17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

125. mál, opinber innkaup

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta skal ekki verða langt því að þegar ég las þetta frv. yfir sýndist mér það satt að segja um margt til bóta og sýnist enn að þær greinar sem þar eru ótvíræðar kveði í raun og veru allar á nokkuð ótvírætt um eflingu þessarar stofnunar sem ég tel að sé nauðsynleg. Þessi stofnun hefur virkilega haft á sér gott orð varðandi þennan þátt. Hitt er svo annað mál að við höfum oft deilt hér á Alþingi um annan þátt, þ.e. um framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar og hvernig hún hefur verið. Út í það ætla ég ekki að fara hér, enda í raun og veru annað mál. Ég minnist þess m.a. að hv. núverandi flokksbróðir þeirra hv. 5. landsk. þm. og 6. landsk. þm., hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson, lagði það til í hitteðfyrra að Innkaupastofnunin, sú deild hennar sem héti framkvæmdadeild, væri hreinlega lögð niður og sagði ýmislegt þá um það mál sem ég ætla ekki að fara að rekja hér.

Hitt er svo annað mál að eftir ræðu hv. 6. landsk. þm. stingur maður nokkuð við fótum varðandi fylgi við þetta frv. sé það rétt að menn ætli að lesa það svipað og ákveðinn höfðingi les ákveðið rit og framkvæma svo eftir því. Ég bendi hins vegar á að það er ekkert í þessu frv., og ég vildi þá fá skýr svör við því hjá hæstv. ráðherrum, sem mér sýnist réttlæta reglugerðarsetningu af því tagi sem vitnað var í hér áðan. Og það er auðvitað útilokað að setja inn í reglugerð eitthvað sem ekki á sér beina stoð í lagagreininni sjálfri. Þar af leiðandi skil ég þetta hreinlega ekki, nema hið sanna innræti komi í ljós í reglugerðinni sem er vandlega falið í lagafrv. sjálfu, því að það vita auðvitað allir þm. að það er útilokað að setja reglugerð sem stangast á í einhverri grein við þau lög sem samþykkt hafa verið. Þess vegna verð ég að líta svo á að þau drög sem þarna eru og hefur verið minnst á og lesið upp úr muni hreinlega aldrei geta staðist. (EgJ: Er það ekki reglugerð við önnur lög?) Nei, ekki eftir því sem hv. þm. las upp. Við höfum ekki séð þessa reglugerð. Það sem hv. þm. las upp stangast hins vegar rækilega á við frvgr. Það stenst hreinlega ekki að setja reglugerð af því tagi.

Það væri þá kannske í framhaldi af því spurning til hæstv. fjmrh. hvort hann teldi í raun og veru mögulegt að setja inn í reglugerð ákvæði af því tagi sem hv. 6. landsk. þm. las upp miðað við að þetta frv. fari óbreytt í gegnum þingið. Ég tel það ekki. Ég tel engan grundvöll fyrir því eins og frv. liggur hér fyrir. Ég tek hins vegar undir að það er vissulega ástæða til þess fyrir okkur að huga miklu betur að reglugerðarþættinum hér á Alþingi en við höfum gert. Það hef ég oft sagt í ræðustól og tek undir það með hv. 11. þm. Reykv. Hitt verður svo að játast a okkur alþm. að þegar við höfum í nefndum verið að fjalla um ýmis viðkvæm mál, vafaatriði, túlkunaratriði og annað því um líkt hefur okkur sjálfum hætt til þess að segja: Nánari ákvæði skulu sett í reglugerð. Kannske er það það allra hæpnasta sem við höfum verið að gera á undanförnum árum að taka ýmis atriði, sem eiga að vera klár og skýr í lögum, til að leysa kannske deilur í nefnd eða eitthvað því um líkt um hvernig túlka skuli, jafnvel um viðkvæm og vandasöm mál, og setja einfaldlega inn í lok lagagreinarinnar þetta margfræga: Nánari ákvæði um þetta skulu sett í reglugerð - og í raun og veru úr því skal skorið í reglugerð hvernig með skuli fara því það þýðir í raun og veru ekkert annað en það.

Ég skal svo ekki lengja þessar umræður, vildi aðeins fá svör við þessu varðandi annars vegar frv. og reglugerð, því allir vita auðvitað að þessi reglugerð er ómarksplagg þangað til lögin hafa verið samþykkt og hægt er að setja reglugerð eftir þeim lögum sem við samþykkjum hér, og þá vil ég ekki trúa því á hæstv. fjmrh. að hann geri það í nokkru að setja reglugerð þvert á þær lagagreinar sem hér hafa verið samþykktar eins og var glöggt á drögunum sem lesið var upp úr áðan.