20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

151. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Ég stend upp til að lýsa stuðningi Kvennalistans við þá till. sem hér er til umræðu, en bendi á að Kvennalistinn hefur lagt fram till. um frystingu kjarnorkuvopna sem er til meðferðar í þinginu.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það var hér til umræðu s.l. þriðjudag eins og vikið hefur verið að. En sú till. sem hér liggur fyrir er önnur leið að því sama marki sem við Kvennalistakonur höfum lagt til og þess vegna erum við henni að sjálfsögðu sammála.

Í þessari till. og þessum umræðum um frystingu kjarnorkuvopna er verið að ræða um stuðning við ákveðnar hugmyndir í afvopnunarmálum. Hæstv. utanrrh. nefndi áðan að afvopnunarmálin hefðu tekið nýja stefnu. Ég á satt að segja ákaflega erfitt með að sjá í hverju sú nýja stefna felst því að það verður ekki séð annað en viðræður stórveldanna hafi verið nánast árangurslausar til þessa, þ.e. síðustu ára. Mér vitanlega hafa hugmyndir um frystingu aldrei átt miklu fylgi að fagna meðal stórveldanna. Það eru fyrst og fremst önnur ríki, friðarhreyfingar og ýmsir sérfræðingar sem fjalla um friðarmál sem hafa lagt fram slíkar hugmyndir. Menn minnast þess kannske að það er til í Bandaríkjunum hreyfing sem einmitt kennir sig við frystingu, Freeze-hreyfingin svokallaða.

Það má lengi um það ræða hvaða hugmyndir leiði til árangurs eða hvaða leiðir séu vænlegastar, en öll þessi umræða gengur út á það í raun og veru að ríki heims lýsi yfir ákveðnum vilja, reyni að þrýsta á stórveldin, enda veitir ekki af. Síðan reynir auðvitað á hvort þær tillögur fela í sér einhverja tæknilega erfiðleika. Sú tillaga sem hér er til umræðu gengur út á það að Alþingi Íslendinga lýsi yfir stuðningi við ákveðnar hugmyndir í afvopnunarmálum og taki þar með skelegga afstöðu með afvopnun í stað þess að horfa á og bíða átekta.