18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin við spurningum mínum þó að ég sé misjafnlega ánægður með þau svör. En spurningarnar voru byggðar á hugmyndum heimamanna um úrlausnir og heimamenn munu fylgja þeim eftir á öðrum vettvangi.

Ráðherra svaraði engu spurningum mínum um hvort hann vildi beita sér fyrir því að það yrði gerð gagnger rannsókn á þorskstofninum í Húnaflóa sem ég held að sé full ástæða til að gera í þessu sambandi.

Það er einnig misskilningur hjá ráðherranum að vandinn sé næsta árs. Aflakvótinn verður búinn um næstu mánaðamót ef veiðarnar ganga sæmilega.

Eins og líflegt svar ráðherrans áðan bar með sér er raunar ekkert verið að gera í þessu stóra máli í sjútvrn., ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég vil hins vegar fagna því, sem fram kom hjá ráðherranum, að nú skuli eiga að standa við það fyrirheit, sem er búið að gefa fyrir alllöngu, að það skuli fylgst nákvæmlega og ítarlega með veiðunum frá degi til dags og einnig með þeim svæðum sem hefur verið lokað. Það held ég að sé mjög nauðsynlegt. Ég fagna því að það skuli nú vera brugðið við í þeim efnum.

Ég held að það sé misskilningur hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að það sé svipaður vandi uppi annars staðar í sambandi við rækjuveiðar. Ég held að það séu fá svæði sem eru jafngersamlega háð rækjuveiðum og Húnaflóasvæðið. Ég held að raunverulega verði ástandið alvarlegast hjá þeim sjómönnum er veiðarnar stunda á um 20 bátum, langflestum innan við 30 tonn að stærð. Þessir bátar hafa ekki að öðrum veiðum að hverfa nema gripið verði til sérstakra ráðstafana og einhverra af þeim ráðstöfunum sem ég hef hér bent á.

Vinnslustöðvarnar í landi yrðu líka fljótt hráefnislausar, en það vinna 120-140 manns á svæðinu við Húnaflóa beint við vinnsluna og flest konur.

Í efnahagslegu tilliti yrði um að ræða gífurlegt áfall fyrir svæðið í heild sinni, en áætla má að aflaverðmæti á síðustu vertíð hafi numið um 250 millj. kr. miðað við verð á rækju í dag.

Hér er um stórmál að ræða fyrir Húnaflóasvæðið sem huga þarf fljótt að lausn á. Stjórnvöld verða að láta þetta mál til sín taka sem allra fyrst og skoða hugmyndir heimamanna með velvilja. Ég treysti því raunar að hæstv. sjútvrh. hafi góðan skilning og vilja í því efni.