20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það eru aðeins örfá atriði sem ég tel nauðsynlegt að komi fram vegna þeirra umræðna sem orðið hafa, m.a. um Ríkisútvarpið.

Það hefur verið mikið gumað af því að nú ætti Kvikmyndasjóður að fá stóraukið fjármagn, 55 milljónir. Allt gott um það. Nauðsynlegt er að efla innlenda dagskrárgerð. En þetta er nú eiginlega sú sama upphæð og Ríkisútvarpið er svipt með þessum lögum.

Þá vildi ég fá að spyrja hæstv. fjmrh. tveggja eða þriggja spurninga. Hann sagði að ríkisstjórnin stæði öli að því að svipta Ríkisútvarpið tekjum með þessum hætti. Mér heyrist á hv. þm. Framsóknarflokksins í þessari deild að Framsóknarflokkurinn standi hreint ekkert að þessu. Það væri ágætt að fá þetta á hreint. Í öðru lagi hefur verið spurt og hæstv. ráðherra svarar því hér á eftir: Hvað á að selja? Hv. þm. Haraldur Ólafsson spurði: Á að selja dreifikerfið? Ég vek athygli á því að ef á að selja dreifikerfi Rásar 2 er um leið verið að selja hluta af dreifikerfi sjónvarpsins fyrir allt landið. Hvað er það sem hæstv. fjmrh. ætlar að selja?

Í öðru lagi vil ég, áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, benda á að um leið og er vegið svona að Ríkisútvarpinu er lyft undir einkastöðvarnar. Mér er t.d. kunnugt um að hæstv. fjmrh. felldi niður öll aðflutningsgjöld af svokölluðum „afruglurum“ sem áskrifendur þessarar sjónvarpsstöðvar nýju nota. Ég fékk þær upplýsingar í fjmrn. að hann hefði gert það skv. 6. gr. fjárlaga í ár, lið 3.9. Ég vil, virðulegur forseti, halda því fram að fjmrh. hafi ekki haft neina heimild til að gera þetta. Það er auðvitað álit í lagi að fella niður svona aðflutningsgjöld en til þess þarf hæstv. ráðherra heimildir Alþingis. Og vildi ég nú mælast til þess að hæstv. ráðherra hlustaði á umrædda heimildargrein sem er í fjárlögunum, en hún hljóðar svona:

„Að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af tækjum sem flutt eru inn til aukningar á dreifikerfi útvarps“ - Þetta er skv. upplýsingum fjmrn. Eru afruglararnir til að auka dreifikerfi útvarps? - „svo og óáteknum filmum, myndböndum og hljóðböndum fyrir útvarp.“ - Falla þessir „afruglarar“ undir það? - „Fjmrn. setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“ Ég fékk þær upplýsingar í fjmrn. í morgun að aðflutningsgjöldin af þessum afruglurum væru felld niður skv. þessari heimildargrein fjárlaganna.

Nú spyr ég ráðherrann: Hvernig í ósköpunum er hægt að túlka þetta svona? Þetta er auðvitað lýsandi dæmi um það hvernig nú er vegið að Ríkisútvarpinu, en menn teygja sig út á ystu nöf og lengra sýnist mér, - til þess að hampa hér einkaframtakinu. Þetta er auðvitað dæmi um stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Ríkisútvarpinu.