17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

125. mál, opinber innkaup

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. hans svör og mér þykir það nokkur trygging að sú reglugerð sem ég hef undir höndum og var send út til umsagnar 15. janúar 1985 verði kannske ekki afgreidd frá fjmrn. eins og hún er í þeirri mynd sem ég hef hana í höndum, en hún hefur líklega verið send út í tíð hæstv. fyrrv. fjmrh.

Í öðru lagi vegna spurningar minnar um sölu á graskögglaverksmiðjum og hvers vegna fasteignasala hefði verið fengið það verkefni að sjá um þá sölu, þá hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að grunnurinn að spurningu minni var sá að einhver sölulaun hlýtur fasteignasalinn að taka fyrir. Ég var að velta því fyrir mér hvort innkaupastofnun ríkisins kynni að taka lægri sölulaun en fasteignasalinn.