25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

145. mál, leiðbeiningarmerki við vegi

Flm. (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 155 er ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Till. er um skipun nefndar er setji reglur um auglýsinga- og leiðbeiningarmerki við vegi landsins. Tillgr. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er semji reglur um uppsetningu auglýsinga- og leiðbeiningarmerkja við vegi landsins.

Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Vegagerð ríkisins, einum tilnefndum af Náttúruverndarráði, einum tilnefndum af Ferðamálaráði, einum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum án tilnefningar.

Nefndin endurskoði núgildandi lög og reglugerðir er fjalla um auglýsingar og leiðbeiningarmerki meðfram vegum og geri tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum í því sambandi.“

Þannig hljóðar tillgr. Með bættum samgöngum fjölgar sífellt því fólki, innlendu og erlendu, er um vegi landsins ferðast og er það ánægjulegt. Aukinn straumur ferðafólks kallar á aukna þjónustu og hefur mikil uppbygging orðið í ferðamannaþjónustu víða um land. Ferðamannaþjónustan er orðin að atvinnuvegi sem skapar ný atvinnutækifæri og stendur undir verulegum fjárfestingum sem lagt hefur verið í.

Af eðlilegum ástæðum er auðveldast að sinna þessari atvinnugrein meðfram þjóðvegum landsins þar sem ferðamannastraumurinn er mestur en fleiri vilja þó hasla sér völl á þessu sviði og hafa upp á ýmislegt að bjóða. Það á ekki síst við um þéttbýlisstaði, skóla með sumarhótelþjónustu og sveitabæi er standa nærri hringveginum en þó ekki alveg við hann.

Þeir sem stunda ferðamannaþjónustu við þessar aðstæður hafa orðið áþreifanlega varir við það að ferðafólk veit ekki af þeirri þjónustu er þeir hafa upp á að bjóða og ekur fram hjá. Margir hafa því gripið til þess ráðs að auglýsa þjónustu sína við þjóðvegina, ferðamönnum til mikils hægðarauka. Í sumum tilfellum hefur ferðaþjónustufólk lagt í verulegan kostnað við hönnun, framleiðslu og uppsetningu slíkra auglýsinga- eða leiðbeiningarskilta.

Sum þessara auglýsingaskilta brjóta hins vegar í bága við reglur um uppsetningu leiðbeiningarmerkja við þjóðvegi er Náttúruverndarráð og Vegagerð ríkisins hafa komið sér saman um. Ýmsir líta þó á þær reglur fyrst og fremst sem viðmiðunarreglur sem enga staðfestingu hafi fengið, enda margt í þeim sem orkar tvímælis. Það vekur t.d. furðu margra að ekki skuli mega upplýsa þá er um þjóðveginn fara um veitinga- og gistiþjónustu, sundlaug og tjaldstæði sem þar er í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá þjóðveginum. Margt ferðafólk leitar því langt yfir skammt vegna ónógra upplýsinga. Ágreiningur hefur því risið milli Vegagerðar ríkisins og þeirra er auglýst hafa ferðamannaþjónustu við þjóðvegina um auglýsinga- og leiðbeiningarmerkin. Vegagerðin hefur viljað standa fast á sínum reglum og á sumum svæðum en öðrum ekki framfylgt þeim af mikilli hörku, m.a. með því að fjarlægja auglýsingaskilti og leiðbeiningarmerki. Kærumál hafa gengið milli auglýsenda og Vegagerðarinnar en úrskurður ekki fallið.

Umræddar reglur hafa einnig leitt til þess að auglýsendur hafa komið sér upp alls konar auglýsingaskiltum rétt utan vegsvæðisins, innan girðinga, með leyfi landeigenda. Aðgerðir Vegagerðarinnar hafa því alls ekki komið að því gagni né skapað það aðhald er að var stefnt.

Ljóst er því að reglur Vegagerðarinnar og Náttúruverndarráðs eru ófullnægjandi, bæði frá sjónarmiði þessara stofnana og einnig þeirra er auglýsa vilja sína þjónustu. Sérstaklega á það þó við gagnvart ferðafólki er þarf á því að halda að fá sem bestar og réttastar upplýsingar og leiðbeiningar um hvaða þjónustu það geti fengið er það ekur um landið.

Óheft frelsi til uppsetningar auglýsinga, ekki síst verslunarauglýsinga, meðfram vegum landsins kemur hins vegar að mati flm. ekki til greina. Full nauðsyn er á því að gerðar séu strangar kröfur um útlit og uppsetningu leiðbeiningarmerkja þannig að ekki rísi upp óskipulegur skiltaskógur meðfram þjóðvegunum. Í því sambandi þarf m.a. að taka tillit til umferðaröryggis, náttúruverndar og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Nauðsynlegt er því að setja nýjar reglur um auglýsinga- og leiðbeiningarmerki við þjóðvegi landsins þar sem tekið er tillit til sem flestra hagsmuna og þó sérstaklega til sjónarmiða hins almenna ferðamanns sem þarf á sem bestum upplýsingum og leiðbeiningum að halda á ferðum sínum um landið.

Umrædd till. gerir ráð fyrir því að fleiri komi að því að móta reglur um uppsetningu auglýsinga- og leiðbeiningarmerkja en Vegagerðin og Náttúruverndarráð. Á því er full nauðsyn til að koma í veg fyrir og leysa þann ágreining sem víða er uppi um þessi mál. Sérstök nauðsyn er þó auðvitað á því að við mótun slíkra reglna komist að hagsmunir og sjónarmið ferðaþjónustufólks og hins almenna ferðamanns en út á það gengur þessi till.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað