafa farið til einstakra ráðherra í ríkisstjórn, láku til fjölmiðla.

Það er enn fremur sérstaklega alvarlegt fyrir aðila sem sitja í einangrun og hæstv. iðnrh. vitnaði til áðan að fjölmiðlar skuli fá, jafnvel daginn eftir að yfirheyrslur eiga sér stað, upplýsingar um hvað er að ske. Ég hélt að hæstv. forsrh. mundi standa upp áðan til að tilkynna þingheimi að hann mundi einskis láta ófreistað til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig og komast að því með hvaða hætti þessar upplýsingar lækju út. Því miður gerði hann það ekki. En það hefði verið eðlilegt.