13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég segja honum að ég hef gegnt embætti viðskrh. í rúmt ár og það hafa ekki liðið margir dagar á milli afskipta minna af bankamálum þennan tíma. Þeir verða ekki taldir í mánuðum eða árum. Það hafa verið eiginlega flestir dagar sem hefur komið til mikilla afskipta af bankamálum í landinu. Ég hygg að aldrei hafi það verið oftar en núna.

Það er að sumu leyti nokkur lærdómur að hlusta hér á umræður manna og hvernig talað er um banka og bankastarfsemi. Við höfðum bankalöggjöf til skamms tíma sem voru lög um ákveðnar bankastofnanir og tilgang þeirra. En lögin sem núna eru gildandi tóku gildi 1. janúar 1986 um alla viðskiptabanka, bæði ríkisviðskiptabanka og hlutafélagabanka. Þau hafa sem sagt ekki verið í gildi í heilt ár enn þá. En á meðan allt þetta gekk yfir og allt þetta kom fyrir voru í gildi lög um Útvegsbankann þar sem segir: „Hlutverk Útvegsbanka Íslands er að reka hvers konar bankaviðskipti, styðja sjávarútveg, iðnað og verslun landsmanna og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra er stunda þessar atvinnugreinar.“ Það eru greinileg fyrirmæli um að styðja við atvinnureksturinn í landinu. Sama var að segja um Landsbankann. Þar segir: „Hlutverk Landsbankans er að reka hvers konar bankaviðskipti og stuðla að vexti og viðgangi atvinnuvega landsmanna.“

Hver hefur gefið bönkunum þessi fyrirmæli? Alþingi Íslendinga hefur gefið bönkunum þessi fyrirmæli og eftir þessum fyrirmælum hafa stjórnendur bankanna orðið að fara hvort sem þeir hafa viljað eða viljað ekki, hvort sem þeir hafa verið í bankaráðum eða eru bankastjórar sem vitaskuld hvílir á allur daglegur rekstur. Halda menn svo að hjá því hafi farið að stofnanir sem slíkar hafi á liðnum árum oft þurft að taka áhættu hvað eftir annað? Á svo alltaf að klifa á því að áhættan, sem þessar stofnanir hafa orðið að taka, hafi orðið til vegna einhvers kunningsskapar, vegna þrýstings frá stórhættulegum stjórnmálamönnum og þingmönnum? Það er litið af þingmönnum sjálfum á aðra þingmenn eins og þeir séu óalandi og óferjandi. Ég hugsa að það sé hvergi talað í öðrum hópi jafnsvívirðilega hver til annars og á hinu háa Alþingi. Ég vil ekki halda því fram að þeir menn sem þjóðin velur til setu á Alþingi séu ótíndir dónar eða eitthvað enn verra. Ég hef á þeim tíma sem ég hef verið á Alþingi verið með ágætu fólki, að vísu misjafnlega góðu eins og gerist og gengur, en yfirleitt hefur þetta verið fólk sem hefur átt trausti og vinsældum að mæta á öllum þessum tíma. Ég sat í fjárveitinganefnd í tólf ár. Það var töluverður skóli fyrir mann. Við urðum þar, menn úr hinum mismunandi stjórnmálaflokkum, miklir vinir. Við rifumst um fjárveitingar og annað og auðvitað verður alltaf kjördæmapot á milli manna og þess háttar. En í bankamálum hef ég aldrei leyft mér að fara fram á það við bankastjóra að hann geri hluti sem eru andstæðir hagsmunum bankans og hagsmunum stjórnvalds.

Ég bið menn að gæta þess í orðum sínum að það hefur verið unnið gífurlegt starf í bankamálum. Setning laganna um viðskiptabanka, sem tóku gildi 1. janúar s.l., er gjörbreyting frá fyrri stefnu. Það eru allt aðrar skyldur lagðar á bankana með þeim.

Þar er farið inn á að treysta innviði bankanna með stofnun tryggingarsjóðs o.fl. Þetta er rétt að byrja. Það stóð ekkert á reglugerðinni. Hún átti að vera til mánuði seinna eftir lögunum.

Hins vegar er aftur mjög slæmt að lögin um Seðlabanka tóku gildi 1. nóvember. Það átti samkvæmt þeim að kjósa bankaráð fyrir Seðlabankann. Forseti sameinaðs þings tók þetta á dagskrá á tilskildum tíma, en það hefur ekki verið kosið enn þá vegna þess að ákveðnir flokkar biðja um frest á því. Það er ekkert bankaráð í Seðlabankanum svo menn geta sparað sér að skamma það. (Gripið fram í: Hverjir báðu um frest?) Ekki ég. Ég hef ekki beðið um frest.

Ég vil líka minna menn á að það hafa orðið áföll í íslensku efnahagslífi og peningamálum fleiri en þetta þó ég sé á engan hátt að gera minna úr þessu máli, sem ég hef ekki gert, hvorki fyrr í dag í ræðu minni eða áður, en það er eiginlega aldrei minnst á það. Hvað er Fiskveiðasjóður búinn að tapa miklu að undanförnu á tiltölulega fáum skipum? Af hverju tapaði hann? Hverju hefur Byggðasjóður tapað líka? Fiskveiðasjóður tekur fyrsta veð í skipum. Efnahagsstefnan sem hér var ríkjandi þegar íslenska krónan féll gagnvart dollar yfir 100% t.d. á einu ári gerði það að verkum að eigið fé þessara útgerða brann upp á tiltölulega örfáum vikum, jafnvel á einum mánuði. Síðan fór að brenna upp fé það sem Byggðasjóður lánaði og síðan hluti af fjármagni Fiskveiðasjóðs. Áttum við ekki að reka þá alla hjá Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði og bankanum? Ástæðan var fyrst og fremst sú að gengið féll svona heiftarlega. (ÓÞÞ: Þið lögðuð Byggðasjóð niður.)

Mörg gjaldþrot eiga sér stað í okkar landi, því miður, allt of mörg gjaldþrot. Sennilega verða mörg gjaldþrot til fyrir óraunsæi manna. Sum verða líka til fyrir óviðráðanlega erfiðleika þó allir séu á eitt sáttir um að berjast harðri baráttu og sé ekki hægt að kenna mönnum persónulega um. Það er stórt gjaldþrot t.d. í Kaupfélagi Svalbarðseyrar. Við skulum ekkert dæma það. Það kemur á sínum tíma. Gjaldþrot eru hjá prjónastofum og hér í Reykjavík eru tugir gjaldþrota alltaf í meðferð með mismunandi móti. Stundum eru þetta óviðráðanlegir hlutir. Oft er líka um óheiðarleika að ræða. Við eigum bara ekki að dæma fyrir fram. Það er þetta dómsvald sem ákveðnir menn og ákveðnir stofnanir eru farin að taka í sínar hendur, þetta að reka og reka. Ég sá í Morgunblaðinu í dag viðtal við presta út af Hjálparstofnun kirkjunnar. Þeir telja að það eigi að hengja þá þarna í Hjálparstofnun. En þeir koma á hverjum sunnudegi og messa yfir manni að maður eigi að innræta sér kristilegan kærleika og fyrirgefa öðrum syndir og það sem þeir gera rangt gagnvart manni. En mildin nær ekki lengra. Og hver er sökin? Jú, þeir munu hafa tvöföld prestlaun þessir skarfar þarna hjá Hjálparstofnun kirkjunnar. Ha. Ætli það megi ekki halda áfram í þessum dúr? Endilega. Þetta er alveg stórkostlegt.

Við skulum taka sem dæmi Flugleiðir fyrir örfáum árum, þegar Flugleiðir urðu fyrir stórfelldu áfalli. Af hverju? Var það vegna þess að það væru vondir menn sem stjórnuðu þeim? Nei, það varð of mikið framboð á flugleiðum. Það var vitfirringslegt kapphlaup um farþegana yfir Atlantshafið sem gerði það að verkum að rekstrargrundvöllur félagsins hrundi. Átti þá ekki að segja: Gerum Flugleiðir upp, gerum Flugleiðir gjaldþrota á stundinni. Hvar stæðum við í dag? Við ættum engar Flugleiðir og ættum ekkert flugfélag. Við þyrftum að fljúga með erlendum flugfélögum, þ.e. ef þau teldu það þess virði að koma við á þessu skeri.

Það verður stundum að líta á hlutina frá fleiri en einni hlið. Nú hafa Flugleiðir rétt sig við. Þær þrefölduðu hlutabréfaeignina á s.l. ári og vonandi heldur útgáfa jöfnunarhlutabréfa áfram eftir fleiri ára hlé þar sem enginn arður var greiddur og hlutabréfin voru hátt á annan áratug óbreytt að krónutölu í þeirri verðbólgu sem þá var hér. Eigum við ekki að hafa þetta líka með í myndinni? Þurfum við ekki að staldra aðeins við?

Ég held að ég komist ekki hjá að ræða örfá atriði, sérstaklega í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann er fundvís maður. Hann staldraði við á bls. 44 á skýrslunni. Þar segir:

„2. Forsvarsmenn fyrirtækisins eru duglegir og hæfir stjórnendur sem hafa sterkt afl á bak við sig.“ Hann fann það út að sterka aflið á bak við þá væri Sjálfstfl. sem öllu réði í Peninga- og bankamálum. Nú spyr ég hv. alþm.: Í hvaða banka á Sjálfstfl. meiri hluta, í hvaða ríkisbanka? Hann á hvergi meira en tvo menn í bankaráðum af fimm. Það finnst hvergi nema einn maður í bankastjórn sem telst til Sjálfstfl. Og það þarf alltaf tvo, skal ég segja mönnum, til að skuldbinda tvo bankastjóra til að skuldbinda banka. Þetta veit ég að hv. 3. þm. Reykv. veit vel. En hann þurfti að bregða svolítið á leik.

En ég gæti líka brugðið á leik og túlkað þessi orð „sem hafa sterkt afl á bak við sig“. Þetta er skrifað 1. apríl 1981. Það skyldi þó aldrei vera að sterka aflið á bak við forsvarsmenn fyrirtækisins hafi verið ríkisstjórnin sem þá sat? Þar átti 3. þm. Reykv. sæti. (Gripið fram í: Hvaða ráðherradómur?) Hann var heilbr.- og trmrh. Það er mikilvægt atriði í þessu.

Hæstv. iðnrh. hefur marglýst því yfir að hann fór í bankaráð af því að þeir gengu á eftir honum, sérstaklega hv. 3. þm. Reykv. og hv. fyrrverandi þm. sem verður í 2. sæti á lista Alþb. í Reykjaneskjördæmi í næstu kosningum, að fá hann til að verða formann bankaráðs. Þetta hefur hæstv. iðnrh. marg- margoft sagt mér. En það hafa engir hræsnað meira í þessum ræðum en væntanlegur annar maður á lista Alþb. í Reykjaneskjördæmi og hv. 3. þm. Reykv.

Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir að hann tók undir þá hugmynd að það væri sjálfsagt og eðlilegt að stofna sterkan einkabanka. Ég er ekki að segja að ríkisbankar séu ómögulegir. Ég held að þróunin í heiminum sé sú að það er ekkert endilega sjálfsagt að eitthvað annað en þetta kerfi eigi að vera alls ráðandi. Hér eru einkabankarnir svo litlir þegar á heildina er litið að þeir þyrftu að styrkjast. Þeir eru líka allt of margir, þyrftu að vera færri. Þeir eru fjórir og eru of litlir. Þetta eru of litlar einingar sem við erum að tala um. Ekki er í raun og veru verið að deila um hvort það eigi að vera ríkisbankar eða einkabankar. Það er fyrst og fremst verið að deila um að þessar einingar séu of litlar og þurfi að stækka þær. Ég er ekki að halda neinu ákveðnu fram, en ég held að það sé bráðnauðsynlegt að við eignumst tiltölulega sterkan einkabanka.

Ég ætla, út af því sem hv. 3. þm. Reykv. og fleiri sögðu, að minna á að ég gaf til kynna í fyrri ræðu minni í dag að það væru tiltekin atriði sem væri nauðsynlegt að endurskoða nánar og ég teldi rétt að hafa samvinnu um við þingflokka almennt, ekki við stjórnarliðið eitt. Ég held að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi ekki hlustað vel á ræðu mína í dag því inn á þessi atriði kom ég öll.

Í sambandi við bankaeftirlitið, að gera bankaeftirlitið að sjálfstæðri stofnun. Ég held að það sé ekki það sem við þurfum, að bæta við fleiri stofnunum. Með seðlabankalögunum, sem tóku gildi 1. þ.m., er bankaeftirlitið gert mun sjálfstæðara en áður var. Það er gert ráð fyrir samstarfsnefnd í þeim lögum þar sem forstjóri bankaeftirlitsins á sæti, annar er skipaður af viðskrh., ég held að það séu engar deilur um það, og þriðji er skipaður af bankastjórn Seðlabankans, en með kaflanum um bankaeftirlitið fær bankaráð Seðlabankans meiri áhrif en var í eldri lögum. Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum einhverja reynslu áður en við hlaupum til að gjörbreyta því sem við vorum að ganga frá. Það er t.d. mjög mikill misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. þegar hann setti fram tiltekinn fjölda atriða í lok síns máls og sagðist vilja fá breytingu á. Ein breytingin er á ráðningu bankastjóra, ekki eingöngu í lögunum um viðskiptabanka heldur einnig í lögunum um Seðlabanka, að bankastjórar eru skipaðir hér eftir til sex ára. Það er eins og menn muni ekki stundinni lengur hvað er komið í lög og hvað ekki.

Eins og ég hef áður sagt er það sem skiptir mestu máli það að búið er að gera verulegar breytingar um aukið aðhald í bankastarfseminni. En ég hygg að við verðum mörg að vera eilítið mildari í dómum við þá menn sem eiga að starfa að þessum málum. Það mun aldrei finnast maður í þessi störf sem ekki verður hægt að setja eitthvað út á. Þegar við gerum auknar kröfur til bankaráða getum við ekki í sömu andránni neitað því að þeir eigi að hafa laun og það sé litið á bankaráðin eins og hverja aðra bitlinga sem menn vinni ekki fyrir. Ef það á að leggja mikil störf á menn og ábyrgð verða Alþingi og stjórnvöld að meta og vega að það þarf að greiða fyrir þau störf með sæmilegum hætti. Ég er ekki að tala um nein ofsalaun, en þannig laun að menn sem fara í svona störf, sem eru til skamms tíma í einu og það er lögð á þá mikil ábyrgð, fái greiðslu fyrir þá ábyrgð.

Ég hef kynnst allmörgum bankastjórum, bæði á síðasta ári og löngum áður, og yfirleitt verð ég að segja að við höfum, Íslendingar, verið að verulegu leyti lánsamir með marga af okkar stjórnendum í bönkum. Þetta hafa verið miklir hæfileikamenn og harðduglegir menn. Hins vegar geta alltaf átt sér stað undantekningar frá því og þá er sjálfsagt, ef það eru ekki menn sem eru hæfir til starfa, að þeir fari.

En að síðustu þetta: Við skulum ekki dæma menn fyrir fram, hvorki sýkna né seka. Þeir verða að bíða eftir því að fá eðlilega umfjöllun dómstóla ef það er talið að þeir hafi ekki staðið við sínar skyldur og ábyrgð. Þá verðum við að hafa biðlund eftir dómstólum en rasa ekki um ráð fram í gagnrýni okkar og dómum.