17.11.1986
Neðri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

150. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Bent hefur verið á að væntanleg séu allmörg frv. um skattamál hér á komandi vikum.

Þar er í fyrsta lagi bent á það frv. sem hér er nú dreift á borð alþm., um breytingu á lögum um tekju og eignarskatt, en það gerir ekkert annað en að færa skattstigana til og breyta þeim. Þar er hvergi tekið á frádráttarfrumskóginum sem ég held að sé í raun og veru aðalvandamál skattakerfisins á Íslandi í dag. Ef menn ætla sér að lækka skatta, tekjuskatt á einstaklingum, þá er alveg ljóst að menn þurfa jafnframt að leggja til hvað á að koma í staðinn nema menn vilji skera niður félagslega þjónustu á móti þessari skattalækkun. Ég tel að það sé alveg augljóst og hægt að sýna fram á það með tölum að fyrirtæki hér á landi bera mjög litla skatta. Þau eru í skjóli af þessum frádráttarfrumskógi. Ég held að leiðin til að lækka verulega tekjuskatt á einstaklingum og hækka skattfrelsismörk í raun til frambúðar sé sú að flytja skattbyrðina að einhverju leyti í staðinn yfir á fyrirtækin. Í öðru lagi hefur verið minnt aðeins á frv. um virðisaukaskatt, en ég ætla ekki að fara neitt út í umræðu um það, og í þriðja lagi hefur verið nefnt hér frv. um breytingu á tollalögum.

En þannig háttar til, herra forseti, að um það er talað að það fari jafnvel fram alþingiskosningar fyrir miðjan apríl á næsta ári. Fari það svo, sem mér skilst að sé krafan í flokki fjmrh., þá þýðir það að menn þurfa að komast hér til kosningabaráttu, þó ekki væri annað, þegar kannske einn eða tveir mánuðir eru liðnir af næsta ári. Það þýðir að tíminn til starfa hér á Alþingi, m.a. til að taka á stórum og þýðingarmiklum málum eins og grundvallarbreytingu á lögum um óbeina skatta, sem væri upptaka virðisaukaskatts, eins og á tollalögum, tíminn til að taka á þessum málum er að verða hverfandi lítill. Ég verð enn og aftur að láta í ljós undrun á því hvernig á því stendur að menn eru þennan tíma að þvælast með málin í stjórnarflokkunum þegar jafnvel er búið að afgreiða þau í ríkisstjórninni eins og þetta mál sem hæstv. dómsmrh. greindi frá áðan varðandi einfalda, alveg nauðaeinfalda breytingu á hegningarlögunum sem er í raun og veru bara samræming við skattalögin. En það er einhver brotalöm í verkstjórninni á ríkisstjórnarheimilinu í þessum efnum. Ef það er ekki það að þeir hlaupi með leyndarmálin hver fyrir öðrum þá er það eitthvað annað sem þeir eru að bauka við.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og vænti þess að þær geti aukið skilning á þessu máli í heild.