03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

87. mál, orkusala erlendis

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Útflutningur á raforku var ítarlega kannaður af Orkustofnun 1975 og aftur árið 1980. Í báðum tilvikum var niðurstaðan sú að kostnaður íslenskrar raforku, kominnar til Skotlands, yrði svipaður og vinnslukostnaður raforku þar í landi í kola- og kjarnorkuverum. Með hjálp ASEA-transmission í Västerás í Svíþjóð var málið enn kannað árið 1986 með sömu niðurstöðu og fyrr. ASEA er í fararbroddi í heiminum í flutningstækni af þessu tagi. Meginniðurstaða Orkustofnunar var sú að Íslendingar gætu ekki vænst viðskiptalegs ávinnings af slíkum útflutningi, þ.e. að tekjur yrðu meiri en kostnaður. Hins vegar væri hugsanlegt að Íslendingar hefðu óbeinan ávinning af slíkum orkuútflutningi:

Í fyrsta lagi með því að selja umframorku þegar hún væri fyrir hendi á Íslandi, en slík sala mundi þó takmarkast við þann tíma ársins þegar strengurinn er ekki fulllestaður vegna samningsbundinnar sölu.

Í öðru lagi gætu Íslendingar keypt til baka hlut af umsömdum orkuútflutningi við viss skilyrði, t.d. vegna vatnsskorts hér á landi.

Í þriðja lagi mundi bygging vatnsorkuvera til vinnslu á orku til útflutnings skapa mikla atvinnu.

Í fjórða lagi mundu Íslendingar væntanlega eignast virkjanirnar á 40 árum.

Í fimmta lagi gæti slíkur raforkuútflutningur leyst raforkumál nágranna okkar í Færeyjum til frambúðar.

Í könnun Orkustofnunar var fjallað um hugsanlega tilhögun raforkuútflutnings frá Íslandi sem ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um hér. Í könnuninni var einnig bent á að hugsanlega gæti jarðgas orðið skeinuhættur keppinautur við útflutt rafmagn frá Íslandi, ekki síst ef nýtt jarðgassvæði, áþekkt Trollsvæðinu norska, fyndist á hinum breska hluta Norðursjávarins.

Meginniðurstöður Orkustofnunar voru þær að ekki væru horfur á því að útflutningur á raforku frá Íslandi til Bretlands yrði raunhæfur möguleiki nema afstaða almennings til kola- og kjarnorkustöðva í Bretlandi og Frakklandi breyttist verulega frá því sem nú er. Þetta byggist m.a. á því að Frakkar hafa, og munu hafa a.m.k. næstu 10 ár, verulega umframorku sem þeir vilja gjarnan selja, þar á meðal til Bretlands, en milli landanna hafa nýlega verið lagðir sæstrengir sem flutt geta 2000 mw.

Á síðustu tveimur árum hefur Landsvirkjun haft þessi mál í athugun og verður hér á eftir byggt á þeim athugunum í þessu svari.

Möguleikar á því að senda raforku frá Íslandi um jafnstraumssæstreng til Vestur-Evrópu voru kannaðir á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda án þess þó að gefa ótvíræða niðurstöðu um að slíkur orkuútflutningur væri hagkvæmur. Upp á síðkastið hafa athuganir þessar einkum beinst að möguleikum á flutningi og sölu raforku til Skotlands um sæstreng héðan með viðkomu í Færeyjum. Frá því að síðustu athuganir voru gerðar hefur jafnstraumstækninni fleygt fram, bæði varðandi búnað á endastöðvum og gerð jafnstraumsstrengja. Öryggi jafnstraumssambanda hefur aukist jafnframt því sem kostnaður við þau hefur farið lækkandi. Þessi hagstæða þróun hefur leitt til þess að víða um heim hafa verið lagðir, eða eru í undirbúningi, sæstrengir til raforkuflutnings. Má þar nefna að nýlokið er lagningu fjögurra 50 km sæstrengja milli Frakklands og Bretlands eins og ég minntist fyrr á. Þá er nýbyrjað á framkvæmdum við lagningu um 100 km sæstrengs á milli Svíþjóðar og Finnlands. Flutningsgeta hans er um 500 mw. Ýmis dæmi eru um sæstrengslagnir sem nú eru í athugun og eru þeir allt að 650 km langir eða 950 ef við tökum íslenska dæmið með. Og mesta dýpi sem þekkist og rætt er um að leggja sæstreng í er 3000 m dýpi á milli Frakklands og Korsíku. Flutningsgeta þessara strengja er allt upp í 2000 mw, svo að tekið sé dæmi af streng sem er á milli Malasíu og Sarawak.

Af þessu má sjá að víða eru í athugun sæstrengslagnir af svipaðri stærðargráðu og sæstrengslögnin til Skotlands sem Landsvirkjun hefur nú til athugunar, en þess skal getið að þar er gert ráð fyrir að flutningurinn sé 500 mw, mesta dýpi á leiðinni er um 1000 m og kílómetrafjöldinn er 950. Það eru 500 km til Færeyja og 450 km frá Færeyjum til Skotlands.

Allt bendir til að hægt sé að leysa öll tæknileg vandamál varðandi lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands. Spurningin er hins vegar sú hvort unnt verði að bjóða raforku um sæstreng frá Íslandi til Skotlands á samkeppnisfæru verði í Bretlandi, svo og hvort Bretar séu almennt reiðubúnir til að ljá máls á raforkukaupum frá Íslandi.

Í Bretlandi er orkuöfluninni í aðalatriðum skipt á milli fjögurra fyrirtækja en þau eru Central Electricity Generating Board, sem er þeirra langstærst með um 90% af allri raforkuframleiðslu á Bretlandi en CEGB annast öflun og flutning orku á Englandi og Wales, South of Scotland Electricity Board og North of Scotland Hydro Electric Board, sem annast orkuöflun og dreifingu í Suður- og Norður-Skotlandi, og Northern Ireland Electricity sem gegnir sama hlutverki á Norður-Írlandi.

Þessi orkufyrirtæki eru mjög mismunandi sett hvað varðar uppsett afl með tilliti til eftirspurnar. Þannig búa skosku fyrirtækin og það írska þegar yfir uppsettu afli er gæti nægt þeim til að mæta vaxandi raforkueftirspurn á orkuveitusvæðum sínum fram yfir næstu aldamót. Öðru máli gegnir um CEGB. Hjá því fyrirtæki er fyrirsjáanlegur mikill aflskortur nema ráðist verði í miklar raforkuframkvæmdir á næstu árum. Miðað við núverandi ástand og horfur þarf CEGB á um 10 000 mw eða 10 gw viðbótarafli að halda árið 2000, og allt að 30 000 mw eða 30 gw árið 2010.

Herra forseti. Ég held að það væri gagnlegt að skýra aðeins nánar út þetta svar og kýs þá að setja hér bil í mína ræðu og taka aftur til máls seinna í umræðunni.