20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Það mun vera rétt sem fram kom í ræðu hv. 8. þm. Reykv. að ég fór ekki mörgum orðum í fyrri hluta umræðunnar um spurningu hans sem lýtur að því hvaða arð þau verkefni gefa sem fjármögnuð hafa verið með sölu spariskírteina. Og ég geri ráð fyrir að hann viti auðvitað svarið sjálfur vegna þess að andvirði seldra spariskírteina er ekki afmarkað til neinna tiltekinna verkefna. Það fer, að svo miklu leyti sem það hrekkur til, til almennra framkvæmda, eða þjónustu, sem kostaðar eru af ríkissjóði. Það má því sjálfsagt stilla svarinu upp á ýmsa vegu. Ef þessir peningar standa undir hlutafjárframlögum til steinullarverksmiðju, svo dæmi séu tekin, skila þeir ekki arði, ef þeir standa undir framlögum til skóla skila þeir þjóðfélaginu mjög miklum arði. Og þannig má auðvitað stilla þessu svari upp eftir því hvaða verkefni menn tiltaka. Álit er það þó meira og minna út í bláinn vegna þess að andvirði seldra spariskírteina er varið almennt til þeirra framkvæmda eða þjónustuverkefna sem ríkissjóður stendur undir.

Hv. 9. þm. Reykv. vék að þeim umræðum sem urðu þegar lánsfjárlögin komu til umræðu í síðustu viku og lúta að Rás 2. Það er rétt að rifja upp hvernig sú umræða upphófst. Ég svaraði hv. 5. landsk. þm. á þann veg að þessa spurningu mætti setja fram vegna þess að hann hélt því fram að með lánsfjárlagafrv. væri verið að knésetja Ríkisútvarpið og það hefði mikilvægu hlutverki að gegna í menningarlegum efnum. Undir það hef ég tekið en varpaði því fram að ef menn hefðu áhyggjur af því að það hefði ekki fjármagn til þess að fárfesta til þess þjónustuhlutverks sem það á að sinna í menningarlegum efnum mætti alveg spyrja hvort ekki væri ástæða til að losa um fjárfestingu að því er varðar starfsemi eins og Rás 2 þar sem einkastöðvar geta sinnt því hlutverki.

Því hefur verið haldið fram að þetta yrði einhver sérstök árás á landsbyggðina. Ég er allt annarrar skoðunar. Ég minni á að það voru kapalstöðvar úti á landsbyggðinni sem ruddu brautina fyrir frjálsan útvarpsrekstur, framtak manna í litlum sveitarfélögum að koma á kapalsjónvarpi sem höfðu verulega mikil áhrif í þá veru að menn komust fram með þessar hugmyndir.

Auðvitað er það svo að um þetta hafa staðið deilur og það er auðvitað ljóst að margir hv. þm. hafa verið á móti útvarpsfrelsi. Og það er ekki nema eðlilegt að þeir haldi sínum sjónarmiðum fram. Af minni hálfu kom alveg skýrt fram í þessari umræðu að ég lagði ekki og hef ekki lagt fram neinar tillögur í þessu efni. Ég varpaði fram þessari spurningu að þetta mættu menn íhuga, að losa fjárfestingu undir þennan hluta af rekstri útvarpsins ef menn teldu að sömu fjármunum væri betur varið til annarra hluta. Almennt séð þá felst í frv. til lánsfjárlaga að þessu leyti aðhald að fjárfestingum Ríkisútvarpsins eins og ákaflega margra annarra stofnana í þjóðfélaginu. Fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga gera ráð fyrir að á fjárfestingu sé haft hóf og það gildir auðvitað um Ríkisútvarpið eins og aðrar stofnanir að það verður að sætta sig við það. Það hefur komið fram, m.a. hjá talsmönnum Alþýðuflokksins, að þeir telja að boginn sé of hátt spenntur í útgjöldum hins opinbera. En það stendur hins vegar ekki á því að á öllum þeim sviðum þar sem reynt er að hafa hemil á útgjöldum, þar sem reynt er að hafa hemil á fjárfestingu, standa þeir fremstir í flokki þeirra sem gagnrýna. Og það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir þegar menn bera þessar ræður saman, í annarri er gagnrýni á það að útgjöldin séu of mikil, það sé of mikil þensla í fjárlögum og lánsfjárlögum, en svo í hinni ræðunni sem þeir flytja felst harkaleg gagnrýni á hvern einasta lið þar sem aðhalds hefur verið gætt og skornar hafa verið niður fjárveitingar, hvort sem er til þjónustu eða fjárfestinga. Það fer ekki mikið fyrir samræminu í þeim málflutningi.

Auðvitað ætla ég ekki að fara að ræða í einstökum atriðum, ef til þess kæmi að Rás 2 yrði seld, hvað ætti að selja þar með eða ekki. Ég tel hins vegar, og stend við það sem ég sagði áður, að ef menn telja að útvarpið sé í þröng til fjárfestingar megi hugleiða að nota þá fjármuni sem þarna eru bundnir. Ef útvarpið vill ekki gera það verður það að sætta sig við að það hefur minna til fjárfestingar til annarra verkefna á þessu ári og verður að taka eitthvað lengri tíma til að ljúka þeim verkefnum sem fyrir hendi eru. Það er eins með Ríkisútvarpið og ýmsar aðrar stofnanir.

Hv. 5. þm. Vesturl. innti eftir því hvaða tímasetningar ríkisstjórnin hefði sett vegna erfiðleika sem Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveita Akureyrar eiga við að etja. Ég tel rétt að spurningu af þessu tagi sé beint til hæstv. iðnrh. Það sem lýtur að ákvæðum lánsfjárlaganna er spurning um þá heildarupphæð sem þar er um að ræða til hitaveitna í því skyni að þær geti skuldbreytt lánum. Upphæðin sem er í lánsfjárlagafrv. gerir ekki ráð fyrir nýjum fjárfestingum heldur möguleikum til þess að endurfjármagna og skuldbreyta þeim lánum sem einstakar hitaveitur eru með núna. Og í umræðunni hér í byrjun kom skýrt fram að ekki liggja fyrir tillögur um það með hvaða hætti þessari upphæð yrði skipt á milli einstakra hitaveitna. Við höfum talið eðlilegt að sú skipting komi fram í meðferð frv. hér á hinu háa Alþingi, enda þarf enn að afla viðbótarupplýsinga frá einstökum hitaveitum. Það er ekki einungis að þessar stóru hitaveitur eigi við vanda að etja, ýmsar smærri hitaveitur eiga líka við erfiðleika að stríða, m.a. vegna þess að þær eru með lán til sinna framkvæmda sem eiga að endurgreiðast á tiltölulega skömmum tíma. Því er eðlilegt að horfa til þess að auðvelda þeim skuldbreytingar því það verður að ætla þessum fyrirtækjum eðlilegan tíma til þess að endurgreiða stofnkostnað.

Að því er varðar atriðið sem hv. 2. þm. Austurl. vék að um Framkvæmdasjóð fatlaðra skýrði ég það í fyrri hluta umræðunnar hvaða ástæður liggja til þessa ákvæðis í 18. gr. frv. Skv. þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum mun vera um að ræða u.þ.b. 30 millj. kr. Ég get alveg tekið undir með hv. 2. þm. Austurl. að á þessu sviði bíða fjölmörg verkefni, brýn úrlausnarefni. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að við ræðum öðru hvoru hér á hinu háa Alþingi þau miklu verk sem unnin hafa verið á þessu sviði. Og það væri ástæða til þess að við beindum sjónum okkar a.m.k. endrum og sinnum til þeirrar hröðu og miklu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á þessu sviði og mikil og brýn þörf hefur verið á.

Í þessu efni þurfum við hins vegar að gæta að fleiri hagsmunum. Við verðum hér eins og annars staðar að hyggja að ýmsum öðrum mikilvægum og þörfum útgjöldum og líka að hinu að við verðum að hafa gætur á því hversu miklar byrðar við leggjum á hverju ári á skattgreiðendur. Allt þetta þurfum við að hafa í huga og það hefur verið gert við samningu fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga. Það hefur óhjákvæmilega leitt til þess að við höfum ekki komist hjá því að skerða ýmis lög til þess að haf hemil á útgjöldum og komast hjá frekari skattheimtu en þegar er fyrir hendi.

Ég vek aðeins athygli á því að það er nauðsynlegt þegar þessi mál ber á góma að menn fjalli ekki einvörðungu um þær skerðingar sem hafa verið framkvæmdar í lánsfjárlögum ár eftir ár, heldur horfum við líka til þess að á þessu sviði hafa mikil verk verið unnin og miklum fjármunum verið réttilega varið til þessara verkefna.

Hv. 5. landsk. þm. vék að því að óeðlilegt væri að haga málum á þann veg að hægt væri að koma upp einkasjónvarpsstöðvum sem byggja á trufluðum útsendingum. Ég er ekki þeirrar skoðunar og ég tel að það eigi að haga skattheimtu og gjaldtöku á þann veg að aðstaða sjónvarpsstöðva og útvarpsstöðva sé sem jöfnust. Ég taldi þess vegna eðlilegt að þessi tæki, sem í reynd eru nauðsynleg til þess að dreifing þessa fjölmiðils geti átt sér stað, yrðu undanþegin aðflutnings- og sölugjöldum. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. að leitað verði heimilda í þessu skyni.

Það er hins vegar annað mál og má taka upp til umræðu, eins og fram kom af hálfu hv. 5. landsk. þm., að þetta ætti ekki að gera og það ætti að reyna að hindra frjálsan útvarpsrekstur og frjálsan rekstur sjónvarpsstöðva með því að leggja á sem hæst gjöld. Annað varð ekki skilið af hans orðum. Um þetta er auðvitað meginágreiningur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að greiða götu frjálsra útvarpsstöðva og frjálsra sjónvarpsstöðva. Þessi ágreiningur er ekkert nýr af nálinni. Þessi hv. þm. var einn af aðalandstæðingum frjáls útvarpsreksturs, gerði allt sem í hans valdi stóð, þegar það mál var til meðferðar á Alþingi, til þess að bregða fæti fyrir frjálsan útvarpsrekstur (EG: Þetta er rangt hjá ráðherranum og hann veit það.) - það muna menn - með ýmiss konar brögðum. Auðvitað er um þetta ágreiningur, það er ósköp eðlilegt. Það kom skýrt fram að hann er á móti því að með þessum hætti sé reynt að hliðra til og auðvelda nýjum útvarpsstöðvum að komast á fót. Það er stefna Alþýðuflokksins sem hann mælir þar fyrir og þá vita menn það. Þá vita landsmenn hver afstaða Alþýðuflokksins er í þeim efnum.

Menn sjá það líka af þessum heiftarlegu viðbrögðum við hugmyndum um að selja Rás 2. Það er nákvæmlega sama hvaða atriði það eru í rekstri ríkisins, ef einhverju á að breyta rísa ýmsir upp og segja að hvergi megi breyta neinu í rekstri þar sem opinberir aðilar hafa einu sinni haslað sér völl. Það eru ekki síst talsmenn Alþýðuflokksins sem þannig tala. Þeir mega ekki til þess hugsa að opinber rekstur sé þannig endurskoðaður. Það er sérstakt að hinir nýju liðsmenn Alþýðuflokksins skuli taka undir þennan málflutning að engu megi breyta í opinberum rekstri, hvergi megi hliðra til eða hugsa sér breytingar. Þegar ríkið er einu sinni farið af stað með opinberan rekstur skuli honum haldið áfram alveg endalaust. Það má ekki einu sinni varpa fram hugmyndum í þá veru að taka slíkt til endurskoðunar. Og það er athyglisvert að hinir nýju liðsmenn Alþýðuflokksins skuli taka undir þessi sjónarmið og vera boðberar þessa kerfishugsunarháttar.