25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

132. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það hjá hv. flm. þessarar þáltill. að ég vonast til þess að Alþingi styðji það efni sem þáltill. fjallar um þar sem þetta verk er þegar hafið. Það er búið að gera úttekt á Norðurlandi öllu og er verið að ljúka við það á Vestfjörðum og ætlunin er síðan að verði haldið áfram við þetta um land allt. Ég vona það satt að segja að Alþingi fari ekki að setja fótinn fyrir það. Ég held að slík úttekt, og þess vegna var út í hana farið, sé nauðsynleg þó að hins vegar verði líka að taka tillit til mannlegra sjónarmiða og ekki sé auðvelt að reikna alla hluti út.

Hv. flm. taldi að það væri mjög slæmt að gera bændum frjálst tilboð um að veita þeim stuðning til að breyta um búskaparhætti. Mér skildist á honum að það ætti fremur að gera slíkt með einhverri fyrirskipun og segja: Þú átt að gera þetta og þú átt að gera hitt. Að mínu mati er það miklu æskilegri leið að gera tilboð og vita hverjir telja sér það hagkvæmt án þess beinlínis að knýja menn. Við sem höfum stundað búskap vitum mætavel að það þýðir ekkert að segja einhverjum manni: Þú átt að búa svona og þú átt að segja hinsegin. Búskapur gengur ekki nema menn hafi áhuga fyrir honum. Hann verða menn að hafa til þess að ekki leiði til ófarnaðar. Að því leyti er dæmið dálítið erfiðara við búrekstur en t.d. ýmsan annan atvinnurekstur.

En í sambandi við ýmislegt af því sem hv. flm. ræddi vil ég benda sérstaklega á að þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið og sú stefna sem hefur verið mótuð hafa byggst fyrst og fremst á tillögum Stéttarsambands bænda. Það var Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands sem áttu flesta í þeirri nefnd sem ég skipaði til að marka framleiðslustefnu í landbúnaði. Tillögur þeirrar nefndar voru teknar fyrir á aðalfundi Stéttarsambands bænda á Ísafirði 1984 og gerð þar ályktun um þær. Það voru þær tillögur sem síðan voru grundvöllur að þeirri lagasetningu sem Alþingi samþykkti. Þannig hefur verið mjög náið samstarf haft við bændasamtökin um alla framkvæmd þessara mála.

Hv. flm. vék að samþykktum frá Samtökum sauðfjárbænda. Þau samtök hafa mjög látið markaðsmál til sín taka. Fyrir rúmu ári höfðu þau frumkvæði að því að reyna að vinna að markaði erlendis. Það framtak var stutt af hendi landbrn. og Framleiðnisjóðs, bæði með fjárframlögum og mannafla, en niðurstaðan af þessu hjá Samtökum sauðfjárbænda var sú að ég fékk bréf frá þeirra fulltrúa þar sem hann óskaði eftir því að Samband ísl. samvinnufélaga tæki við þessu verkefni.

Hins vegar vil ég taka undir það að sölumennsku verður að stunda eins og nokkur kostur er. Á s.l. ári hefur verið gert meira söluátak með framleiðsluvörur hinna hefðbundnu búgreina innanlands en nokkru sinni fyrr. Það hefur borið árangur þannig að á s.l. sumri, eftir að þessi vinna hafði farið fram bæði með auglýsingum og verðlækkunum samfara, stóróx sala á kindakjöti í júlí og ágúst og fór þá upp í 900 tonn hvorn mánuðinn. Það var álit sölumanna að þar væri um raunverulega neysluaukningu að ræða. Sama hefur gerst einnig í sambandi við mjólkurvörurnar. Það hefur verið mikil söluaukning síðustu mánuði. Það var það sem gerði kleift að gera samning milli Stéttarsambands bænda og ríkisstjórnar sem fól í sér að þeir bændur sem áfram munu halda búskap á næsta verðlagsári eigi möguleika á að fá úthlutað ekki minni fullvirðisrétti en þeir munu fá á þessu verðlagsári.

Ég rakti það í síðustu viku að fyrsta árið sem samningurinn var í gildi fengu framleiðendur á lögbýlum fullt verð fyrir sína framleiðslu á kindakjöti og samkvæmt upplýsingum sem lágu fyrir nú eftir mánaðamótin voru horfur á að það yrði mjög lítill skortur á að það mark næðist einnig á þessu verðlagsári. Það virðist því vera nokkuð mikið öfugmæli að hér sé um gífurlegan niðurskurð að ræða.

Hitt er annað að við þekkjum öll fjölmarga bændur sem vilja stækka sín bú og telja sig hafa þörf á því, en það er því aðeins hægt að svigrúm sé á markaði. Af þeim sökum er verið er að reyna að ná því marki að samhliða því að afkastagetan í búrekstrinum vex verði hægt að nýta hana með því að það verði þá færri sem vinna að þessu. Aðrir snúi sér að nýjum möguleikum.

Herra forseti. Tíminn er fljótur að líða þegar farið er að ræða um þessi mál, en ég vil aðeins að lokum víkja að einu atriði sem hv. þm. minntist á, um skömmtunarseðla. Ég vil undirstrika það, sem ég áður sagði, að sú úthlutun á fullvirðisrétti sem nú hefur farið fram í fyrsta skipti fyrir fram hvað varðar sauðfjárræktina er lágmarkstrygging og einstakir bændur munu að sjálfsögðu njóta þess ef meira svigrúm skapast til viðbótar þar eins og gerðist t.d. á öllum svæðum í mjólkurframleiðslunni á síðasta verðlagsári. Þar var úthlutað þegar upp var staðið magni sem einstakir framleiðendur höfðu ekki notað. Sama mun að sjálfsögðu gerast þarna. Miðað við reynsluna frá því í fyrra og svo einnig núna benda allar líkur til þess að mjög lítið vanti á að endar nái saman. Þá ætti það einnig að takast á næsta ári þó að það verði ekki endanlega ljóst fyrr en uppgjör liggur fyrir.