20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

62. mál, samfélagsþjónusta

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur verið hreyft gagnrýni gagnvart þeirri nefnd sem starfað hefur að fangelsismálum og sú gagnrýni er réttmæt því það hefur dregist úr hömlu að nefndin skilaði sínu áliti. Kannske hefur það átt sinn þátt í hve seint hefur gengið að þetta verkefni er meira og stærra en nokkrum nefndarmanni hefur flogið í hug þegar hann féllst á að taka þátt í nefndinni og ákvarðanataka öll erfiðari en virðist við fyrstu sýn.

Það liggur í sjálfu sér ljóst fyrir að einstakir nefndarmenn hafa orðið margs vísari á þessum tíma, áttað sig á mörgu. Eitt af því sem blasir við og hér hefur verið rætt er að það er allt of lítil vinnustarfsemi í fangelsunum á Íslandi. Tíminn er lengur að líða hjá þeim sem þar eru inni af þeirri ástæðu og fangelsin sennilega af þeirri ástæðu einnig meiri refsivistarstofnanir en betrunarhæli, ef svo mætti komast að orði. Það blasir aftur á móti við að sá hópur manna sem mildasta fær dóma lætur sér síst segjast. Það er sá hópurinn sem lendir í mestum voðaverkum sem lætur sér segjast og lendir ekki aftur inn fyrir fangelsismúrana. Hinir sem fá minni dóma eru að koma inn aftur og aftur. (GJG: Það er hættulegt að alhæfa.) Það er hættulegt að alhæfa.

Það er alveg hárrétt athugað. En það var mjög fróðlegt að kynnast viðhorfum fanganna sjálfra í þessum efnum og átta sig á því að ábyggilega hugsa þeir margir hverjir mjög mikið um þessi mál.

Ég er þeirrar skoðunar að stundum gleymist, þegar umræðan er tekin um að það sé harkalegt að taka menn úr umferð og setja þá inn fyrir fangelsisveggina, að að hluta til er þetta öryggisatriði gagnvart mönnunum sjálfum vegna þess að refsigleði samfélagsins er einnig veruleg. Við verðum gjarnan varir við það. Ég er ekki viss um að á öllum sviðum sé nokkurt vit í því að stytta dóma eða minnka vegna þess að ég óttast þá að samfélagið mundi ekki una slíku og teldi að mennirnir fengju of milda meðferð miðað við það sem þeir hefðu aðhafst.

Ég fagna þeirri hugmynd sem hér er sett fram og tel sjálfsagt að hún verði reynd. Ég óttast aftur á móti að í sumum tilfellum geti þetta leitt til þess að menn geti haldið áfram upptekinni iðju þann tíma sem þeir vinna ekki að þeim störfum sem ætlast er til og að það komi í ljós ýmsir vankantar í framkvæmdinni. En það væri vel ef það væri ekki.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað