13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég vil aðeins draga inn í umræðuna um þetta mál einn þátt þessa máls sem ég tel óhjákvæmilegt að ræða lítillega og þar á ég við þátt eftirlitsaðila málsins, þátt bankaeftirlitsins og frammistöðu þess og einnig hvernig með álit og starf bankaeftirlitsins hefur verið farið.

Það er haft, herra forseti, eftir kerlingu fyrir austan, eins og við segjum, að til þess séu slysin að varast þau og mun konan hafa átt við að menn ættu að reyna að læra af mistökunum og varast vítin þar sem þeir vita um þau. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það fyrirkomulag eftirlitsmála í bankakerfinu sem við höfum búið við og stendur til að búa við samkvæmt núgildandi og nýjum seðlabankalögum verði tekið til rækilegrar skoðunar í framhaldi af þessu máli og reynt að læra af mistökunum og girða fyrir að bankaslys, svo ég vitni nú í hæstv. viðskrh., af þessu tagi geti átt sér stað.

Í því sambandi vil ég benda á bls. 80 og áfram í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu um viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Ég vil enn fremur minna á, eins og reyndar er getið í skýrslunni, að hér var lögð fram á Alþingi í fyrra skýrsla um afskipti bankaeftirlitsins af málefnum Útvegsbankans samkvæmt beiðni okkar þm. Alþb. Í þeirri skýrslu eru greinargóðar upplýsingar um öll samskipti bankaeftirlitsins og Útvegsbankans og einnig er sérstakur kafli sem fjallar um samskipti þessara nefndu aðila þar sem Hafskip hf. tengist málinu á einn eða annan hátt. Höfundar þessarar skýrslu komast reyndar að þeirri niðurstöðu á bls. 83 að þegar á heildina sé litið, með leyfi forseta, hafi bankaeftirlitið sýnt bæði skarpskyggni og vandvirkni í þeim athugunum sem það hefur gert og hvað eftir annað varað sterklega við þróun mála í samskiptum Hafskips og Útvegsbankans. Hins vegar gagnrýna þeir bankaeftirlitið fyrir að hafa ekki á tímabilinu frá því í mars 1980 og þar til í júlímánuði 1985, í meira en fimm ár, skoðað stöðu Hafskips við Útvegsbankann.

Ég tek undir með höfundum skýrslunnar hvað það varðar og ég fullyrði að bankaeftirlitið sem slíkt brast ekki skyldu sinni, þeirri skyldu að vara við og vekja athygli á þeim hættum sem hér væru á ferðinni. Um það má deila hvort bankaeftirlitið hefði átt að halda málinu áfram og fylgjast tíðar og betur með stöðu málanna á þessu tímabili sem áður var nefnt, en ég bendi á að á þessu tímabili voru í gangi að segja má stanslausar viðræður, og það kemur fram í þessum gögnum, milli forráðamanna Útvegsbankans og Seðlabankans um stöðu hins fyrrnefnda og þar á meðal stöðu Hafskips sem stórs viðskiptavinar. Þetta kemur fram í skýrslunni. Ég get því ekki álasað bankaeftirlitinu sérstaklega fyrir þess þátt, m.a. vegna þess að þar hafa menn væntanlega vitað að þessar viðræður áttu sér stað nær samfellt á þessu tímabili.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr skýrslu þeirri, sem dreift var á Alþingi í fyrra og var 172. mál Sþ. á þskj. 692, rétt til að nefna dæmi um hversu sterklega bankaeftirlitið tók til orða í skýrslum sínum á árunum 1975–1978 um stöðu Hafskips og þær hættur sem Útvegsbankanum stöfuðu af því. Þannig segir t.d. í skýrslu sem skilað var 31. mars 1975 og byggir á athugun á viðskiptum þessara aðila allt frá árinu 1972, með leyfi forseta:

„Þróun þessara skuldaviðskipta er þannig allt fram á árið 1973 að vægast sagt verður ekki séð að hún hafi á neinn hátt verið í samræmi við hagsmuni bankans.“

Ég get ekki, herra forseti, séð að öllu sterklegar verði tekið til orða en að fullyrða að öll þessi viðskipti hafi engan veginn verið í samræmi við hagsmuni bankans. Og enn segir:

„Á hinn bóginn er bankinn nú kominn í ískyggilega miklar ábyrgðir fyrir fyrirtækið. En þær eru á erlendum lánum og við síðustu gengisfellingu fóru heildarskuldbindingar við bankann upp fyrir fram lagðar tryggingar eins og fram kemur hér á undan. Hér er því enn um mjög erfið viðskipti að ræða fyrir bankann og óséð hvort honum tekst að sigla þar fyrir öll sker.“

Þegar á árinu 1975 bendir bankaeftirlitið á að skuldirnar fara upp fyrir settar tryggingar og varar sem sagt, eins og ég hef áður rakið, mjög sterklega við því að þetta sé ekki í samræmi við hagsmuni bankans.

Síðan er á árinu 1977 skilað skýrslu um viðskipti þessara aðila. Hún kemur fram í nóvember 1977. Þar er einnig mjög sterklega tekið til orða og bankaeftirlitið tekur fram að þróun þessara viðskipta frá árinu 1975 hafi komið því mjög á óvart eftir fyrri viðvaranir. Og það er sagt:

„Ekki verður annað sagt en þær staðreyndir, sem nú blasa við um þróun viðskiptanna við Hafskip hf. s.l. 2–3 ár og stöðu þeirra mála í dag, hafi komið bankaeftirlitinu á óvart. Með tilliti til fyrri reynslu bankans af þessum viðskiptum og með hliðsjón af mjög erfiðri fjárhagsstöðu bankans sjálfs mátti ætla að ýtrasta aðhald og aðgát yrði sýnd í þessu máli.“

Og enn fremur segir í þessari skýrslu frá árinu 1977:

„Hvernig sem á þetta mál er litið er ljóst að staða Útvegsbankans er orðin stórlega viðsjárverð. Komi til gjaldþrots hjá fyrirtækinu“, þ.e. Hafskipi hf., „gæti bankinn á skömmum tíma þurft að leysa til sín kröfu upp á hundruð milljóna kr.“

Síðan er reyndar tekið fram að heildarskuldir fyrirtækisins eru þá þegar komnar upp fyrir eigið fé bankans þannig að þá má öllum ljóst vera hvílík hætta er á ferðum fyrir bankann ef þessi viðskiptavinur hans rúllar.

Ég gæti vitnað áfram í skýrslu sem kemur fram á árinu 1978 og í afskipti bankaeftirlitsins á árunum 1978–1980. Það er allt á einn veg, herra forseti, og þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Bankaeftirlitið varar mjög sterklega við þessari þróun og bendir yfirvöldum sínum á að þessi viðskipti séu stóralvarleg fyrir hagsmuni bankans.

Það má velta því fyrir sér hvernig frammistaða þeirra var sem tóku við ábendingum bankaeftirlits, þ.e. í flestum tilfellum bankastjórn Seðlabankans. Hvernig var þeirra frammistaða í því að vekja athygli á þessum viðvörunum og gera eitthvað í málunum? Mér sýnist fljótt á litið að einungis einu sinni hafi viðskrh. á öllu þessu tímabili í raun haft bein afskipti af þessum málum, þ.e. á árinu 1979. Þá verður einnig að spyrja: Hvað var hæstv. viðskrh. eða ráðherrar áranna 1980–1985 að gera? Það var vitað að yfir stóðu allan þennan tíma viðræður yfirmanna Seðlabankans við Útvegsbankann um alvarlega stöðu hins síðastnefnda. En ekki verður séð að viðskrh. á þessum tímum hafi beitt sér í þessu efni.

Þess vegna vek ég sérstaklega athygli á þessu, herra forseti, að ég tel og fullyrði að bankaeftirlitið sem slíkt hafi staðið í stykkinu í öllum meginatriðum, en það sem hafi brugðist sé stjórnskipuleg staða bankaeftirlitsins sjálfs til að hafa áhrif á framgang mála, til að koma skoðunum sínum á framfæri og fylgja þeim eftir. Ég verð að segja alveg eins og er að í ljósi þessa máls og þess lærdóms sem af því verður að draga finnst mér niðurstaðan í nýju seðlabankalögunum algerlega óviðunandi. Og ég spyr hæstv. viðskrh., eigi hann eftir að taka hér til máls: Hefur ekki læðst að hæstv. ráðh. grunur um að þetta fyrirkomulag, sem við höfum búið við og virðumst eiga að búa við áfram skv. nýjum lögum, sé gallað, að m.a. þess vegna hafi þessir hlutir getað gengið svona langt í heilan áratug þrátt fyrir að öllum var ljós þessi hætta eða átti að vera hún ljós, vegna þess að eftirlitsaðilinn, í þessu tilfelli bankaeftirlitið, hafði staðið í stykkinu og komið sínum ábendingum á framfæri?

Að lokum, herra forseti, vil ég minna á að við hv. fjórir þm. Alþb. höfum flutt frv. til l. á þessu þingi, reyndar endurflutt frá síðasta ári, um sjálfstæða stofnun sem heiti Bankaeftirlit ríkisins. Þar er í öllum meginatriðum tekið mið af því fyrirkomulagi sem er í okkar nágrannalöndum. Það er nánast undantekningarlaust þannig í nálægum löndum að bankaeftirlitin eru sjálfstæðar óháðar stofnanir og yfirleitt öflugar stofnanir sem hafa víðtækar heimildir til að fylgjast með í bankakerfinu og grípa til aðgerða ef málin fara þar úr böndunum. Ég get ekki skilið að það sé í raun og veru eðlilegt samkvæmt þeim aðskilnaði verkefna sem yfirleitt er reynt að viðhafa í opinberu stjórnkerfi að bankaeftirlitið skuli vera deild og undirsáti í einni bankastofnun. Það er með öllu óeðlilegt. Rétt eins og Ríkisendurskoðun gæti t.d. bara verið deild eða undirsáti í einhverju ríkisfyrirtækinu. Dettur mönnum yfirleitt í hug að slíkt fyrirkomulag gæti gengið? Ég held ekki. Nú hefur einmitt verið með nýjum lögum gerð skipulagsbreyting sem við gætum að mínu viti látið vísa veginn í þessum efnum, þar sem er hin nýja staða Ríkisendurskoðunar samkvæmt nýlega samþykktum lögum. Ég vil t.d. vitna í 3. gr. í þessu frv. og mun ég nú fara að stytta mál mitt þar sem segir:

„Bankaeftirlitið skal fylgjast með að útlán og greiðslutryggingar viðskiptaaðila séu í samræmi við fjárhagslegan styrk innlánsstofnunar og eigið fé viðskiptaaðila. Það skal einnig fylgjast með heildarskuldbindingum viðskiptaaðila sem eru svo fjárhagslega tengdir öðrum viðskiptaaðilum að nauðsynlegt er talið að líta á þær í heild.“

Það þarf að vera til stofnun sem hefur þetta verkefni og sem hefur stöðu í stjórnkerfinu til að koma á framfæri ábendingum og grípa til aðgerða fari þessi mál úr böndunum.

Ég ítreka að ég tel að lærdómar af þessu máli, verði þeir einhverjir dregnir, og vonandi hefst þá eitthvað upp úr því af því taginu að menn verði einhverri reynslu ríkari, hljóti m.a. að verða þeir að menn taki til endurskoðunar stöðu bankaeftirlitsmála á Íslandi. Og ég ítreka þá spurningu mína til hæstv. viðskrh. hvort ekki hafi að honum læðst efasemdir um það fyrirkomulag sem var við lýði á þeim tíma sem þetta bankaslys, eins og hann hefur orðað það, átti sér stað og er enn samkvæmt gildandi lögum.