20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að vara við þeirri hugsun sem fram kemur í þessari till. eða liggur að baki hennar. Ég held að öllum sé ljóst hvað hv. flm. er að fara í þessum efnum. Þó að vísað sé til leiðbeininga í fskj., þar sem ekki er meðtalið menntakerfið og heilbrigðiskerfið í heild sinni, heldur aðeins einstakir þættir, er auðvitað alveg ljóst að hér er verið að vísa til þess að fjmrh. og aðrir ráðherrar geri athugun á því á hvaða sviðum ríkisreksturs sé hagkvæmt að efna til útboða. Ég vek sérstaka athygli á því. Það er hagkvæmnisþátturinn sem vísað er til sérstaklega. Það er ekki þjónustuþátturinn eða þjónustan við almenning sem hér situr í fyrirrúmi þegar mælt er fyrir þessu máli og við höfum orðið vör við það hér á Alþingi hvar hjartað slær hjá flokksmönnum hv. flm. þessa máls. Hér síðast var verið að mæla fyrir tillögu á síðasta fundi Sþ. m.a. um að leggja niður Áfengisverslun ríkisins og láta einkaaðila um að koma áfenginu á markað og þannig má nefna mörg dæmi. Við þekkjum þá viðleitni í heilbrigðiskerfinu sem er til þess að færa þjónustuna til einkaaðila sem sannanlega hefur þegar skert þjónustu sína gagnvart almenningi og er mjög varhugaverð þróun og ekki síður þær hugmyndir sem varða menntakerfið í landinu og einkaskólinn, Tjarnarskóli, var nú einn vísir að því. En auðvitað skyldi ríkið taka á sig áhættuna og bera í raun kostnaðinn til þess að koma hugsjónamálum af því tagi eitthvað áleiðis.

Ég vara mjög við þeirri hugsun sem er að baki þessu og þau mál voru raunar rædd af hv. 3. þm. Reykv. þegar hann mælti fyrir þáltill. sem hann er 1. flm. að um úttekt á markaðshyggju þeirri sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og afleiðingar hennar á íslenskt þjóðfélag þannig að í rauninni þyrfti þessi hugsun, sem hér er á ferðinni og hér er mælt fyrir, að koma einnig þar til sérstakrar skoðunar.

Ég vildi auk þess vekja athygli á í þessu samhengi þskj. 94, sem er till. til þál. um könnun á hagkvæmni útboða og nánari reglur um framkvæmd þeirra þar sem 1. flm. er hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan og varðar að vísu annað mál. Þar er verið að vara við því að einstakir stórir aðilar í samfélaginu, ríkið, hagi sinni útboðsstarfsemi þannig að einkaaðilar í héruðum eða þeir sem hafa sinnt verkefnum heima fyrir í héruðum missi þau til stórra aðila sem undirbjóða. Við höfum séð að nokkru leyti til hvers slík útboðsstefna hefur leitt í opinberum framkvæmdum, m.a. hjá Vegagerð ríkisins, þar sem fjöldi aðila eða a.m.k. þó nokkuð margir hafa farið á hausinn og skilið verk eftir í ólestri. Þeir sem hafa tekið að sér útboð og boðið langt undir kostnaðarverði og kostnaðarverðið eða réttara sagt það sem út úr útboðunum kemur hefur verið að færast nær kostnaðaráætlun og jafnvel verið yfir kostnaðaráætlun þegar um vegagerð er að ræða. Þarna var hreyft nauðsynjamáli sem nú er til athugunar í nefnd og hefur áður verið flutt hér á Alþingi, sem er eðlilegt að sé skoðað, og varðar útboð. En hér er á ferðinni allt annar hlutur og allt önnur hugsun sem ég sé sérstaka ástæðu til að vara við.