20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

169. mál, tannlæknaþjónusta í héraði

Flm. (Þórdís Bergsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérfræðiþjónustu tannlækna í héraði á þskj. 179. Meðflm. minn er hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbr.- og trmrh. að beita sér fyrir því að sérfræðiþjónustu á sviði tannlækninga verði sinnt í héraði með reglubundnum og skipulegum hætti.“

Ég mun ekki hafa annan formála að þessu en grg. vegna þess að það mun hafa verið samþykkt till. hér um svipað efni og eins og segir hér í lokin er þessi till. flutt fyrst og fremst til að herða á þessu máli. En í grg. segir, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er þurfa þeir sem búa í strjálbýlinu að sækja alla sérfræðiþjónustu á sviði tannlækna til höfuðborgarsvæðisins eða Akureyrar. Hefur þetta í för með sér miklar fjarvistir frá skólum og vinnu og fjárhagslegt vinnutap þar sem oft er um nokkra daga að ræða.“

Ég get getið þess að t.d. á Austfjörðum er ekki óalgengt að það taki þrjá daga yfir veturinn fyrir fólk að fara í tannréttingar þó að það þurfi að stoppa eins og tíu mínútur í Reykjavík.

„Töluverður kostnaður fylgir þessum ferðum, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og hið opinbera. Erfitt er að meta kostnað einstaklinganna, en samkvæmt upplýsingum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins má reikna með að um 55% greiðslna vegna endurtekinna ferða sjúkratryggðra séu til komnar vegna tannréttinga og tannlækninga. Nam þessi upphæð á árinu 1985 tæpum 13 millj. kr.

Á undanförnum árum hefur hið opinbera í ríkara mæli reynt að standa fyrir sérhæfðri læknisþjónustu í strjálbýlinu. Má sem dæmi nefna augnlækningaþjónustu og þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Eru allir sammála um nauðsyn þessarar þjónustu og enn fremur að sérhæfðri tannlæknaþjónustu, þ.e. einkum tannréttingum, þurfi að sinna á sama hátt, enda rökin fyrir henni þau sömu og varðandi augna- og eyrnaþjónustu.

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi s.l. haust var samþykkt svohljóðandi áskorun á heilbr.- og trmrh., með leyfi forseta:

„Aðalfundur SSA 1986 skorar á heilbr.- og trmrh. að beita sér fyrir að sérfræðiþjónustu á sviði tannlækninga verði sinnt í héraði með reglubundnum og skipulegum hætti eins og t.d. varðandi augnlækningar. Í grg. með till. segir:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja að sá aukakostnaður, er fólk í dreifbýli verður fyrir við að sækja þessa þjónustu til Reykjavíkur, er gífurlega mikill. Þess vegna er farið fram á það við heilbrrn. og Tryggingastofnun ríkisins að leita leiða til úrbóta t.d. með því að senda sérfræðinga út á landsbyggðina með reglubundnu millibili til að annast þessa þjónustu. Ekki væri ólíklegt að slíkt fyrirkomulag leiddi til sparnaðar bæði fyrir einstaklingana og þjóðfélagið.“

Á það má benda að Alþingi samþykkti 20. júní 1985 þál. um bætt skipulag á þjónustu vegna tannlækninga. Hún var flutt af meðflm. mínum, hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita allra leiða til að koma á ákveðinni, skipulegri þjónustu í tannréttingum. Skal um málið leita samvinnu við Tannlæknafélag Íslands og samráð haft við Tryggingastofnun ríkisins um mögulega framkvæmd þess. Þessi tillaga er flutt til að herða á þessu máli.“

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessari till. verði vísað til félmn. og síðari umræðu að lokinni þessari umræðu.